Bloggfærslur mánaðarins, október 2021

Orkukrísa Evrópu sannar sérstöðu Íslands

GasverdEvropaOkt2021aOrkuþurrð Evrópu eykst dag frá degi og gasverð tífaldast frá lægsta punkti í fyrra, en áfram heldur stjórnmálafólkið að grafa dýpri gröf fyrir þjóðir sínar með "metnaðarfullum" áætlunum um skattlagningu, höft, bönn og verðhækkanir til þess að berjast gegn hlýnandi heimi, allt í nafni manngerðra loftslagsbreytinga.

Fyrirtækin loka

Nú leggja orkufrek fyrirtæki Evrópu upp laupana, sérstaklega þau smáu og miðlungsstóru, sem mega ekki við þessum verðsveiflum á orku. Ástandið er algerlega sjálfsskapað: Kjarnorku- og kolaverum var  lokað, en það færði Rússum aukin völd á gasmarkaði. Stóra gasleiðslan Nord Stream 2 til Þýskalands var tengd og tilbúin fyrir mánuði síðan, en fer ekki af stað fyrr en kanslari landsins stimplar sitt samþykki. Áhrif Vinstri grænna eru þar veruleg og því má búast við gasleysi áfram í ESB, sem ræðst af Þýskalandi eins og alkunna er.

Norðmenn í púkkið

Jafnvel Norðmenn með allar sínar olíulindir horfa nú upp á hörmungar- verðhækkanir hjá sér, í stað þess að tryggja landsmönnum alltaf orku á skaplegu verði, sem auðvelt væri að standa við. Þangað liggja kaplar sem færa Evrópu orku, næstum því sama hvaða ástand er í Noregi, enda stýrir ESB því og gerðir eru afhendingar- samningar sem standa þarf við. 

Logn og kalt?

Nú bíður því Evrópa á milli vonar og ótta um það, hvort veturinn verði kaldur eða mildur. Miklir frostakaflar geta rústað efnahag í álfunni, sérstaklega ef lognið fylgir, þar sem vindorkuverin ná ekki að skila sér. Gasið frá Rússum og veðrið ráða því hvort Evrópa verði starfhæf eða ekki í vetur.

BNA bjarga ekki núna

Venjulega koma Bandaríkin til bjargar, en svo er ekki núna, þökk sé Biden forseta, sem stöðvaði strax framkvæmdir við olíuleiðsluna frá Alaska, en hún var nær tilbúin. Auk þess fór haftastefna hans í gang á flestum sviðum. Olíu- og gasframleiðsla Bandaríkjamanna verður því að langmestu leyti  fyrir eigin þjóð og verður gripið til útflutningsbanns ef þurfa þykir.

Virkjum áfram

Á meðan orkukrísa skekur heiminn er til fólk hér á landi sem dregur lappirnar í því að samþykkja virkjanir, sem gætu tryggt áframhaldandi orkuöryggi á Íslandi, orkuskipti, sjálfbærni, samkeppnishæfni og frumkvöðulsstarfsemi. Ef umhverfis- og auðlindamálin verða afhent áfram Vinstri grænum, þá verðum við í álíka eymdarstöðu og Evrópusambandið. Það gerum við varla sjálfviljug.

 


mbl.is „Það þarf einfaldlega að virkja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband