Hundarnir á Hæðum

Snati gamli var traustur hundur eins og Hundurinn Snatiþeir gerast bestir. Hann fylgdi jafnan Ragnari bónda, húsbónda sínum án þess að vera fyrir honum eða öðrum. Stundum sat Snati hjá mér og ég klappaði honum og ræddi við þennan lífsreynda vin minn. Hann var eldri en ég, tólf ára strákurinn, og því fjörgamall í hundaárum. Snati var blendingur samansettur úr völdum rólegheitagenum.

En nú var komið að næstu hundakynslóð að spjara sig og sú skyldi vera af alíslenskum stofni. Uppskrúfaður íslenski hundurinn stóð þarna hnarreistur með hringaða rófu, uppsperrt eyrun og taugarnar þandar. Hann rauk til við minnstu ögrun, hljóp, hoppaði og gelti þannig að rólega bæjarfólkið á Hæðum í Skaftafelli með þúsund ára yfirvegun ættanna fannst nóg um, en kraftmikill þótti hundurinn og fékk nafnið Gaukur. Skaftafell Hæðir og GaukurFyrir mér var það Gaukur graði. Það þýddi lítið að fá hjálp Gauks við fjárrekstur, því að hann rauk í rollurnar og rak þær út um allt tún. Kynþroskinn heltók hann, svo að hver hugsun snerist um leitina að útrás. Ferðafólk fékk að kenna á því, þar sem hann stökk aftan á kálfann og riðlaðist á honum. Önnur lausn Gauks graða var að hlaupa niður eftir blautum grasbrekkum með afturhlutann í eftirdragi, sem gaf réttan núningsárangur. Stóri feiti kötturinn fékk að finna fyrir stríðni hundsins, þar sem þeir slógust eins og þeim er í eðli borið og viðureignin endaði jafnan með sáru trýni Gauks. Kattarhlussan fékk því smám saman frið fyrir Gauki, nema þegar hann gat ekki setið á sér, hreinræktaði stríðnispúkinn atarna.

Snati var farinn að spangóla úti undir vegg á kvöldin og síðan á næturna líka. Fyrst virtist það vera vegna þess að neglur hans uxu í hring, en eitthvað annað og meira hrjáði hann innvortis. Laugardag einn sátum við nokkur að spilum inni í stofu þar sem spangólið hélt áfram fyrir utan. Ragnar stóð upp, fór fram og ræddi í lágum hljóðum við Laufeyju konu sína. Okkur spilafólkinu fannst eitthvað grunsamlegt við viðræðurnar. Þá heyrðist Ragnar færa Snata inn í skemmu. Enginn mælti orð frá munni. Þá gall við skot, svo að við hrukkum í kút. Grafarþögn tók við. Síðan var spilað áfram í þögninni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Yndisleg saga og svo Íslensk.  Sé ykkur í anda, þarna spilandi í þögninni með hangandi haus, samsekir sem syndin.    Svona atvik skilja ekki við strákapúka og mun þetta sennilega fylgja þér á leiðarenda.  Af því sannast hið forkveðna að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.

Aumingja Snati.  Svona verður sennilega með okkur..að verða yfirboðnir af einhverjum ungum og gröðum grobbhana sem ekkert veit og ekkert kanna.  Það er margt líkt með lífi hunda og manna.

Takk fyrir þessa kærkomnu sögu í öllu argaþrasinu.  Það virðist blunda stílisti í mínum.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.10.2007 kl. 23:38

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Þakka þér, Jón Steinar. Skemmtileg samlíking hjá þér. Það hefur nú verið þrautin þyngri fyrir hann Ragnar heitinn, það annálaða gæðablóð, að færa Snata úr þjáningu sinni. 

Ívar Pálsson, 2.10.2007 kl. 09:35

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér er eitt af tugum myndbanda á netinu af vinum okkar í vestri salla niður borgara í Írak, svona just for fun.  Ég næ því ekki hvað fjölmiðlar eru að gera hér.  Ekki er þeim borgað fyrir að ljúga og fegra þessa andskotans villimenn.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.10.2007 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband