Viðjar vanans

Við gerum það sem við erum vön að gera. Heilinn virkar þannig, hann kemur sér upp vana að starfa á ákveðinn hátt og þar með sitjum við uppi með það. Þá er mikilvægt að koma sér strax upp góðum vana þegar byrjað er á einhverju nýju. Erfitt er að breyta út af þeirri reglu sem fólk kýs sér. Af því leiðir að sá háttur sem er á hlutunum í dag er langlíklegasti máti þeirra framvegis.VidjarVanans Trúlega segja flest við sig sjálf að það sé ekki þannig farið með þau, heldur flesta aðra, en manneskjan er sjálfri sér líkust. Jafnvel þau okkar sem gera hlutina á sem fjölbreytilegastan hátt eru reglumanneskjur þegar betur er að gáð.

Erfitt að breyta til?

En hverjir eru svo þessir vanar sem við festumst í? Nær væri að spyrja hvar við höfum ekki komið okkur upp einhverri venju. Daglegt líf er alsett litlum háttum sem enda jafnvel á því að einkenna mann. Í stað þess að greina frá óþolandi háttum makans í smáatriðum, þá væri kannski ráð að sundurgreina eigin venjur með það í huga að breyta kannski einum eða tveimur þeirra á dag, þannig að breytingin verði varanleg. Þeim sem tekst þetta eru afar óvenjulegt fólk. Þau enda líkast til á því að segja við sig sjálf að það sé engin nauðsyn á þessari breytingu, að tilraunin hafi verið óþörf og því sé best að snúa að fyrri leið, enda hafi hún reynst vel. Sannaðu til!

Endurtekningar

Það ætti að vera óþarfi að tína til mýmörg dæmi þessu til stuðnings. Hver einasta aðgerð manneskjunnar er yfirleitt regluleg endurtekning fyrri aðgerða, þótt það geti verið í smábreytilegum myndum. Verulega reynir á þegar við tökumst á við eitthvað nýtt, sérstaklega með aldrinum, en við ættum ekki að leyfa því að fara þannig. Þeim sem ber gæfa til þess að takast stöðugt á við nýja þætti lífsins lifa mun fyllra lífi en við hin, sem festast í viðjum vanans þar til andlegt hreyfingarleysi er nær algert.

Afsakanir

Það er nákvæmlega engin réttmæt ástæða til þess að þessi föstudagur verði endilega að vera keimlíkur föstudeginum í síðustu viku eða í einhverri annarri viku, en ein helsta ástæða þess að það gerist samt er sú, að reglan um ákveðin vikudag límdist í heila okkar. Af hverju hringirðu ekki í Jón frænda eða Siggu vinkonu, eða lest bókina sem aldrei var lesin, eða bjargar heiminum? Af því að: Afsökun #1, afsökun #2, afsökun #3.

Háaloft heilans

Margsannað er að manneskjan hefur óendanlega aðlögunarhæfni þegar á reynir, enda höfum við komist af sem tegund vegna hennar. En við minni áreynslu þá slaknar á þessari hæfni, líkt og öllum þeim þáttum sem lítt reynir á. Heilinn er það sem þú notar hann til. Sú sem spilar ekki á hljóðfæri þrátt fyrir meðfædda hæfileika, heldur færir stöðugt bókhald, verður auðvitað hæf í bókhaldi en ekki í flutningi tónlistar. Eiginleikarnir verða ekki svo glatt geymdir árum saman, heldur gleymdir, á meðan aðrir þættir þroskast. Ef gengið er reglulega um háaloft heilans og kassar opnaðir sem við vitum að eru þar, en ekki alveg hvað er geymt í þeim, þá lifna við þessar taugafrumutengingar sem gera okkur að alvöru hugsandi manneskjum. Þetta gerist gjarnan í gegn um samskipti fólks og ætti að vera nýtt betur í stað samskiptalausrar einstefnu innmötunar, t.d. í sjónvarpi.

Tilraun núna!

Gerðu tilraun með sjálfa(n) þig: breyttu einhverjum þætti í eina viku og sjáðu hvort þú haldir það út. Ekki byrja á morgun, heldur í dag. Vertu svo velkomin(n) í hóp þess þorra manna sem gera hlutina alltaf eins, því að þú heldur þetta ekki út!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband