Forgangsröðun fáránleikans

Niðurstöður úr enn einni loftslagsráðstefnunni, nú síðast í Bankok, liggja fyrir: andstæðurnar skerpast enn. Annars vegar eru þróunarlönd, sem langflest búa við hagvöxt í eltingarleik sínum við lífsgæði Vesturlanda og menga langmest á gamaldags hátt og síðan þróuðu löndin, sem mörg hver menguðu duglega til þess að ná núverandi stöðu sinni, en hagkerfi flestra þeirra dragast nú saman í verulegri efnahagskreppu. Þróunarlöndum finnst að hinir eigi að borga reikninginn, enda hafi þeir notið lífsgæðanna en komið heiminum í það ástand sem hann er. Þróuðu ríkin reyna að lágmarka þá ábyrgð sem fellur á núverandi þegna vegna synda forfeðranna og benda á það að mesti vöxtur losunar  gróðurhúsalofttegunda eigi sér stað í þróunarríkjum. Einnig það að fjölmennustu ríkin eins og Kína teljist áfram í hópi þróunarríkja, þótt þau séu leiðandi í hagvexti heimsins og þarfnist varla fjár frá hnignandi Vesturlöndum, sem eru mörg hver á hnjánum. 

Niðurstaða á „næstu“ ráðstefnu

Lofstlagsráðstefnurnar halda áfram hver af annarri Skerjafjordur Okt 2009í borgum heimsins eins og Ólympíuleikar, t.d. á Balí eða í Bankok, án nokkurrar niðurstöðu nema þeirrar að á næstu ráðstefnu verði að koma skuldbinding stærstu iðnríkjanna um stórfellda minnkun losunar frá því ástandi sem var fyrir 19 árum síðan og var neglt niður í Kyoto- samkomulaginu.  Síðastliðið hefur markið verið sett á Kaupmannahöfn 7. desember 2009, og dagarnir taldir niður þangað.  Í fyrradag var ljóst í Bankok að ekkert hafði miðast í samkomulagsátt til Kaupmannahafnarráðstefnunnar.

Ísland hefði ekki skrifað undir Kyoto án sérákvæðis

Þá leiðum við hugann til Íslands. Það lá alltaf fyrir að framlag okkar til heimsmengunar eða losunar gróðurhúsaloftteguna á heimsvísu var nær ekkert árið 1990, enda fámenn þjóð sem hafði auk þess gert margt rétt fram að þeim tíma, ss. reist vatnsaflsvirkjanir og jarðhitaveitukerfi. Kyoto- samningarnir tóku ekki tillit til þess og því varð úr sérákvæði um Ísland, þar sem þjóðin fékk örlítið að njóta sérstöðu sinnar, enda hefði ekki verið skrifað upp á samkomulagið ella.

Hagsæld og vöxtur af hinu góða

Davíð Oddson tók við sem forsætisráðherra árið 1991 og langt hagvaxtarskeið tók við í alla hans forsætisráðherratíð.  Vöxtur var á flestum sviðum, þar sem t.d. nýting endurnýjanlegrar orku margfaldaðist . Á sama tíma sleit ný kynslóð barnsskónum, þar sem drjúgum hluta hennar var talið trú um að þessi nýting væri röng og af hinu illa. Einhvern veginn glataðist skilningurinn á því að fáar manneskjur sem nýta mikla endurnýjanlega orku á skilvirkan hátt með lágmarkstjóni fyrir umhverfið skilar af sér langvarandi hagsæld. Í staðinn tókst að ala á slæmri samvisku þjóðarinnar yfir því að 99% af raforkuframleiðslunni væri endurnýjanleg orka, á meðan ESB stefnir að því að ná 20% árið 2020. Oft er hlustað á útlendinginn hér, en þó lítið þegar Al Gore kvótakarl sagði nýlega, þegar hann heimsótti landið, að það væri lítið sem hann gæti kennt Íslendingum í umhverfismálum. 

Svandís takmarkar kvóta Íslands

Vinstri græn tóku við stjórninni í umhverfisráðuneytinu og þá var ekki að spyrja að aðgerðunum. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra setti loftslagsmál í algeran forgang, þ.e. það að heimurinn verði ekki meira en 2°C heitari en fyrir iðnbyltingu næstu áratugina þannig að norðurpóllinn bráðni ekki allur á sumrin. Önnur minna mikilvæg mál að hennar mati eins og lögn rafmagnslína til Helguvíkur (til þess að lágmarka kreppuna) eru til trafala og stöðvaði hún því framkvæmdir. Umhverfisráðuneytið má hvort eð er varla vera að því að standa í slíkum sparðartíningi, því að aðaláherslan er á loftslagsráðstefnuna framundan í Kaupmannahöfn eftir um 50 daga. Þangað til þarf að ræða þetta í Barcelona eftir nokkrar vikur og hafa ráðuneytið undirlagt í þessar sjö vikur. Framkvæmdir vegna Helguvíkur mega víst alveg bíða eftir því, má skiljast.

Kröfugerð í anda Icesave

Ef Ísland er svo óheppið að vinstri ríkisstjórnin lafi í þessar sjö vikur, þá verður kröfugerð umhverfisráðherra fyrir okkar hönd á þá leið að kvóti okkar á losun gróðurhúsalofttegunda verður langt undir núverandi framleiðslu og ekkert rúm til aukningar. Ætli hinar mórölsku þjóðirnar hækki okkur ekki bara þegar þær sjá hve naumt við skömmtum okkur sjálfum? Noregur skammtar sér minnst en borar eftir meiri olíu eins og enginn verði morgundagurinn. Aðrir sjá um að brenna henni og nota kvótann sinn þannig, en það er víst ekki þeirra mál!

Kreppan lætur mannskepnunni vonandi skiljast að hún getur ekki breytt loftslaginu að sínu skapi.

http://news.bbc.co.uk/2/hi/science/nature/8298553.stm

 

http://www.google.com/hostednews/ap/article/ALeqM5i7hP2g0kyiepKq9-cVavDQwIQpAAD9B7BNFO0

 

http://blogs.ft.com/arena/2009/09/23/should-western-taxpayers-pay-to-cut-carbon-emissions-in-developing-countries/

Should western taxpayers pay to cut carbon emissions in developing countries?

 

Ef tengillinn hjá FT.com virkar ekki, farið inn á vefinn þeirra og setjið inn leitarorð úr setningunni.

 


mbl.is Hagsmunir Íslands í fyrirrúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni G. P. Hjarðar

Ég segi eins og Lomborg: Cool It.

Bjarni G. P. Hjarðar, 15.10.2009 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband