Sprengiógn í skólum án réttar fórnarlambanna

Sprengingar ógna heilsu grunnskólabarna, án þess að brugðist sé við af hörku. Tvær stúlkur urðu fyrir sprengju sem sprakk úr ruslatunni inni í Hagaskóla í morgun og hafa nú höfuðverk og geta hafa orðið fyrir varanlegum heyrnarmissi, en það er í rannsókn. Sprengja IS BLOG IS

Börn verða fyrir sprengjum innan veggja skólans 

Fleiri sprengingar áttu sér stað og lögreglan fór á staðinn án rannsóknar, en ástandið heldur áfram, aðallega vegna þess að reglum til að sporna gegn ógninni er verulega áfátt. Nú er því svo komið að öfugsnúinn réttur ólögráða sökudólga gerir þeim kleyft að mæta með sprengiefni í skólann og að valda öðrum nemendum heilsutjóni innan veggja skólans, án teljandi mótaðgerða. Æðstu mannréttindi hverrar persónu til lífs (og heilsu) eru þar með lægra sett en persónuréttur til þess að láta ekki aðra leita í fórum manns að hættulegum sprengiefnum. Ekki er um að ræða púðurkerlingar, hvellhettur eða „kínverja“, heldur heimatilbúnar sprengjur, svokölluð „Víti“, þar sem margir hvellsprengihlutar stórra flugelda eða kaka eru raðtengdir til þess að mynda eina risasprengju. Það er langur vegur frá prakkarastrikum fyrri tíma að þessum líkamsárásum í dag sem beinast gegn fjölda barna og gera skólann að skilgreindu hættusvæði.

Réttur saklausra barna er lakari en sökudólganna

SprengingForeldrar stúlknanna munu líkast til leggja fram kæru til lögreglunnar vegna líkamsárásar með kröfu um skaðabætur og refsingu þeirra sem ábyrgð bera. Hugsanlega beinist kæran líka gegn skólanum og hann þar með ábyrgur, þar sem öryggi nemenda er ekki tryggt í viðvarandi ástandi, sem breytist ekki fyrr en varanlegt og alvarlegt líkamstjón hlýst af. Raunar er starfsöryggi kennara líka í hættu. En Persónuvernd hefur gegnið svo langt að senda frá sér úrskurði sem meta rétt grunaðra svo mikinn að illmögulegt er að beita nokkrum eðlilegum agaráðum, ss. að leita í fórum nemenda eða að beita tafarlausum brottrekstri úr skóla. Við þetta ófremdarstand verður ekki unað, þar sem líkur á alvarlegum líkamsmeiðingum eru verulegar. Við foreldrar verðum að gera þá skýlausu kröfu að hver skólastjórn taki þessi öryggismál fyrir sem forgangsverkefni og grípi strax til viðhlítandi aðgerða. T.d. mætti ráða starfsmann öryggisfyrirtækis til þess að leita tilviljanakennt að sprengiefnum (og kannski eggvopnum og fíkniefnum í leiðinni!) en sá starfsmaður þarf að hafa afdráttarlausa heimild til þess arna. Menntamálaráðherra (eða dómsmála-?) er líklega eini aðilinn sem getur komið þessari skipan mála á, þannig að ég beini þessu sérstaklega til hennar.

Foreldrar líði ekki ofbeldi gegn börnum sínum

Foreldrar geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að biðja börn sín að taka eftir og segja frá þessu væntanlega afbrotafólki eða að fá þau ofan af fyrirætlun sinni, því að öllum er greiði gerður með því að þessu linni strax. Annars heldur ástandið áfram að vera eins og í amerískum „High-school“ í fátækrahverfi í lélegri bíómynd um afbrotagengi, í stað þess að vera í grunnskóla þjóðar með mestu lífsgæði jarðar og sem vill veg menntunar sem mestan.

Látið heyra í ykkur ef þið þekkið til viðlíka atburða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sem foreldri nemanda í þessum skóla hef ég verulegar áhyggjur af þessu..hafði bara ekki heyrt neitt um þetta fyrr en núna. Það hljóta að vera til vinnureglur sem skólanum er skylt af fara eftir til að gæta öryggis barnanna okkar þegar svona uppákomur verða. Sonur minn segir að skólayfirvöld hafi tilkynnt í gær að þeir sem finnast með sprengiefni í skólanum verði tilkynntir til lögreglu. Vonandi finnst það þá áður en það springur!!!! Mér finnst að það eigi að mæta svona viðburðum með hörku og þannig fordæmi að það sé þeim algerlega ljóst sem eru að koma þessu sprengiefni fyrir að það verða eftirmálar af þeim gjörningi fyrir þá og ekki sé tekið neinum vettlingatökum á brotum sem ógna öryggi annarra.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.1.2008 kl. 07:31

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Það er verið að skrifa um hér í Svíþjóð að það ætti að vera strangari lög um flugeldur en annars hef ég ekki heyrt neitt um svona laga hér.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 8.1.2008 kl. 09:15

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Katrín, til þess að sprengiefni finnist þarf að leita að því. Það er ekki gert í dag.

Fyrir þó nokkrum árum, skilst mér, var stráki vikið úr Hagaskóla í viku vegna hurðarsprengju (örlítillar hvellhettu). En nú, þegar bomba springur, er fórnarlamba var ekki leitað, haft samband við viðeigandi foreldra, börnunum komið til læknis, vitna leitað, tekin skýrsla af börnunum eða sönnunargögnum haldið. Fórnarlömbin verða náttúrulega rög við að kæra, þar sem refsingar á brotamönnum geta leitt til hefndar þeirra á kærendum. En slíkt gerist varla nema þar sem gengi fá að vaða uppi. Varla er ástandið þannig þarna, eða hvað?

Kannski er bara vonast til þess að áramótabirgðirnar af sprengjum verði bráðum búnar?

Ívar Pálsson, 8.1.2008 kl. 09:26

4 Smámynd: Ang3l

Þegar ég var yngri þá voru nokkrir sem sprengdu ílur í skólanum á unglingaganginum. Minnir að 1 hafi fengið smá brunasár en þáverandi skólastjóri, oft kölluð gribba af ákv. nemendum tók þessa á beinið og voru þeir látnir sitja eftir þvílíkt lengi því fyrir þeim var brottvísun verðlaun.

Svo er það blessaður félagi minn einn sem var í hinum alræmda "Agaskóla" en hann átti þátt í að breyta því nafni í denn og svo voru sprengd upp nokkur klósett en lítið gert samt við því, eiginlega of lítið af bæði mínu, og svo hans mati nú.

En auðvitað á að vera í lagi að leita á ákv. einstaklingum og svo random á öðrum, en ég veit fyrir víst að t.d. sala á fíkniefnum er mjöööög mikil inni í grunnskólum og mun meiri en fólk kærir sig um að vita af. Fyrir utan vopnaburð sem eykst í samræmi við það.

Ang3l, 8.1.2008 kl. 10:30

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Illt er það ef ungt afbrotafólk er óhultara í athöfnum sínum innan grunnskólarnnna heldur en utan. Hugsanlega er það svo, t.d. er hreinlegra að ganga til verks fyrir lögreglu ef nemandinn er staddur úti í búð eða bara ekki á skólalóðinni. Erlendis er þessu yfirleitt öfugt farið, þar sem refsing er margföld ef t.d. fíkniefni eru seld innan skólalóðar eða í ákveðinni fjarlægð frá skóla.

Einn grunnskólanemi sem ég þekkti vel sagði mér að það hafi verið auðveldara fyrir sig að kaupa hass í bíl við grunnskólalóðina hérna en að fá einhvern til þess að kaupa bjór fyrir sig.

Ívar Pálsson, 8.1.2008 kl. 11:00

6 Smámynd: Ellert Júlíusson

Man eftir því þegar ég var á þessum aldri þá var yfirleitt tekið frekar hart á agabrotum, enda voru þau satt best að segja mjög sjaldgæf.  Reiðir foreldrar ættu kannski að líta í sinn eigin barm. Með andstöðu sinni við að nokkuð sé hróflað við litlu saklausu greyjunum sínum þá hafa þeir séð til þess að öll vopn hafa verið slegin úr höndum kennara með því að kvarta og kvarta um allt og ekkert.

Ef kennari í dag svo mikið sem talar rangt til þessara krúttubolla þá eru þau farin að kvarta og öskra.

Ekki misskilja, ég er foreldri en ég er algjörlega á móti þessum aulaskap sem viðgengst í skólum gangvart nemendum, tek það nú fram að ég er ekki að hvetja til líkamlegra refsinga en það má vart yrða á þau lengur án þess að kennarinn sé að beita þau "ofbeldi". Eftirsetur, brottvísanir væru ágæt byrjun. Öflugt forvarnastarf fylgdi fast á eftir.

Um leið og "valdið" er komið aftur í hendur skólanna þá fer þetta samfélag að batna.

Ellert Júlíusson, 8.1.2008 kl. 13:26

7 Smámynd: Fran Miller

Það er slæmt að verið sé að sprengja ólöglegar sprengjur í Hagaskóla og auðvitað þarf að taka á svona málum af röggsemi.

Ég trúi því reyndar að skólastjórnendur og önnur yfirvöld geri það með nútímalegri aðferðum en þeim sem Ívar og sumir þeirra sem sett hafa inn athugasemdir leggja til. Það er ekki hægt að kalla ákveðinn hóp unglinga "væntanlega afbrotamenn". Kannski meintir þú mögulega afbrotamenn?

Og það að setja inn öryggisverði einkafyrirtækja til að leita tilviljannakennt á þessum börnum (saklausum unglingsstúlkum líka) að sprengjum, eiturlyfjum eða eggvopnum býður bara meira ofbeldi heim.

Viljum við taka paranojustefnu Bush gagnvart terroistum okkur til fyrirmyndar?

Við erum að fást við börn sem hægt er að leiðbeina.

Elsta dóttir mín sem fædd er 1988 var í þessum skóla og þá voru líka sprengjumál í gangi. Hún og vinkona hennar fengu í sig Víti, ónýt föt og minniháttar brunasár. Mér fannst skólastjórn og foreldrar þeirra sem sprengdu taka afar vel á málum og drengirnir sem sprengdu komu hingað heim og gerðu sér grein fyrir alvörunni. Þetta voru ekki væntanlegir afbrotamenn.

Prakkarar fyrri tíma höfðu bara ekki aðgang að svona miklu púðir.

Nú er næst elsta dóttir mín í 8. bekk í sama skóla og sagði mér frá Vítis-sprengjum.

Mér finnst það auðvitað ekki gott en ég held að "valdið" "öryggisverðir", "brottvísun"eða "líkamlegar refsingar" skili enn minni árangri.

Í þessum skrifum og athugasemdum er verið að tala um góða krakka og vonda krakka. Krakkar eru almennt jafn góðir og það atlæti sem þeir fá og auðvitað eiga alltaf einhverjir við vandamál að stríða. Vandamálin eru af ólíkum toga, stundum er búið að greina þau á einhvern hátt, stundum eru þetta foreldravandamál.

Ber okkur ekki frekar að skora á Þorgerði Katrínu og Jóhönnu Sigurðar að hjálpa þeim börnum sem eiga erfitt í skólum (það eru reyndar oftar strákar, grunnskólakerfið virðist henta þeim verr en stúlkum) heldur en að biðja þær að setja inn mishæfa öryggisverði.

Ég held að svoleiðis refsingar séu enn meiri ávísun á það sem Ívar kalllar

„High-school í fátækrahverfi í lélegri bíómynd um afbrotagengi"

Við hljótum vilja veg og menntun allra barna, hvort sem þau búa í blönduðu hverfi fátæktar og ríkdóms, sem mestan og bestan.

Þið viljið vonandi ekki senda þessa "væntanlegu glæpamenn" til Breiðavíkur?

Var að vona að þannig refsing væri búið dæmi, en annað skilst mér á skrifum og athugasemdum.

Veit lítið sem ekkert um bakgrunn bloggarans eða athugasemdabloggara-kannski bara feður prúðra unglingsstúlkna sem eru að fríka út á þeim heimi sem bíður dætra þeirra fullur af hættum.

Bara svona til umhugsunar.

Fran Miller, 9.1.2008 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband