Samstöðugríman tekin niður

Bjarni Benediktsson var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins sem „sátt“ á milli ESB- sinna og ESB- aðildarandstæðinga innan flokksins. Margoft reyndu flokksmenn, þ.á.m. ég, að spyrja Bjarna á fundum um tvennt: Ætlarðu að semja um Icesave og halda ESB- aðlögun áfram, ef þú kemst til valda? Hann var jafnan háll sem áll og fékkst ekki til þess að segja: „nei og nei“. Einfaldlega vegna þess að hann vildi jánka hvorutveggja  en mátti það ekki, því að þá hefði hann ekki verið kosinn áfram.

ESB/Icesave eða ekki?

  er komið að þeim stað í Veislunni að sannleikurinn birtist. Aldrei mátti nefna ESB- snöruna í hengds manns húsi, en ekki verður feigum forðað: Annað hvort aðhyllist maður ESB- aðild eða ekki. ESB- aðildarsinni er gjarnan tilbúinn til þess að samþykkja Icesave- álögur og flest það er færir okkur Gull-Evru  og önnur ómæld gæði við enda regnbogans.  Síðan dregur hann aðra félaga með sér í ESB-pyttinn í nafni samstöðu, líkt og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon gerðu í sínum flokkum.

Óttinn við valdaleysi

En þetta átti ekki að vera hægt í Sjálfstæðisflokknum, sem hefur sýnt skýra andstöðu í skoðanakönnunum og á Landsfundi. Hugsanlega veldur þar hræðsla forystunnar við það að komast ekki til valda á endanum nema með samkomulagi við Samfylkingu, enda er ekki farandi í stjórn með þjóðnýtingarsinnum í Vinstri grænum. Við Sjálfstæðisfólk vitum hve dýru verði slíkir afarsamningar með Samfylkingu hafa verið keyptir. En að láta þjóðina gjalda sem heild vegna Icesave má ekki gerast, hvar í flokki sem menn standa. Þingflokkurinn verður að endurspegla flokkinn allan í andstöðu sinni.

Þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og ESB- aðlögunarferlið

Einungis þjóðaratkvæðagreiðsla getur gert út um svona risastórt mál eins og Icesave, sem slær öllum skattahækkunum og öðru stjórnarklúðri við. Og ef farið verður  af stað með slíkt, þá liggur beint við að spyrja þjóðina líka hvort draga skuli ESB- aðildarumsókn til baka strax eður ei. Þá verður loks hægt að taka á málum sem skipta sköpum, eins og atvinnu- og samkeppnismálum.

Styðjum við bakið á þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem sýna andstöðu við Icesave þrátt fyrir mótbyrinn. Hlustum á ungliðana sem erfa landið og skuldirnar.


mbl.is Ólga vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2011

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband