Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Bankar úr landi?

Væntanleg þjóðnýting ábyrgða bankanna á meðan þeir halda eignunum leiðir huga manns að  því hvort við ættum ekki frekar að hvetja skuldugustu bankana til þess að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Að öðrum kosti lenda hrikalegar skuldir þeirra og ábyrgðir  á okkur ef illa fer, sem verður æ líklegra.

BNA: Gegn markaðshagkerfi 

Yfirtaka Federal Reserve (nk. Seðlabanka Bandaríkjanna)  á 5,2 milljón milljóna dollara ábyrgðum Freddie Mac og Fannie May fasteigna- veðlánabankanna  sýnir hvernig ríkið getur hlaðið nær óendanlegri ábyrgð á þegnana á einni helgi, eins og að smella fingri. Reiknað var út að virði ábyrgðarinnar vegna þessa væri um 150 milljarðar dollara, en rúmlega helmingur þess fór beint til hluthafanna sjálfra skv. The Economist (19/11/2008 forsíðugrein).  Ábyrgðirnar urðu til af því að ríkið taldi sér skylt að veita þessa vernd til bankanna. Breska ríkið fór eins að með Northern Rock bankann. Í stað þess að láta hann mæta þroti sínu ákvað stjórnin að bjarga honum og skekkti þar með samkeppnisstöðuna, þar sem bankinn færðist úr verstu stöðu, sem hann kom sér í sjálfur, í eina þá bestu, framar flestum öðrum bönkum, enda ríkið ábyrgt.

Þjóðnýting skulda á ÍslandiÞjóðnýting?

Á Íslandi stefnir í það að ríkið færi meginþorra skulda og taps bankanna beint yfir á þegna landsins. Það er helst á tvenna vegu. Annars vegar með því að tilkynna að um mikil gjaldeyriskaup ríkisins verði að ræða, en það hvetur bankana og fleiri til andstæðra aðgerða, sem skila þeim milljarðatuga króna hagnaði á nokkrum vikum, en okkur sömu upphæð fátækari í gegn um krónuna. Hins vegar með því að gefa í skyn að um ábyrgð ríkisins sé að ræða á skuldum bankanna. Það hefur aukið lánakostnað trausta ríkisins okkar  verulega, en aðallega myndi það valda gríðar- hruni  krónunnar ef ríkið bjargaði íslenskum banka sem yrði fyrir áhlaupi þegar í ljós kæmi  að stoðirnar væru ekki nægilega traustar, fasteignirnar ofmetnar og  ábyrgðirnar vanmetnar.

Vaxtamunarverslun gegn krónunni 

Einhver segir eflaust núna að ofangreint sé ábyrgðarlaust tal, þúsundir manna hafi atvinnu hjá bönkunum hér og ruðningsáhrif séu mikil. En ábyrgðarleysið er hjá bönkunum, sem verða að horfast í augu við afleiðingar aðgerða sinna síðustu árin. Vaxtamunarverslunin (e. Carry Trade) með krónubréf ofl. er ein helstu rangindin sem við höfum verið beitt, þar sem krónan er gíruð upp, sem ýtir Seðlabankanum til vaxtahækkunar sem gírar krónuna upp frekar, þar til stíflan bregst.  Það hefur aðeins verið greitt inn á þá ofurvíxilskuld sem vaxtamunarverslunin skóp, stærsti hluti hennar er ógreiddur og fellur senn á krónuna.

Ábyrgð Íslendinga á útrás bankanna 

Bankarnir hafa verið stoltir af Edge og Icesave reikningum sínum, þar sem t.d. breskar húsmæður hagnast á því hve Seðlabanki okkar ákvað stöðugt hærri  stýrivexti, margfalt hærri en í Bretlandi. Þetta hefur tekist með flóknum vaxtaleik íslenskra banka. Ef okkur ber gæfa til þess að Seðlabankinn lækki stýrivexti hraustlega, þá gæti grunnur slíkra reikninga veikst (en kannski einnig ef raunveruleg staða bankanna yrði ljós). Umræður eiga sér stað í Bretlandi hvernig færi ef bankarnir sem að baki standa færu í þrot. Ein hugsanleg  niðurstaða var sú að íslenska ríkið greiði allt að 2 milljóna þrot hvers reiknings, en breska ríkið afganginn upp að nær 4 milljónum.  Íslendingar ættu að krefjast þess að stjórnvöld hér staðfesti óumdeilanlega að um engar slíkar ábyrgðir sé að ræða, enda eru allt að 2/3 hlutar viðskipta bankanna erlendis. Hví ætti fámenn þjóð að standa ábyrg fyrir „útrás“ bankanna, þar sem um ógurlegar upphæðir er að ræða og stofnun hvers reiknings hækkar hvort eð er vaxtastig á Íslandi eða grefur undan krónunni með tímanum.

Raunverð fasteigna ratar í bækur bankanna að lokum 

Fasteignaleik bankanna hlýtur senn að ljúka. Þeir mega ekki við því í lausafjárkreppunni að verðmat fasteignaveða þeirra sé lækkað um þau 30-40% sem þau þyrftu helst að gera til þess að sýna markaðsvirði, enda er þá drjúgur hluti nýju fasteignalánanna vel í mínus og því viðhalda þeir ímynd stöðugra fasteignaverða. Ekki er staða banka öfundsverð ef hann er með 1000 punkta (10%) skuldatryggingarálag, ofmetnar fasteignir, hættur að þéna á skuldabréfavafningum og vaxtamunarviðskiptum og hefur lítið eftir nema kaup og sölu krónunnar, sem gefur að vísu vel í miklu flökti núna. Hann verður þá að halda áfram að virka sem fjárfestingalánasjóður úti í heimi, en hátt á áhættukúrvunni þar sem ávöxtunin er drýgri ef vel gengur.

Álögur okkar minnka ef skuldugur banki flyst burt

Ef íslenskur banki færir höfuðstöðvar sínar úr landi, t.d. til Bretlands, þá léttir af okkur ábyrgðum, lánakostnaður okkar og ríkisins lækkar, bankanum er ekki eins auðvelt að leika sér með krónuna sem flöktir þá minna og fer frekar eftir grundvallaratriðum (e. „fundamentals“) í gengi hennar, ss. vöruskiptajöfnuði. Bretar beita banka sína líklega meira aðhaldi en við með eftirlitsstofnunum sínum, þannig að rekstur bankans yrði trúlega gegnsærri. Rými myndast þá á Íslandi fyrir evrópska banka sem veitt geta lágvaxta Evrulán gegn veðum í hágæðafasteignum  með raunsætt verðmat.  Ætli maður bíði þá ekki bara í 2-3 ár eftir því?


mbl.is Lækkun í kauphöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir Skeiðarárjökul

Hérna fylgir örlítið myndband með Google Earth- skýringum um ferð seigs gönguhóps sem  er nú á leiðinni frá Núpsstaðarskógi að Grænalóni, þaðan yfir Skeiðarárjökul að Færneseggjum og Blátindi í Bæjarstaðaskóg, yfir Morsárdal og að Skaftafelli á þremur sólarhringum. Sandtaumar jökulsins sjást furðu vel á Google Earth. Náttúra Íslands sést vel í þrívídd ef sjónarhorninu er hallað með því að halda músarhjólinu niðri  á meðan fært er fram eða aftur eins og gert er í þessu myndbandi:

Ferðin krefst nokkrar hörku, þar sem ekki er um trússferð að ræða, nema að vinur manns eigi þyrlu.


ISG í herráð heimsins

Öryggisráð SÞ er herráð heimsins, sem eyðir ¾ hluta tímans í málefni Afríku, Oryggisradidmest stríðandi öfl hennar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra vill ólm komast þangað til þess að koma okkur á Afríkukortið. Neitunarvald ráðandi afla í ráðinu ræður alltaf að lokum, en ráðherra mun sannarlega tala yfir hausamótunum á þeim, fá spilltustu Afríkuleiðtogana til þess að segja af sér, fá alla skæruliðahópa Súdans til þess að sættast og koma á friði í álfunni með konu sem leiðtoga hvers ríkis. Hundraða ára ættbálkastríðum Afríku lýkur þar með, þannig að milljarða styrkjapeningar okkar geta jafnvel farið að nýtast. Án efa munu olíuhagsmunir Kínverja og Rússa víkja þegar stefnu Samfylkingarinnar verður framfylgt í ráðinu. Norræn kona mun breyta herráðinu í lýðræðissamkundu, þar sem sérhagsmunir voldugustu þjóða heims ýtast til hliðar við fylkingu réttlætisins.

Já, sannarlega! „If  french fries were fat free and you still love me“  eins og segir í ágætu kántrýlagi Alan Jacksons:

-------------

These things I want the most
Though I probably never see
I can't help but believing
That if French fries were fat free
And you still love me
What a wonderful world this would be

--------------


mbl.is Neitunarvaldi beitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engir samningar um loftslagsmál

Nýliðinn fundur G8 ríkjanna sýnir stöðuna í loftslagsmálum nokkuð nákvæmlega. G8 fundur grín GettyÁkveðnar fylkingar hafa myndast, aðallega G8 og G5, sem sýna þá viðskiptatogstreitu sem þessi mál hafa skapað. Leiðtogar þjóðanna nota prósentu- og orðaleik sem friðar kjósendur í hverju landi og tryggir viðskiptahagsmuni og hagvöxt þjóða þeirra.  

Vaxtarríkin G5, sérstaklega Indland og Kína, vilja óhefta getu til vaxtar og útrýmingu hungurs og fátæktar, en að þróuðu ríkin taki á sig 80% niðurskurð losunar gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2050, mest vegna sögulegra þátta.  Á móti vilja G8 að Kína og Indland séu hluti af heildarlausninni, enda losi þau mest og auki mest losun sína . Bandaríkin sjá mikil viðskiptatækifæri í útflutningi á nýrri tækni til heimsins ásamt fjármögnun til þess í dollurum og til verslunar með kolefniskvóta, allt atriði sem auka myndu völd þeirra verulega um heiminn í einskonar Marshall- aðstoð númer tvö.

Stærstu hóparnir eru:

G8 vs G5G8 ríku löndin: Bandaríkin, Bretland, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan og Rússland.  Þau mynda tæp 13% mannfjölda jarðar en 62% heimshagkerfisins. Hagvexti  þar  er spáð um 1,3% að meðaltali í ár. Losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum er um 40% af slíkri reiknaðri heildarlosun mannsins.

„G5- vaxtarríkin“, Kína, Indland, Brasilía, Mexíkó og Suður- Afríka geyma 41% mannfjöldans en aðeins 11% hagkerfisins. Hagvöxtur þar  er mestur 9,3% í Kína og 7,9% á Indlandi. Losun gróðurhúsalofttegunda er um 25% af reiknaðri heildarlosun heimsins, en fer mest fram með kolum og er hratt vaxandi með hagvextinum.

Indónesía, Suður- Kórea og Ástralía fylgja G8 ríkjunum að málum að mestu. Þau hafa saman um 6% mannfjölda jarðar.

Leiðtogar þessara 16 ríkja á fundinum voru því fulltrúar um 4 milljarða manna, um 59% mannkyns (ef við erum 6,8 milljarðar). Losun þessara 16 ríkja er drýgsti hluti losunar heimsins, enda leggur t.d. Indónesía sitt á vogarskálarnar með gríðar- bruna skóglendis ár hvert.

ESB: Evrópusambandið vill miklar takmarkanir en tekst ekki að hreyfa við Indlandi, Kína og BNA. Afríka: Krefst skila á lofaðri þróunaraðstoð SÞ, sem t.d. er ætluð til orkumála. BNA og Indland: Þriggja ára gömul kjarnorkuáætlun á Indlandi er enn í lamasessi  vegna vinstri vængsins þar.

Engir magnsamningar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda eru samþykktir eða í deiglunni. Áður var viðmiðunarárið 1990, en nú virðist það vera árið 2007, þegar rætt er um 50% lækkun losunar fyrir árið 2050. Þetta eru því epli og appelsínur, gerólíkar tölur. Bein höfnun Kína og Indlands á þessum 50% þýðir að ekki þurfi að ræða það, enda vilja þau að G8 borgi og komi með tæknina.

Fundir um losun gróðurhúsalofttegunda hverrar þjóðar jarðar skapa úlfúð og misklíð á milli þjóða, þannig að erfiðara reynist en ella að berjast gegn  fátækt,  hungri og stríðum, sem eru helstu mál sem manneskjum er fært að taka á og semja um.  Nú keppist þá hver þjóðin af annarri við það að finna sökudólga í stað þess að halda friðinn, enda leiðir þessi stefna beint til stríða á nokkrum árum. Augljóst er að Íslandi ber að halda friðinn, framleiða orku á tiltölulega vistvænan hátt á fullu og taka ekki þátt í flokkadráttunum stóru, sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir heiminn. Þetta á jafnt við um loftslagsfundi og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Látum þá vera.

Nokkrir tenglar:

http://news.bbc.co.uk/2/hi/asia-pacific/7496703.stm

http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=20601087&sid=aWLjCsti0TUs&refer=home

http://www.reuters.com/article/newsOne/idUSL0354034920080709

http://news.sky.com/skynews/Home/World-News/G8-Summit-Agrees-To-Halve-Greenhouse-Gases-By-50-Per-Cent-By-2050/Article/200807215027421?lpos=World%2BNews_1&lid=ARTICLE_15027421_G8%2BSummit%2BAgrees%2BTo%2BHalve%2BGreenhouse%2BGases%2BBy%2B50%2BPer%2BCent%2BBy%2B2050

http://www.ft.com/cms/s/0/23ee8046-4d64-11dd-8143-000077b07658.html?nclick_check=1

Ath. að kannski þarf að fara fyrst inn á  www.ft.com  og síðan á greinina: "Biggest polluters back deep cuts to emissions"


mbl.is Yfirlýsing G-8 sögð útvötnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5000 kr. á mann, bara fyrir Laugaveg 4-6

Hver útsvarsgreiðandi Reykvíkingur mun þurfa að greiða 5000 kr. vegna skúraruslsins á LaugavegiLaugavegur 4 6 Ýtið þrisvar á mynd 4-6. Þessi gjaldþrota uppkaupastefna er að auka ánauð hvers einstaklings í lausafjárskorti nútímans. Nær sama er hvar í flokki þú stendur, ekki láta þér detta í hug að samþykkja fleiri slík afglöp, hvað þá heilu göturnar af vitleysis- fimmþúsundköllum á mann.

Áður friðsæl ganga niður Laugaveginn hækkar núna blóðþrýstinginn með hverjum 5000 kallinum sem gengið er framhjá. Það alversta að Sjálfstæðisflokkurinn skuli standa fyrir óráðsíunni. Kannski er það Porsche- kynslóðin?


mbl.is Dagur: Kostnaður mun meiri en haldið er fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótorhjól, ungar og blíðan

Laugarvatn og Þingvellir ljómuðu í heiðskíru logninu núna kl. 7 að sunnudagsmorgni. Ég sveif um á mótorhjólinu til Reykjavíkur í engri umferð, en náttúran hefur sínar hættur. Í þetta sinn voru þær helstar, að ungar fjölda fuglategunda vöppuðu um malbikið, allt frá lóuþrælsungum upp í rjúpur og gæsir. Lítið er lunga í lóuþrælsunga, þannig að valið er erfitt, þegar staðið er frammi fyrir því, hvort sveigja skuli frá agnarlitlu kríli og taka áhættuna á brotlendingu utan vegar, eða víkja hvergi og drepa litla ungann.  Ég fór því milliveginn, ók hægar og sveigði oft frá en naut náttúrunnar því betur. Þokan tók síðan við á Mosfellsheiði og háskýjað lognið í Reykjavík.Kona i Hanoi med barn

Indland motorhjol 1Annars er maður öllu betur varinn en flestir mótorhjólaferðalangar, því að þeir eru í Asíu, þar sem hitinn og hjálmlausa tískan ríkir. Minn hjálmur er sérsmíðaður af Bell, ég nota mótókross brynjuvesti með mittisbelti, buxur með lendahlífum, hnjá- og legghlífar, stígvél með stáli og hertu plasti, styrktan jakka með bak, axla og olnbogahlífum og hef þykka leðurhanska á höndum.  En t.d. í Ho Chi Minh (e. Saigon) borg í Víetnam, þar sem er heilmikil umferð, þar er fjölskyldan á mótorhjólinu eða á skellinöðrunni með nákvæmlega engar varnir. Það þótti mér erfitt að horfa upp á, enda varð mótorhjólaslys hjá fjölskyldu akandi  við hliðina á okkur þar sem við hjónin vorum í leigubíl á Indlandi. Leigubílstjórinn okkar ók bara áfram.Indland motorhjol fjolsk2Indland motorhjol fjolsk1

 


mbl.is Blíða um land allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurspár- vídeó

Veðurþáttaspáin á vedur.is virkar vel. Ég tók saman tvenn örstutt myndbönd hér til hægri um það hvernig næstu dagar líta út varðandi hita og úrkomu. Hlýindin eru augljós, en gaman er líka að sjá hvort úrkomuflekkurinn færist yfir eins og spáð er, eða hvort hitaskúrir á hverjum stað verða í líkingu við tölvuspána. Að vísu kemur vídeóið smærra út, en prófið að renna síðan yfir stikuna á vefnum.

Þessar veðurþáttaspár reynast mér vel þegar farið er til fjalla. T.d. sýndu þær Eyjafjallajökul eitt sinn bjartan norðaustanmegin en úrkomu suðvestanmegin. Við sáum þetta síðan gerast og völdum björtu leiðina.


mbl.is Mikil umferð frá höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleitar afleiddar afleiðingar afglapa

Þau afleitu afglöp umhverfisráðherra að semja af sér fyrir Íslands hönd Thorunn climamunu hafa afleiddar afleiðingar á flestum sviðum mannlífsins.  Tilbúinn ofurkostnaður þess að vilja kæla heiminn með losunarkvóta er nú þegar færður yfir á almennt líf fólks, t.d. á matarkörfuna eða með missi atvinnu vegna skorts á samkeppnishæfni, þar sem þau lönd sem brenna kolum, selja kvóta og hafa milljarða manna (Kína og Indland) njóta þess hve auðtrúa fulltrúar annars upplýsts fámennis á norðurhjara geta klúðrað sinni samningsaðstöðu, þessum framleiðslulöndum til verulegra hagsbóta.

Hve lengi mun okkar ágæti formaður og forsætisráðherra, Geir H. Haarde, leyfa Þórunni að feta þessa glapstigu í nafni þjóðarinnar? Nú er mál að linni.


Hekla er flott

Mikill hópur gekk á Heklu  á stystu nótt ársins þann 21/6 sl.Heklueldur ljos Við Stefán Bjarnason fórum síðar þann morgun á skíðum þar sem ég tók myndir í sérstöku veðri, þar sem eldingaský og góðveðursbólstur skiptust á. Mér varð ekki um sel þegar hnúalaga skýin hrönnuðust upp þegar við nálguðumst toppinn, en svo þynntust þau þannig að útsýni varð gott, en eldingaveðrið varð helst í Landeyjum daginn eftir.  Þessar myndir hér til hliðar tók ég við toppinn á Heklu, en breytti litatóninum með skemmtilegri útkomu, sem sýnir drunga eldfjallsins.  Hitinn á toppnum gufar upp og minnti okkur á þau þrennu eða fernu eldgos í Heklu sem við höfum séð (1980-1981, 1991 og 2000).

Gangan frá bílastæðum að snjó var ekki ýkja löng, en þó alltaf í þyngra lagi með skíðin á bakpokanum og í jöklaskóm. Þá tók ljúf ganga við á fjallaskíðum með skinnum undir upp á topp og stórskemmtilegt rennsli þaðan langleiðina niður að bíl. Frábært! 

Nokkrar myndanna eru í myndaalbúmi hér til hliðar og sumar aðrar í bloggi Stefáns. Athugið að gjarnan þarf að ýta þrisvar á myndir til þess að ná fullri stærð.Toppsvart IP

Árið 2005 gengum við á Heklu í hitabylgjunni miklu í ágúst það ár. Hér eru myndir frá því.


Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband