Örsaga: Vagninn bíður ekki

Um nóg var að hugsa áður en haldið skyldi í heimsókn yfir í Austurbæinn. Fridny Stephensen 1926Eitt og annað þurfti að finna til fyrir ferðina  með strætisvagninum. Þegar hún tyllti sér til þess að setja á sig stígvélin, varð Friðnýju hugsað til liðins tíma. Henni fannst þetta allt fljúga hjá. Minningar um æskuárin við Ísafjarðardjúp, ástarævintýrið skamma sem gerði hana að einstæðri móður við erfiðar aðstæður og ferðin til Vesturheims án sex ára sonarins Péturs, sem bjó síðan með indíánum í nyrstu héruðum Kanada.

Þetta fór allt að smella saman. Einhver tilgangur virtist vera í þessu. Stefán kom inn í líf hennar í Kanada og kvæntist henni, en sjálfur hafði hann áður misst konu, barn og heimili á Íslandi. Hún var sannfærð um að Guðs blessun hafi fært þau saman. Ávextir hjónabands þeirra, Guðrún ljúfan og Gunnlaugur fagri voru orðin að myndarlegu ungu fólki.  Friðnýju fannst bara engin hæfa að gera þau að útlendingum sem könnuðust einungis við Ísland af munnmælum eldra fólks. Kreppan í Ameríku hafði hvort eð er sorfið svo að, þannig að þeim var ekki til setunnar boðið og héldu til Íslands. Stefán var því miður ósáttur, þar sem Kanada átti miklu betur við hann. Og nú var hann látinn, hann lést á Íslandi á stríðsárunum. Nú þegar hún hafði verið ein í tíu ár, þá fannst henni að hún hafi staðið sig þó nokkuð vel, þótt oft hafi blásið í móti.

Fridny med bornEn strætisvagninn lætur ekki bíða eftir sér. Fjöldi fólks treysti á far með honum til vinnu og annarra þarfa í barningi eftirstríðsáranna. Friðný smellti sér loks í stígvélin og gekk af stað, hnarreist í pollunum. Á göngunni varð henni hugsað til Péturs síns, hve sjálfstæður hann væri eins og hún sjálf á yngri árum. Hún gladdist við tilhugsunina. Ekki var stelpan ósjálfstæðari, svo einörð að afla sér menntunar að hún ferðaðist með skipalestum í stríðinu til og frá Ameríku, fram hjá kafbátum Þjóðverja sem náðu að skjóta nokkur skipanna niður.  Áður hafði Guðrún gerst forstöðukona barnaheimilis aðeins 18 ára að aldri. Gunnlaugur minn kemst það sem hann vill. Það virðist vera einhver seigla í okkur frá Djúpinu, hugsaði hún og leit í spegilmynd sína í bakarísglugganum. Stoltið í glottinu leyndi sér ekki.

Fridny Gunnlaugsdottir StephensenStrætisvagninn brunaði fram Hringbrautina í rykmekki  og renndi sér í áttina að biðstöðinni. Friðný sá að hún hafði misreiknað sig með tímann við hugleiðingarnar. Hún tók á rás en fann verulega til aldurs síns. Skyldi hún ná vagninum? Ef ekki, þá væri klukkutíma bið og dónalegt væri að koma svona seint í kaffiboðið. Hún herti því hlaupin, þrátt fyrir verk í brjóstholinu. Það hlyti að líða hjá á eftir. En farþegarnir í vagninum kölluðu til vagnstjórans að stöðva, því að eldri koma kæmi hlaupandi. Hún náði því vagninum, þakkaði fyrir sig, fékk hjartaáfall og hneig  örend að glugganum.

 

 

PS. Friðný var amma höfundar. Saga hennar er m.a. hér http://ritlist.is/gudrun/fridny_gunnl.htm og hér http://ritlist.is/gudrun/gudrun_kanada1919.htm ásamt fleiri tenglum á http://ritlist.is/gudrun/index.htm

Myndir tengdar þessu (c/o Stefán Pálsson):

http://minningar.com/v/stefan/stephensen/

http://minningar.com/v/stefan/stephensenar2/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk fyrir að láta mig vita Ívar.

Þetta er heillandi frásögn af hinstu andartökum konu sem greinilega hefur verið skörungur. Erfitt er að ímynda sér hvað fólk þurfti að ganga í gegnum á þessum árum, ekki síst konurnar þegar þær stóðu uppi einstæðar eða með ''lausaleikskróga''.

Það var líka gaman að lesa söguna hennar Guðrúnar. Ég á bara eftir síðasta hlutann.

Takk Ívar

Jóna Á. Gísladóttir, 14.9.2008 kl. 17:38

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Vá, segi ég bara. Þú leynir sannarlega á þér. Þetta er svo líðandi og fallegur prósi að mér finnst að þú ættir að gera miklu, miklu meira af þessu.

Þetta er svona ör-íslandssaga.

Það sætir undrum að koma svo magnaðri örlagasögu, sem snertir líf kynslóða, fyrir í svo stuttu máli. Hún minnir mann líka á að gamla fólkið á sér djúpa fortíð, sem það ber í hljóði. Þetta gamla fólk, sem við sinnum svo illa og berum ónóga virðingu fyrir en eigum raunar allt að þakka.

Það gleður mig svo mikið að sjá svona gullmola í bloggforinni. Þegar maður er alveg að missa álitið á þessum hænsnakór, þá kemur þú og bjargar deginum.

Ég vil sjá þetta á prenti: Lesbókin. Sendu þeim þetta.  

Jón Steinar Ragnarsson, 14.9.2008 kl. 20:54

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk sömuleiðis, Jóna. Þær voru svo margar sem stóðu í þessum sporum. Eins og þú sást í lýsingunni þá ætlaði móðir Friðnýjar að reka hana að heiman, því að enginn lausaleikskrakki skyldi fæðast á hennar heimili. Mér skilst að sjálf hafi móðirin verið tökubarn! En hún endaði með að sjá um dóttursoninn Pétur.

Mamma reyndi sitthvað, t.d. að eiga okkur átta á 12,5 árum! En það kemur síðar...

Annars finnst manni nær algengara en ekki, einstæðar mæður núorðið. Amk. „lenti“ bæði pabbi og ég í þeim aðstæðum, eða öllu heldur viðeigandi mæður.

Ívar Pálsson, 14.9.2008 kl. 21:04

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Þakka þér ekki síður, Jón Steinar. Hól frá ykkur tveimur rithöfundum er mér þó nokkurs virði. Örsöguformið hentar mér og smellpassar á netið, en kannski vill Lesbókin svona lagað, hver veit? Ég reyni, takk.

Svo lætur þú sköpunardjúsinn flæða fyrir okkur, er það ekki, Jón Steinar?

Jóna hér að ofan er flott á því, gefur út bók innan tveggja mánaða. Þetta líkar mér.

Ívar Pálsson, 14.9.2008 kl. 21:17

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Jón Steinar kemur betur fyrir sig orði en ég  segir það sem ég var að hugsa.. Þetta með alla fortíðina sem er okkar kynslóð hulin nema að við berum okkur eftir sögunni. Og allt fjandans vanþakklætið sem öldruðum er sýnt í dag. Farið með fólk eins og mein á samfélaginu. Dragbíta. Veruleg skömm að því.

Og svo þetta með að koma allri þessari sögu fyrir í svo stuttri frásögn. Þetta er afar vel gert.

og meira svona takk fyrir.

Jóna Á. Gísladóttir, 14.9.2008 kl. 22:58

6 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Þetta er mjög flott hjá þér Ívar.  Þú hefur lag á að segja langa innihaldsríka sögu í fáum orðum.  Það er mikils virði.   

Gunnar Þórðarson, 15.9.2008 kl. 05:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband