Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019

Æpandi þögn Katrínar og VG

BolabiturNú þegar styrja Skota lýsir yfir neyðarástandi í heiminum vegna hlutfalls koltvísýrings í loftinu, er VG- forsætisráðherra Íslands fljót að brenna til fundar í flugvél til Skotlands. Á meðan er þögn Katrínar og flokks hennar, Vinstri grænna, um Þriðju orkutilskipun ESB orðin æpandi.

Kænska

Stjórnviska Katrínar Jakobsdóttur er ómæld, að beita forystu Sjálfstæðisflokksins eins og ótjóðruðum bolabít í baráttu fyrir innleiðingu Orkupakkans, sem Katrín veit að er verulega óvinsæl í hennar eigin flokki, Vinstri grænum. Sá flokkur segir ekki múkk um málið, þótt hann vilji hramm ríkisins sem sterkastan og teljast úr hófi umhverfisvænn. 

Þarf ekki að grafa

Hver er meginástæðan fyrir þessari grafarþögn? Kannski er það stjórnkænska að láta Sjálfstæðisflokkinn grafa sína eigin gröf með þessu máli svo að eftirleikurinn verði auðveldari. Svei mér þá.


mbl.is Katrín fundar með Sturgeon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú genguð þið of langt!

Brot-i-murveggLanglundargeð hins almenna Sjálfstæðismanns, sem heldur enn að Landsfundur endurspegli ríkjandi skoðanir innan flokksins er nú þrotið. Vitað var að varaformaðurinn aðhylltist Brusselska hætti eins og löng hefð er fyrir í því embætti.

Krosstrén svigna

En nú kastar tólfunum, þegar Guðlaugur Þór utanríkisráðherra, sverð Íslands og skjöldur, gengur fyrir þingmannaliðinu í sérstakri herferð gegn grunnskoðunum sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á. Allar leiðir liggja til Rómar (-sáttmálans) og við "einangrunarsinnar" setjum EES- samninginn í hættu, með því að samþykkja ekki nýjan viðauka við hann. Síðan hvenær hefur það talist réttir viðskiptahættir? Að fylgja milliríkjasamningi í áratugi í góðri trú, en að honum sé hætt þegar mótaðilinn krefst þess að nýr verulega íþyngjandi viðauki verði samþykktur, annars fari allt í bál og brand!

Traustið brást

Þessi nýja Orkupakka- herferð virðist til þjónkunar ESB- hluta flokksins sem enn var eftir við hreinsunina yfir í ESB- Viðreisn. ESB- hópurinn sá að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki samþykkja aðild að ánauðinni og færði því áherslur sínar alfarið yfir á EES- samninginn, með fjölgun í Brussel "til þess að hafa áhrif " á lagasetninguna o.s.frv., þar eð Alþingi var hvort eð er orðið valdalaust að þeirra mati. Fjöldinn í flokknum hefur horft áhyggjufullur á þessa þróun, en horfir nú upp á þetta sem orðinn hlut. 

Yfir strikið

En þegar forysta flokksins lýsir talsmönnum sínum nokkurn veginn sem einangrunarsinnum og talar þess í stað um "skjaldborg" um erlenda samvinnu, þá er amk. mér öllum lokið. Þá get ég ekki annað en rifjað upp bardaga okkar gegn flokksforystunni í Icesave, því að samlíkingin er alger. Þar gengu ráðandi öflin fram í skjaldborg sinni gegn flokksmönnum og þjóðinni að til skammar reyndist og þurfti að lokum rammkommúnískan Forseta Íslands til þess að skera okkur niður úr þeirri snöru, þökk sé honum.

Enginn til bjargar

Núverandi forseti mun ekki hrófla við þessu fullveldisafsali, það er ljóst, hvorki lagalega né er það vilji hans. Þriðja orkutilskipun ESB verður stimpluð af Alþingi sem lög á Íslandi af því að helstu hliðverðirnir kusu að ganga í lið með andstæðingunum og gleyma því hverjir kusu þá. Því miður svíður fleiri en þau sem undir míga í þetta skiptið, okkur öll!

 


mbl.is Varaði við „erlendri einangrunarhyggju“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband