Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023

Þarfleysuþrennan

3 pilur nidurHælisleitendur, þróunaraðstoð og kolefnislosun eru þau þrjú svið sem eru farin að kosta ótrúlegar fjárhæðir og mætti kalla „Þarfleysuþrennuna“, þar sem alger óþarfi er að eltast við þau.

Ríkið er allt

Ný kynslóð vex núna úr grasi, þar sem trúin á almætti hins opinbera fóstraðist vel eftir Hrunið. Stjórnmálafólk hefur valist eftir því, hve miklu þau lofa í að sinna hverri þeirri hugsjón sem nýir kjósendur vakna með þann daginn. Áður var áherslan á grunnþætti samfélagsins, þar sem vel tókst til að byggja upp ýmiss traust kerfi okkar litlu þjóðar. En hagsældin ól af sér þá hugsun, að gæsku og getu ríkis og sveitarfélaga séu engin takmörk sett, bara nefna það og tekin voru lán á lágum vöxtum í ofgnótt framboðs lánsfjár síðasta áratugar.

Skera burt

En nú er öldin önnur og mál er að herða ólina þegar vaxtastig og verðbólga rýkur upp og loforðaflaumurinn er orðinn óstöðvandi, þar sem þessi þrjú ofangreind svið hrópa mest á athygli. Hvernig hægt er að láta málefni hælisleitenda kosta okkur meira en fór í byggingu nýja Landspítalans á síðasta ári er með ólíkindum. Flest Evrópuríki hunsa núna Schengen- reglur og sinna eigin landamærum af viti með takmörkun hælisleitenda- flóðsins, en ekki Ísland. Í þessu er auðveldast að segja stopp.

Vanþróun

Þróunaraðstoð er tímaskekkja, þar sem ímyndin um góða fólkið sem gefur sveltandi börnum brauð í Biafra heldur áfram að moka skattpeningunum okkar til spilltustu ríkja jarðar. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn gripið þetta óheillakefli á lofti af Samfylkingunni og hleypur með það um heiminn, lofandi tvöföldun sóunarinnar. Fokið er í flest skjól.

Afleitur kostnaður

Kolefnisfárið er kirsuberið á toppi þarfleysunnar, sérstaklega hér á Íslandi. Öllu hugsandi fólki sem kynnir sér málið er ljóst, að Ísland breytir engu um hitastigið í heiminum. Það þarf í raun ekki að ræða þá staðreynd. En nú er þessi bábilja látin kosta okkur vinnu, tíma  og peninga í flestum þáttum daglegs lífs. Afleiddur kostnaður og óþarfa óþægindi af þessari misskildu hugsjón er með endenum. Þó er sagt enn „You ain‘t seen nothing yet“ eins og Forseti Íslands forðum.

Ofureyðsla

Upphæðirnar sem um er að ræða í Þarfleysu- þrennunni eru ofar skilnings flests fólks. Árið 2023 = 12 milljarðar króna plús 15 ma. plús ómælt. Spara mætti líklega 70 milljónir króna á hverjum degi hjá ríki og sveitarfélögum samanlagt með því að skrúfa þessi málefni niður í tíund af því sem þau taka til sín í dag. Þá þarf ekki að hækka skatta frekar, sem er öruggt að gerist ella. Því má treysta.


Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband