Örsaga í óveðrinu

Þessi litla saga um Suðurnesin og Skerjaförð varð til hjá mér í morgun:

Allt er þegar þrennt er 

„Bölvuð læti eru í veðrinu!“ tuðaði Breki þegar hann reyndi að leggja sig aftur þennan sunnudagsmorgun í húsinu við ströndina í Skerjafirði, með gnauðandi vindinn fyrir utan. „Eilífðar- ágjöf alla daga. Það er ekki nóg með að markaðirnir og borgin séu á hvolfi, heldur náttúran líka!“ Guðrún kona hans svaf áfram á sínu græna eyra. KRASS heyrðist þegar dyr garðskálans í næsta húsi sviptust upp og brutu rúðu. Breki sá að nágrannann náði að loka dyrunum, veifaði og fór inn. Guðrún svaf enn.

Drunginn yfir Alftanesi

Breki settist við gluggann og horfði út á brimið lemja skerið og hann sá fuglana berjast í vindinum. En af hverju hegða þeir sér svona undarlega? Þeir hópuðust allir saman, mávar og æðarfuglar, þrestir og þúfutittlingar. Hópurinn hóf sig ofar og hvarf síðan síðan sjónum undan vindi til norðausturs. Þetta hafði hann ekki séð áður. En áfram dundi hvítfryssandi sjórinn á húsinu í rokinu og birta tók af degi. Einhver svartur blettur, sem stækkaði óðum, birtist yfir Bessastöðum. Hafði Dorrit nú skilið eftir pott á hellunni? Breki ætlaði að hringja á slökkviliðið, en sá þá að stækkandi svarta skýið átti uppruna sinn öllu lengra til hægri handan Bessastaða. Stærð þess var nú orðin allsvakaleg. Alls kyns hugmyndir flugu um höfuð Breka, um svartar holur og brennandi olíuskip, en nú varð honum ljóst að einungis eitt gæti komið til greina: eldgos. Jarðskjálftarnir á Reykjanestá voru orðnir það stórir, þéttir og grunnir að þetta hlaut að koma þaðan, enda úr suðvestri frá borginni eins og vindurinn. Aumingja Grindavík.

Sortinn stækkaði svo ört að Breki stirðnaði upp eins og þegar hann horfði í návígi á Heklu gjósa forðum. Loks bráði af honum og hann kallaði á Guðrúnu. Þau hristu unglingana sína í rúmunum. „Eldgos, eldgos, vaknið þið!“ Þau trúðu vart sínum eigin augum þegar þau sáu kolsvartan vegg þekja helming himinsins, þeysandi í áttina til þeirra. „Hvað eigum við að gera, pabbi?“ spurði  stelpan. „Klæðið ykkur, takið helstu hlutina, ljósmyndaalbúmin, eitthvað, bara verið tilbúin að koma ykkur út!“ Þó var Breki ekki viss um að það væri ráðlegt að reyna flótta undan vikrinum. En hann fékk ekki að hugsa sig lengi um. Sortinn var nær alger, fyrst heyrðust nokkur korn á gluggunum eins og í upphafi hagléls, en síðan BÚMM. Hvellurinn skall á húsinu með ofurþunga. Svört aska, blönduð beittum vikurmolum og regni lamdi rúðurnar og húsið. Rúðurnar voru við það að bresta, en héldu og myrkvuðust fljótt af leðjunni sem myndaði hellu á húsinu áveðurs. Smám saman hljóðnaði vegna þessa. Fjölskyldan hljóp upp á efri hæð, öll frekar ráðvillt, jafnvel Breki sem hafði verið í Flugbjörgunarsveitinni í smá tíma sem ungmenni. Það sem kom honum mest á óvart var það að gosið skyldi fara af stað í óveðri, því að í flestum gosum sem hann vissi af eða hafði séð, þá lyngdi rétt um gostímann. Furðulegt! En nú var ekki tími pælinganna.

Askan umlukti húsið eins og heljargreip. Hún smeygði sér inn um allar glufur, jafnvel varmegin hússins, þar sem bílarnir tveir stóðu. Breki sá þá hve vonlaus flóttinn yrði. Ekkert útsýni, öskuleðja yfir öllu og síðan þurfti eflaust að bæta öndunarerfiðleikunum við, en hann og börnin voru öll með astma. Björgunarsveitarhugsunin hafði þó gefið honum þá forsjálni að kaupa andlitsgrímur vegna ryks, sótta eða öskufalls. Þær kæmu sér vel ef ástandið ágerðist. Hitaveitan héldist líklega inni, þar sem gosið var ekki í Henglinum. Rafmagnið færi líklega þegar drulluhellan legðist yfir spennuvirkin. Breki sá eftir því að hafa ekki keypt litlu ferðarafstöðina sem var á tilboði á Europris. Hann átti þó 10 rafmagnsofna sem hann hafði fengið á tilboði í Húsasmiðjunni, til notkunar ef hitaveitan færi, en þeir nýttust ekki núna. Strákarnir athuguðu hvort Internetið væri virkt, en það var frosið af álaginu, síminn og gemsarnir líka. Hann huggaði þau öll: „Jæja, við höfum gervihnattasímann til þrautavara. En aðrir eru sjálfsagt í meiri neyð, þannig að við hringjum ekki í bili“ Hann vildi ekkert velta því upp að öskufallið truflar örugglega samskiptin. Þeim varð öllum hugsað til afa og ömmu austur í bæ, síðan til vina og ættmenna.

Fjölskyldan sat þögul inni í stofu um kvöldið að spila á spil við kertaljós. Af og til var kveikt á batteríisútvarpinu eftir fréttum, en það sem heyrðist helst þarna inni var brakið í loftsperrum þaksins, þegar vigt vikureðjunnar jókst stöðugt. En hvernig fór í Grindavík?


mbl.is Flest útköll á Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Er þetta einhvers konar véfrétt

Hólmdís Hjartardóttir, 28.1.2008 kl. 00:29

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Við skulum vona ekki, Hólmdís! Við systkinin áttum öll okkar útgáfu af þessu sem draum þegar við vorum krakkar. En veðrið var svona núna og hurðin braut rúðuna. „Byggt á sannri sögu“ ekki satt?

Ívar Pálsson, 28.1.2008 kl. 00:53

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Annars átti sagan fyrst að heita „Geirfuglar“ og gosið að vera við Geirfuglasker, en kl. 08:28 í morgun kom jarðskálfti þar upp á 3,8 á Richter (raunar sem oftar). Svo kom einn upp á 1,9 í Hengilinn!

Ívar Pálsson, 28.1.2008 kl. 14:53

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ívar ég fylgist óhugnarlega vel með jarðskjálftum og mér þykja þeir spennandi enda léttgeggjuð og alin upp á Húsvískri sprungu. en fyrir mörgum árum dreymdi mig draum sem situr alltaf í mér. Var stödd við Reyjavíkurhöfn með Vigdísi Finnbogadóttur sem sagði, það má litlu muna með Reyjavíkuhöfn

Og drauminn túlkaði ég þannig að einhvern tíman yrði höfnin eina útgönguleið okkar....

Hólmdís Hjartardóttir, 29.1.2008 kl. 04:51

5 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sæll félagi Ívar. Þessi saga er mergjuð og hefur varla vikið úr huga mér síðan í gær.  Hún hefur allt sem góð smásaga þarf til og skilur eftir nóg af spurningum í lokin.  Þetta er mjög vel skrifað og áhrifaríkt.

Ég hef bara svolitlar áhyggjur af neikvæðninni.  Eftir allar hrakspárnar úr efnahagslífinu hefði verið gott að fá sögu úr iðagrænu skógarrjóðri með ást og unað og öllu tilheyrandi.  En þú átt framtíð í þessu Ívar. 

Gunnar Þórðarson, 29.1.2008 kl. 14:37

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Hólmdís, við erum fleiri á vaktinni! Vedur.is er mjög áhugaverður vefur. Draumar eru mér mjög hugleiknir, en ég á oft erfitt með að skilja það í hvert sinn hvort um sé að ræða persónulegan draum (eigin undirmeðvitund osfrv.) eða almennan vegna heildarinnar, sem tengist undirmeðvitund heildarinnar og atburðum engdum henni. En takk fyrir lýsingu draumsins.

Sæll Gunnar ofurhugi. Takk fyrir hólið, ég sem var byrjaður að vinda ofan af sjálfstraustinu að þessu leyti, en mér þykir samt gaman að henda þessu fram. Þetta hringir nú bjöllum hjá hetjum eins og þér sem hafa bjargað fólki úr ægibrimi og úr rústum snjóflóðs. Við geymum dúllusögurnar um betri tíð og blóm í haga þangað til virkilega fer að sverfa að á klakanum. Enn eru Porsche- bílar keyptir og gjaldþrot fá, engar náttúruhamfarir og næg vinna. Allir í Barbie- leik!

Ívar Pálsson, 29.1.2008 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband