Fréttablaðið: ekki hluti frjáls markaðar

Fréttablaðinu er enn troðið inn í lúguna heima hjá mér, þrátt fyrir ítrekaða höfnun mína á því. Það er ekki nema von að blað sé „mest lesið“ ef það þarf einbeittan vilja og endurteknar beiðnir til þess að fá blaðinu ekki þröngvað upp á sig, með öllu því ruslfargani sem það skapar. Aðalástæðan fyrir andstöðu minni við þessa afhendingu er sú, að hún er ekki hluti frjáls markaðar. Einokun er til ills, hvar sem hún kemur fram. Þegar stærstu markaðasaðilar misnota einokunaraðstöðu sína til þess að brjóta niður frjálst markaðskerfi með því að prenta „ókeypis“ dagblöð og eyðileggja virkni auglýsingamarkaðar, þá ber að hafna því eindregið. Að minnsta kosti að láta ekki blekkjast til þess að halda að þetta sé frítt, frekar en nokkuð annað í heimi hér. Heldur fólk að allir blaðamenn á Fréttablaðinu, skrifstofufólk og prentarar mæti til sjálfboðavinnu á hverjum degi? Svarað er til varnar að auglýsingar borgi vitleysuna, en það er öðru nær. Milljörðum er mokað í einokunarofninn til þess að kaupa sér markaðsvöld til framtíðar. Auglýsendum er ekki gert annað fært en að hoppa upp í þennan vagn, sem hægir á öðrum vögnum á meðan.

Systurblað Fréttablaðsins í Danmörku, „Nyhedsavisen“ sprakk sem betur fer með hvelli, en því miður ekki fyrr en það var búið að rústa auglýsingamarkaðinum og láta fjölda Dana halda að hægt sé að fá eitthvað frítt. Hér á landi er Fréttablaðs- fríveiran búin að taka sér bólfestu og fjölga sér ótæpilega, sem sannar fyrir einokunarveldinu að fjárausturinn hafi borgað sig.

Ef lesendum er annt um frjálst hagkerfi og þeir vilja stefna að fullkomnum markaði, þá þurfa þeir að ákveða sjálfir hvaða fjölmiðil þeir vilja kaupa. Ef aðrir ákveða það fyrir þig, þá er það ekki frelsi, heldur ánauð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Tek heils hugar undir þessi orð. Stóð sjálf í miklu stappi allt síðasta ár við að reyna að fá EKKI Fréttablaðið en tókst ekki. Nú hef ég snúið mínu kvæði í kross, fékk mér páfagauk sem gerir miklar kröfur um "ókeypis" pappír til að leggja í botninn á búrinu. Ákveðin útfærsla á uppgjöf við einokun Fréttablaðsins. 

Halldóra Halldórsdóttir, 9.9.2008 kl. 11:55

2 Smámynd: Aprílrós

hahaha góð ;)

Aprílrós, 9.9.2008 kl. 17:01

3 identicon

þetta er góður punktur, vonandi verður almenn vakning fljótlega og fólki takist að varpa þessum (og öllum) einokunargömmum af baki sér

Gullvagninn (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 22:14

4 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Við erum greinilega rétthærri á Ísafirði.  Þar grípum við blaðið ókeypis í Samkaup.  Því er ekki dreift heim til íbúa.  En ég er alveg sammála þér Ívar.

Gunnar Þórðarson, 10.9.2008 kl. 05:11

5 Smámynd: Valdimar Birgisson

Auðvita átt þú og aðrir að hafa frelsi til þess að hafna Fréttablaðinu. Þú átt að hafa rétti til þess að fá það ekki inn á heimili þitt kjósir þú það.

Auglýsingamarkaðurinn gerir hins vegar greinamun á dreifingu og lestri. Það er ekki nóg að láta þig hafa blaðið þú verður að segjast lesa það til þess að þú skapir Fréttablaðinu (auglýsendum) verðmæti.

Auðvita er Fréttablaðið og 24 stundir ekki ókeypis eins og þú bendir á. Það er augljóst að það kostar að gefa það út.  Það er heldur ekki ókeypis fyrir lesendur því þeir eyða tíma í lestur. Tími er jú verðmæti.

Með þínum rökum um má allt eins segja að mbl.is sé hluti af einokunarveldinu með því að færa þér eitthvað "frítt" sem áður kostaði.Það er bara svo að allt almennt upplýsingaefni er að verða frítt. Almennar fréttir eru þar á meðal.

Valdimar Birgisson, 11.9.2008 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband