Þakkir til samstúdenta

Fagnaður 30 ára stúdenta Menntaskólans í Reykjavík (MR 1978) að Hótel Loftleiðum sl. Laugardagsvöld 17/5 gekk vel og honum lauk með líflegu spili hljómsveitarinnar Saga Class. Ég tók nokkrar myndir, en nokkrar þeirra eru núna hér inni á blogginu (myndaalbúm MR78). Hér á eftir fylgir hluti ræðu minnar, fyrir þann sem sofnaði fram á borðið og missti af henni. Trúlegt að hann vilji bæta sér það upp með lestrinum!.

Ég þakka þeim sem mættu fyrir að skemmta mér svo vel.

Bróðurpartur ræðunnar:

Það er gaman að sjá ykkur, kunnugleg andlit frá þeirri tíð er heimurinn var ostran manns. „The world’s mine oyster“ eins og Shakespeare sagði.   Hér er mættur hinn gjörvillegasti hópur áður efnilegs fólks, um 110 manns sem samanstendur af MR stúdentum árið 1978 og mökum þeirra. Ef einhver skyldi gera sér grein fyrir því núna að hann sé á rangri hátíð, þá er honum frjálst að fara, en líka jafnvel vera áfram og hlusta á okkur mæra gömlu MR gildin. Það hlýtur að vera óviðjafnanleg upplifun fyrir utanaðkomandi.

--------

MR stúdentar 1978 eru 150 talsins., en tveir þriðju hlutar, 100 manns, eru fæddir árið 1958. Um 23% hópsins eru fædd 1957 eða rétt fyrr (4), en 10% fæddust árið 1959. Við erum því rétt um fimmtugsaldurinn sem hópur. Þegar Skúli snillingur úr X- bekknum verður fimmtugur þann 26. maí næstkomandi, þá verður helmingur okkar hóps orðinn fimmtugur. Það síðasta en ekki síðsta okkar til þess að verða fimmtugt að aldri verður Gunnar J. Árnason heimspekingur, þann 27. nóvember á næsta ári, blessað barnið. Það er því enn möguleiki að snapa sér fimmtugsafmælisveislur hjá tugum manna næsta rúma árið, ef maður kemur ár sinni vel fyrir borð hér.

Mörg okkar hafa mætt nú þegar í nokkur fimmtugsafmælin og hafa því fengið sinn skerf af gríni og stríðni um þessi tímamót, ef þau eru þá einhver tímamót. Að vísu styður stjörnuspekin mín þá kenningu, því að nú erum við stödd þar sem við verðum að losa okkur við allt sem er úr sér gengið og halda einungis því sem traust er. Þá verður að vísu lítið eftir af mér, held ég!

En það felur líka í sér að taka til á háalofti hugans og þá fer nú að vandast málið. Þegar kassarnir eru opnaðir, þá er ómögulegt að ákveða hverju skal halda og hverju skal kasta. Því er gjarnan öllu haldið, bara til öryggis, en uppsöfnuð reynsla, nám og tilfinningar fimmtugrar manneskju getur tekið ansi mikið pláss á harða drifinu manns. Við erum því mörg í Limbólandi en komumst svo nær okkur sjálfum fljótlega.

Ef litið er til fæðingartímans, þá koma kannski skýringar á því hver við erum. Þá var Spútnikk skotið upp í geim og NASA var stofnað, rafsegulsvið jarðar uppgötvaðist, sólin mældist í hámarki sínu og allt var útúrspeisað. Örgjörvinn var fundinn upp, og núðlurnar mikilvægu. Bobbý Fisher vann Bandarísku skákmótaröðina 14 ára gamall. Þróun kjarnorkusprengja var á fullu og tilraunasprengingar áttu sér stað yfir Suður- Atlantshafi, en meðhöndlun sprengjanna var eitthvað slöpp, því að Kanarnir misstu eina á hús í Suður Karólínu. Kalda stríðið ríkti og Krútséf tók við í Sovétinu. Kastró réðist á Havana (ekki bara vindilinn) og uppreisn varð í Írak og í Alsír. Siglt var undir Norðurpólinn og þorskastríðið vegna 12 mílna hófst, strumparnir urðu til og efnahagskreppa skók heiminn.

Á þessum umbrotatímum fæddust við, ásamt Madonnu og Michael Jackson. Þessar 150 manneskjur hér hafa dundað sitthvað á sl. 30 árum frá útskrift. Líklega höfum við eignast yfir 300 börn, sem eru mörg hver farin að eignast börn sjálf.  Heilbrigðisgeirinn á sannarlega sína fulltrúa í þessum MR- árgangi. Hópurinn hefur því bjargað fjölda mannslífa eða amk.heilsu fólks og bætt lífsgæði þeirra.  Menntageirinn er mjög fyrirferðarmikill og má því segja að við höfum sett stoðir undir framtíð þúsunda manna (hér koma fiðlurnar inn). Hér eru verkfræðingar og arkitektar sem hafa hannað framleiðslu og byggingar og reist þær, flestum til hagsbóta. Hér eru líka lögfræðingar.

Við hin höfum líka gert margt af viti, sem heitir alls kyns nöfnum Við höfum öll leitast við að læra á lífið, finna samhljóm og tilgang í þessu öllu. Við reynum að bæta menninguna og lífið á einhvern hátt. Eða ekki!

Þrjátíu ár hafa gert okkur að miklum reynsluboltum. Hjá 68 kynslóðinni þýddi það að maður hafi legið í dópi, en hjá 78 kynslóðinni kannski að maður hafi reynt ýmislegt, verið Spútnikk og skotist upp á stjörnuhimininn en sprungið með hvelli og glæsibrag.

30 ár hafa fært okkur kannski 800 ástarsambönd sem næstum því öll skiluðu alfarið af sér taumlausri ánægju, gangkvæmum skilningi og varandi langtímavinskap. Í upphafi hrifust margir af hólkvíðum mussum, flatbotna skóm, ómáluðum andlitum, náttúrulegri líkamslykt, ómældu líkamshári og þyngdaraflsbrjóstum. En Diskóið og Hollýwúdd bjargaði okkur flestum með glys, glamor og uppstríluðu Farah Fawcett og Wham lúkki, sem hefur loðað við okkur síðan. Blásarinn hefur verið einn traustasti vinur okkar margra.

Bekkirnir hafa nú ekki allir fetað sömu slóðina. Augljós er hefnd nördanna, sbr. X- bekkinn. Við fórum vonandi flest eftir ráðleggingu Sykes (ekki Bill Gates), þar sem hann sagði: „verið góð við nördana, því að líklega munuð þið vinna hjá þeim síðar“.

En verum góð við hvert annað, njótum líðandi stundar og bætum við eigið líf og gömlu skólafélaganna. „O, alte Burschenherrlichkeit“ lýsir þessu víst, en Eiríkur ljósrauði og Halldór H. náðu kannski ekki að koma þýskunni nægilega vel inn um þykka höfuðskelina mína. Þegar við sungum: Wo ist die alte Treue? Þá varð mér alltaf hugsað: Hvar er gamla treyjan?   Hvað kemur fatnaður þessu við?

En verst var að skilja, Jerum, jerum, jerum o Quae mutatio rerum: 

Hvílíkt yfirskegg á afturendanum!

Engin furða að ég fékk 1,0 í latínu á vorprófinu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband