Nei, en ekki „kannski, ætli það ekki?“

Þýskum bönkum, ásamt fleirum, tókst með hjálp ESB og AGS að koma skuld einkageirans á Grikklandi, Írlandi og líklega Portúgal yfir á almenning í þessum löndum með háum vöxtum án teljandi afskrifta. Þeim mistókst þetta á Íslandi þar sem afskrifaðar voru þúsundir milljarða króna í niðurskurði skulda upp á tugi prósenta af heild þeirra. Við eigum því eðlilega enga greiða þar inni, en það er betra heldur en að skulda þeim ógnarupphæðir.  Helstu bankar Evrópu og BNA halda áfram þessari vegferð sinni til þess að múlbinda almenning í hverju ríki með hjálp stjórnmálamanna í stað þess að horfast í augu við gjaldþrot sitt sem átti sér í raun stað fyrir rúmum tveimur árum. Þegnar landanna eru rétt farnir að gera sér almennileg grein fyrir þessu núna, sbr. á Írlandi þar sem ný stjórn reynir að fá askriftir skulda og lækkun vaxta, þar sem enginn tilgangur er í því fyrir fólkið að þræla einungis fyrir vöxtum bankanna og Evrópusambandsins. En þegar múllinn er kominn upp á hausinn eins og á Írlandi, þá er erfitt að taka hann af dýrinu.

VidskiptabladidMMRIcesaveESB

 

Fallnir bankar valda sköttum

Vestrænir bankar eru fjölmargir komnir að fótum fram og vita af næsta „Lehman Brothers- falli“ handan hornsins. Búið er að breyta skuldum þeirra í ríkisskuldir ýmissa ríkja Evrópu, en skuldsetningin ber aldurhnigið miðstéttarvinnuaflið ofurliði, sérstaklega fyrst ríkin hlaða skattbyrði á þegnana í sósíal-demókratískri réttlætingu sinni.

 

Ein röksemd eftir

Nú þegar þessi bardagi almennings við banka og stjórnmálamenn þeirra um alla Evrópu harðnar, þá er enn mikilvægara að standa í lappirnar hér heima á bráðnandi klakanum. Á Íslandi eigum við amk. einn stóran skammt af hrunpakkanum eftir, en það er Icesave. Hann er grein af sama meiði. Bretar og Hollendingar eru ákveðnir í því að koma þessum 1-2 milljónum á mann á Íslendinga, í stað 1-2 Evrum á mann hjá sér. Tilvitanir í siðfræðilega skyldu okkar ber að skoða í ljósi þeirra hlutfalla. Flest rök með Icesave- höftunum hafa verið hrakin, en helst hangir fólk enn á mismunun, þ.e. hvort við greiðum Bretum og Hollendingum þá lágmarkstryggingu sem þeir lögðu fram til reikningseigenda í löndum þeirra. Íslenskir dómstólar myndu líkast til dæma í slíku í íslenskum krónum. Ef dómur gengi gegn íslenska ríkinu (10% líkur?),  þá yrði okkur dæmt að greiða lágmarkstrygginguna í íslenskum krónum með vöxtum frá dómsuppkvaðningu, ekki í gjaldeyri með vöxtum frá því fyrir löngu. Samvæmt slíkum dómi ættum við því varla að greiða þá 26 milljarða króna  sem eru núna gjaldfallnir af vöxtum skv. Icecave III.

VB MMR ESB afstada

 

Andstaða við ESB- aðild

Eitt helsta vandamálið varðandi Icesave er það hve beintengdur stuðningurinn er við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Skoðanakönnun MMR fyrir Viðskiptablaðið nýlega sýnir þessi afgerandi tengsl vel. Enda staðfesti Jóhanna Sig. forsætisráðherra stefnu Samfylkingar og stjórnarinnar, þar sem hún sagði stjórnina stefna ákveðið að aðild að ESB og staðfestingu Icesave.  En fylgi Samfylkingar og stjórnarinnar er lítið, af auðskiljanlegum ástæðum. Fylgi Sjálfstæðisflokksins, stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi er aftur á móti vel stöðugt (um 35-36%). Tæpir tveir andstæðingar eru almennt gegn hverjum einum fylgjanda ESB- aðildar. Flestir andstæðingar ESB- aðildar á Íslandi eru Sjálfstæðismanneskjur.

 

Bjarna(r)- greiðinn mikli

Um 70% Sjálfstæðisfólks stóðu gegn Icesave- samningum í lok síðasta árs, en þá kom Bjarna(r)- greiðinn mikli: Formaður Sjálfstæðisflokksins og hluti þingflokksins lagðist á sveif með ríkisstjórninni og staðfesti Icesave III- gjörðina, þrátt fyrir afgerandi andstöðu flokksmanna og samþykktir sérstaks landsfundar gegn slíku. Þetta setur stöðugan Sjálfstæðismanninn í klemmu: á hann að fylgja sannfæringu sinni gegn ESB- aðild og óþarfa- sjálfskipaðri Icesave- skuldaánauð til velþóknunar ESB/AGS/bankasamsteypum, eða á hann að fylgja ísköldu mati formannsins, sem byggir á skoðun hans á hagsmunum og áhættuþáttum, nær óháð vilja langflestra kjósenda Sjálfstæðisflokksins?

 

Hvað skal gera?

 

 

Svarið hlýtur að vera skýrt: Kjóstu með sannfæringu þinni. Farðu með ríkisfé sem væri það þitt eigið (sem það er). Skrifaðu ekki upp á opna víxla með óvissri upphæð, langt fram í tímann. Varkára leiðin skilar sér best þegar haukar Evrópu sveima um akurinn og íslenska músin leitar skjóls. Berum gæfu til þess að hafna Icesave III eins og öllum slíkum höftum á athafnafrelsi fólks. Eða ætlarðu að fá Svavars- eða Jóns Gnarrs- leið á þessu og kjósa Icesave í burtu með því að greiða það?

 

Auk þess legg ég til að ESB- aðildarumsóknin verði nú þegar dregin til baka.


mbl.is Fulltrúar já og nei kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

"Ef dómur gengi gegn íslenska ríkinu (10% líkur?),  þá yrði okkur dæmt að greiða lágmarkstrygginguna í íslenskum krónum með vöxtum frá dómsuppkvaðningu, ekki í gjaldeyri með vöxtum frá því fyrir löngu."

Geri ráð fyrir að lögfræðingar séu sammála þessu mati (án líkindanna). Á þessu þarf að hamra, og fá alla til að taka undir, hvort sem þeir eru í Samfylkingar/ESB/Icesave-búðunum eða hinum.

Geir Ágústsson, 23.3.2011 kl. 13:35

2 Smámynd: Einar Jón

Nú er ég frekar að hallast að nei-inu, en er lágmarkstryggingin ekki besta tilfellið ef dómur fellur okkur í óhag?

Er ekki hætta á því að við þurfum að ábyrgjast allar erlendar innistæður á sama hátt og innlendar innistæður voru tryggðar*, vegna jafnræðisreglu og þess háttar?

*) þ.e. upp í topp, þökk sé "Guð blessi Ísland"-forsætisráðherranum okkar.

Einar Jón, 23.3.2011 kl. 13:59

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Margir af mínum kunnugjum eru komin yfir á NEI-ið,annað er brjál.

Helga Kristjánsdóttir, 23.3.2011 kl. 14:19

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Já, Geir, fv. hæstaréttardómari staðfesti þetta álit við mig að dómur yrði í krónum og að vextirnir yrðu frá degi úrskurðarins.

Einar Jón, rökin fyrir því að við yrðum dæmd til þess að greiða allar innistæður (ekki "bara" lámarkið) standast ekki lög og reglur. Alls kyns yfirlýsingar ráðamanna í fjölmiðlum eru ekki bindandi fyrir ríkið, heldur einungis þær sem Alþingi hefur staðfest, enda væri það út í hött ef einstaka pólitíkusar gætu skuldbundið alþjóð svo herfilega í hvatvísi sinni. Nei er margfalt öruggara en já.

Sæl Helga, ég segi það sama. Þetta mjakast yfir á NEI. Svo þegar ytri aðstæður versna enn, þá verður fólki ljósara hvílík firra það er að skuldbunda sig svona eftir einhverjum tilfinningarökum.

Ívar Pálsson, 23.3.2011 kl. 15:32

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Afsakið, átti að vera "að vextirnir yrðu líkast til frá degi úrskurðarins"

Ívar Pálsson, 23.3.2011 kl. 15:33

6 Smámynd: Einar Jón

Í kringum hrunið voru innlendar innistæður voru tryggðar með lagasetningu á Alþingi, ekki satt?

Þær hafa varla orðið tryggðar við það eitt að Geir hafi haldið því fram í beinni útsendingu...

Einar Jón, 23.3.2011 kl. 17:26

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ívar.

Ég reikna með að þú útskýrir það fyrir Einari Jón, að vilji hans til að borga byggist á misskilningi, það voru engar innstæður ábyrgðast á Íslandi.  Ef amerísku vogunarsjóðirnir fara á hausinn með nýju bankanna, þá fara þeir á hausinn, og enginn mun borga út þá ofurríku.  

Þeir sem halda þessu fram trekk í trekki, eru aðeins að fela borgunarvilja sinn á bak við blekkingarhjúp.

En þó færsla þín sé ágæt hvatning til fólks að forðast írsku gildruna, þá er hún í grunnatriðum röng.  Þú keyrir alveg yfir þá ógæfu að flokkur þinn, og Samfylkingin, fékk AGS á svæðið til að passa krónubraskara.

Skuldabréf upp á 650 milljarða til 5 ára, borgar sig ekki alveg sjálft.

Engin þjóð í núverandi krísu hefur skuldsett sig fyrir slíkum hörmungum eins og AGS lánið er.

Og við verðum gjaldþrota, ekki nema að vitiborið fólk gefi stjórnmálamönnum okkar frí.  

Þegar bæði byssa og hnífur ógna lífi okkar (tilvísun í Bjarna Tryggva, söngvaskáld) þá höldum við ekki lífi með því að bægja aðeins hnífnum frá.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.3.2011 kl. 18:42

8 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Ómar - að taka lán til að borga lán (AGS) er síst gáfulegt. Dómar EFTA munu aldrei taka á innistæðutryggingum, né kveða á um bótagreiðslur. Þeir munu eingöngu fjalla um hvort neyðarlögin voru réttlætanleg eða ekki. Hvað við sem þjóð gerum í kjölfarið, er okkar ákvörðun. Þetta hafa flest allir verið sammála um.

Mögulega erum við gjaldþrota þjóð. En það kemur Icesave ekkert við. Okkar er að forða fyrirtækjum og heimilum frá AGS sem stjórnar fjámálastefnu og kröfuhöfunum sem eiga stóru bankana. Utan þess að veðsetja ekki auðlindir okkar. Það getum við gert - en ekki með því að fallast á pólitísk rök og láta undan AGS sem vinnur fyrir kröfuhafa.

Við höfum um tvennt að velja - láta landið frá okkur, eða berjast fyrir því (og auðlindum okkar) og til þess að berjast þurfum við rúmlega meira en að segja nei við Icesave - við þurfum líka að aðlaga lög sem hafa verið sett af þessari ríkisstjórn (fyrir AGS) aftur til stjórnarskrár okkar.

Leyfum ekki eignanám bankanna eða ofur skattaálagningu AGS. Vinnum saman sem þjóð.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 24.3.2011 kl. 00:23

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Lísa, þetta er málið, það er látið eins og við séum sloppin, ef við vísum ICEsave kröfu breta til þeirra sem málið varða.

Hin raunverulega tifandi tímasprengja er AGS lánapakkinn, það er þekkt, það er tæplega helmingur af landsframleiðslu, og í erlendum gjaldeyri.

Og aðeins til 5 ára.

Nei við IcEsave er ekki nóg.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.3.2011 kl. 00:42

10 identicon

Ívar,

Mig langar að benda á að ef jafn vel innheimtist úr þrotabúinu og Já menn vilja vera láta hvers vegna þarf ríkisábyrgð? Er ekki nóg að Tryggingasjóður standi einn ábyrgur á pappírnum?

Ég tek hins vegar undir áhyggjur manna af hárri skuldsetningu ríkissjóðs. Skv. skýrslu AGS verður hún, ef Icesave III verður samþykkt, komin í 267% af þjóðarframleiðslu sem er gjaldþrota staða (sjá skýrslu IMF frá Janúar 2011 númer 11/16, bls. 6).

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 16:39

11 identicon

Leiðrétting, þetta á að vera þjóðarskuldir en ekki skuldir ríkissjóðs.

"Gross external debt is expected to fall to about 267 percent of GDP in 2011"

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 16:46

12 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Ég held að það sé alveg óhætt að fara að viðurkenna að þjóðin er gjaldþrota. Það sem hinsvegar ætti að gera er að forða heimilum og fyrirtækjum frá því að sogast inn í þetta. Ríkisstjórnin ætti að beyta sér fyrir því öðru fremur.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 25.3.2011 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband