Ora er íslenskt!

Ora fiskbollur

Vegið er að traustum íslenskum stoðum að ófyrirsynju í „fréttum“ Stöðvar 2 og visir.is í kvöld, einmitt þegar treysta þarf þær stoðir enn frekar. Aðalfréttin er sú að íslenska framleiðslu- og markaðsvaran Ora, þmt. einskonar flaggskip þess hér, niðursoðnu Ora fiskbollurnar, séu ekki íslensk vara. Þessi frétt öll virðist unnin af kunnáttu- og tillitsleysi ásamt drjúgum skammti af þröngsýni.

Fyrst ber að nefna að hér er um rammíslenskt framleiðslufyrirtæki að ræða, sem greiðir laun og skatta á Íslandi, ekki á Tortola- eyjum! Um fimmtíu starfsmenn og umboðsaðilar eru með margfeldisáhrif í hagkerfinu um allt land. Um 150 vörutegundir er að ræða, margar hverjar hluti íslenskrar menningarsögu. Innihald einstakra vörutegunda getur skiljanlega verið á alla vegu eða hún jafnvel alveg framleidd annars staðar, en samkvæmt fréttunum er amk. helmingurinn alíslenskur. Töluverður útflutningur virðist eiga sér stað.

En víkjum okkur að fiskbollunum, sem mótaðar eru á Íslandi og eru niðursoðnar og merktar hér. En það þykir fréttamanni ekki nægur virðisauki, af því að gullaxinn ora_husin.pnger frá Færeyjum! Gullaxinn sem ég reyni að selja til útlanda er veiddur úr sama sjó, skammt norðan miðlínunnar, en glæpurinn á vist að vera sá að þessi er veiddur sunnan línu, fer til frænda okkar og lánardrottna, Færeyinga, og þaðan til Ora í niðursuðuna. Hvaðan er þá hveitið í bollurnar? Verður það að vera undan Eyjafjöllum til þess að Stöð 2 láti fólk gefa börnum sínum þessar gæðabollur í margar kynslóðir?  Sardínurnar eru frá Noregi, líklega smásíld og þá kannski úr Norsk- Íslenska síldarstofninum eða Argentínu. Verða þær kannski að vera frá eyjunni Sardiníu í Miðjarðarhafi? Auðvitað skiptir þetta engu máli, heldur það að varan sé af góðum gæðum og að Íslendingar njóti góðs af viðskiptunum.

Tiltekið var að bökuðu baunirnar kæmu tilbúnar frá Bretlandi. Þær eru hvort eð er ekki íslenskar og fyrst það borgaði sig að bæta því í framleiðsluna úti til þess að lækka vöruverð hér, því betra.  Hagkvæmni stærðarinnar verður að nýta í sumar línur, ss. tómatsósuna. Vonlaust er kannski að keppa í verði við Hunts eða aðra með milljónir flaskna með því að vera með sér línu í verksmiðjunni hér og dýrara hráefni inn til landsins.

ora_islenskt_fyrirtaki.pngÍslenskur rækjuiðnaður er heilmikill og heldur hundruðum manna á lífi hér á landi með miklum margfeldisáhrifum. Rækjan er aðallega norsk, en einnig kanadísk og grænlensk. Hún er þýdd upp, soðin, pilluð og fryst hér og verður íslensk í þúsundum tonna inn í ESB. Engan er verið að blekkja frekar en hjá Ora, svona eru reglurnar.

Tekið skal skýrt fram að allt ofansagt eru aðeins hugleiðingar mínar, upplýsingarnar úr „fréttinni“ og af vefsíðu Ora og ég tengist ekki Ora eða Íslensk- Ameríska á nokkurn hátt, heldur erum við fjölskyldan traustir neytendur þessara íslensku gæðavara og höldum því áfram, sérstaklega í þrengingum framleiðslufyrirtækja núna.

Þakklæti fv. framleiðslustjóra Ora til vinnuveitanda síns í 22 ár þykir mér lítið. Tugir fjölskyldna hljóta að kunna honum litlar þakkir fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Æ,æ. Svona fer þegar menn gleyma að vinna heimavinnuna sína. Fréttamaðurinn hefur alveg gleymt að kynna sér reglur um uppruna matvæla.

 Annars, þó mér finnist ORA fiskibollur óþverri, (aðallega til að lífga upp á borðhaldi meðan börnin háma þetta í sig með tómatsósu) þá reikna ég nú ekki með að ORA hafi gert mikið í því að kynna rauðkálið eða gulu maísbaunirnar sem "al" íslenskar.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 13.2.2009 kl. 01:10

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Nú kannast ég við kempuna.  Hleypur kapp í kinn til að verja íslenskan niðursuðuiðnað, enda þekkir Ívar vel til þessara mála.

Niðursuðuvörur seljast sem aldrei fyrr í BNA þessa dagana.  Ekki þarf frystikistu né ísskáp til að geyma matvælin, og reyndar eru þetta ódýrustu matvælin á markaðinum. 

Þetta er gott hjá þér Ívar þar sem þú réttilega bendir á slakleg vinnubrögð fréttamanns.

Gunnar Þórðarson, 13.2.2009 kl. 10:14

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þegar ég var barn fannst mér orabollur í tómatssósu það besta sem ég fékk. Ekki finnst mér það nú lengur en góðar samt og þessi rammíslenski matur hefur fylgt manni frá því maður man eftir sér og bragðast alltaf eins. Allt breytist-  nema orafiskbollur!

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.2.2009 kl. 10:57

4 Smámynd: corvus corax

ORA er íslenskt fyrirtæki en það er ekki þar með sagt að vörur fyrirtækisins séu allar íslenskar enda held ég að fyrirtækið haldi því ekkert fram. Allir vita að grænar baunir eru ekki framleiddar á Íslandi en ORA selur hinar víðfrægu grænar baunir í dósum en heldur því ekki fram að baunirnar séu íslenskar. Annað fyrirtæki lætur framleiða fyrir sig útivistarfatnað í útlöndum en leyfir sér samt að ljúga því að Íslendingum að þar sé um íslenskan útivistarfatnað að ræða. Og notar ótrúlega hallærislegar auglýsingar með upplestri úr íslenskum þjóðsögum til þess að reyna að lauma þeirri tilfinningu inn hjá fólki að útlenski útivistarfatnaðurinn með útlenska nafninu sé íslenskur. Þetta heitir á íslensku máli: VÖRUSVIK og brýtur í bága við lög.

corvus corax, 13.2.2009 kl. 14:55

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svo má ekki gleyma Ora grænum baunum. Hvergi í heiminum fást eins yndislegar baunir til að hafa með jólahangiketinu. Rammíslenskt bragð

Ágúst H Bjarnason, 13.2.2009 kl. 14:57

6 Smámynd: Kristján Þór Gunnarsson

Ívar; þú átt þakkir skyldar fyrir að leiðrétta svona vitlausa frétt. Mín fyrsta vinna eftir að hafa klárað Matvælafræði við Háskóla Íslands 1982; var einmitt Niðursuðuverksmiðjan ORA. Starfaði ég þar í 5 ár. Á þeim tíma var Tryggvi heitinn Jónsson forstjóri og sonur hans Magnús Tryggvason var framkvæmdastjóri og var að taka við. ORA fiskibollurnar eru eins Íslenskar og hugsast getur. Hráefnið er unnið úr ferskri Ýsu. Sama má segja um fiskbúðinginn.

Súrsuðu gúrkurnar eru unnar úr Íslenskum agúrkum og svona mætti lengi telja.

Áratugum saman flutti fyrirtækið út niðursoðna murtu úr Þingvallavatni.

Í dag er 3.ættliðurinn við stjórn í fyrirtækinu sem er Eiríkur Magnússon.

ORA hefur ávallt verið með vandaða framleiðslu og gæðakerfið er fyrsta flokks.

Þess má geta að ORA er ekki eingöngu með framleiðslu á innlendan markað; heldur flytur fyrirtækið út margar vörutegundir s.s. Grásleppukavíar og Loðnuhrognakavíar og auðvitað úr rammíslensku hráefni.

Þetta fyrirtæki er í flokki þeirra íslenskra fyrirtækja sem ávallt hefur staðið í báða fætur og  byggt á traustum grunni.

Það er rétt að ekki eru allar vörurnar rammíslenskar. Grænu baunirnar sem eru svo sérstakar á bragðið eru fluttar inn þurrkaðar frá Bandaríkjunum. Með sérstakri framleiðsluaðferð eru þær unnar áfram í verksmiðju ORA. Sérstaka bragðið kemur einmitt vegna þess að hágæðabaunirnar eru þurrkaðar. Ekki ósvipað og þegar saltfiskur er útvatnaður á réttan hátt.  

Þó að rúm tuttugu ár séu síðan ég hætti störfum hjá fyrirtækinu er mér ákaflega hlýtt til þessa fyrirtækis. Þar voru stjórnendur sem innprentuðu varfærni og áreiðanleika í viðskiptum og það eru einmitt gildi sem við Íslendingar þurfum svo mikið á að halda í dag.  

Kristján Þór Gunnarsson, 13.2.2009 kl. 16:57

7 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ég læt ekki ræna mig jafnvel þó viðkomandi sé Íslendingur

Finnur Bárðarson, 13.2.2009 kl. 18:14

8 Smámynd: Kristján Logason

Ljóst má vera að gerð hafa verið taktísk mistök í notkun og kynningu á fánanum og er það mörgum til vansa hvernig farið hefur verið með.

  • Eitt er íslensk framleiðsla úr  íslensku hráefni.
  •  Annað er íslensk framleiðsla úr erlendu hráefni
  • Þriðja er svo íslensk framleiðsla úr íslensku og erlendu hráefni.
  • Fjórði liðurinn og erfiðastur er íslensk hönnun framleidd erlendis

Hvert eitt af af þessu telst íslenskt en mismunandi mikið.

Það sem eftir stendur og eru sérstök vörusvik er erlend framleiðsla úr erlendu hráefni umpakkað í íslenskar umbúðir og merkt sem íslenskt. það sjáum við t.d með grænmeti ofl. Slíkt finnst mér alvarlegt mál sem ekki ber að líða 

Hitt þyrfti að skilgreina betur.

Ekta íslensk og ekta íslensk framleiðsla er sitthvað 

Kristján Logason, 13.2.2009 kl. 18:54

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Svona af því að Ágúst nefnir gæði Ora-grænu baunanna,verð ég að segja frá því að í mörg ár sendum við og aðrir í stórjöldskyldunni nokkrar dósir af þeim til Svíþjóðar, voru ómissandi með hangikjötinu.       

  Ég vann þarna í nokkur ár,gaman frá því að segja að þar vann karlmaður langt kominn á níræðisaldur.  Engum var sagt upp fyrir aldurssakir.

     En hér er til umræðu hvort framleiðslan sé íslensk, því hefur verið svarað hér.   

Helga Kristjánsdóttir, 13.2.2009 kl. 19:04

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Ég þakka ykkur öllum fyrir áhugaverð innlegg um málið. Ekki get ég fallist á það að um vörusvik eða rán sé að ræða, jafnvel þegar niðursuðuframleiðslan er erlend og kemur tilbúin heim. Málið er að hún er framleidd undir vörumerkinu, sem er langsterkasta eign nokkurs félags (t.d. Google, Nestlé, Coca Cola) og fellur því undir allt sem vörumerkinu tilheyrir: Rannsóknir, hugmyndavinnu, hönnun, framleiðsluskilyrði, gæðastaðla, þjónustu osfrv., sem síðri merki hafa ekki að sama skapi. Carslberg er danskur bjór og Heineken hollenskur, hvar sem þeir eru framleiddir.

En þegar t.d. ferskt grænmeti er sagt íslenskt þegar það er einungis pakkað á Íslandi, þá get ég verið sammála að ekki er farið með rétt mál.

Ívar Pálsson, 13.2.2009 kl. 21:27

11 Smámynd: Heidi Strand

Sama hvaðan gott kemur. En rétt skal vera rétt.

Heidi Strand, 13.2.2009 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband