Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Nóg komið af Jenum?

Það er athyglisvert að Kaupþing taki stórt Jenalán núna þegar umræðan er á þann veg að þessu geti senn farið að ljúka. Kannski er þetta eina lausnin, á meðan tryggingarálag bankans er lágt.

Vaxtamyllan hjakkar enn áfram

Vaxtamyllan, þar sem tekin eru lán í lágvaxtamynt (t.d. japönsku Jeni) en féð nýtt í hávaxtamynt (t.d. IKR) hefur gengið í þó nokkur ár en gæti farið að renna sitt skeið fljótlega. Ný- Sjálenski dollarinn NZD er líklegastur til þess að bresta fyrst að þessu leyti. NySjalenskir100dalirHann er framvörður hávaxtamynta (8% stýrivextir) þar sem verslað er mikið með þann gjaldeyri, á meðan íslenska krónan IKR (13,3 % stýrivextir) er talin áhættusamari, með minni viðskipti, meira flökt og styttri sögu sem alvöru gjaldmiðill. Það sem bendir helst til breytinga er tvennt: Bæði japanski og nýsjálenski seðlabankinn hafa fengið nóg af þessu endalausa útstreymi japanskra Jena yfir í nýsjálenska Dollarann, enda er munurinn á vaxtastigi sextánfaldur (en rúmlega 26 faldur miðað við Ísland!).

Nýja- Sjáland og Ísland 

Vandi andfætlinga vorra, Nýsjálendinga, er sá sami og okkar, þar sem vinsældir gjaldmiðilsins aukast við hverja vaxtahækkun, sem kallar í raun heima við á frekari vaxtahækkanir, sem auka aftur vinsældirnar. NZD myntÞar er verulega farið að velta fyrir sér hvort yfirleitt sé hægt að halda við litlum hávaxtagjaldmiðli, þar sem heimsverslun gjaldeyris skekkir stöðuna heimavið svo verulega. Seðlabanki landsins hafði ekki gripið inn í gjaldeyrisviðskiptin í fjölda ára þar til um daginn og segist munu halda því áfram, en því miður hefur sú garðslöngubuna ekkert haft að segja á móti því gríðarfljóti sem þetta fjármagnsstreymi er orðið.

Japanir vilja traust Jen

Það er ekki fyrr en í gær, sem japanski fjármálaráðherrann andmælti þessu einstreymi fjár, að markaðurinn telur að þessi "vaxtamunarverslun" geti farið að hægja á sér. Jen BloombergTalið er að japönskum yfirvöldum lítist ekki á það að langflestir fjárfestar, þmt. fjöldi japanskra launþega sem fær kaupaukana sína núna, nýti féð í erlenda fjárfestingu. Yfirvöld landsins hafa ekki skipt sér verulega af slíku í amk. tíu ár, en vilja leggja áherslu á innlendan vöxt héðan af.

Heljar- afleiðingar sterkara Jens

Afleiðingar hugsanlegrar styrkingar Jensins hefðu veruleg áhrif á heimsvísu, sérstaklega á hávaxtamörkuðum í jaðrinum, þar sem íslenska krónan er. Þá þarf Ísland að horfast í augu við stóra uppsafnaða vandann, sem eru framvirku skammtímasamningarnir vegna krónubréfa og annarra vaxtasamninga, stöðugt framlengdir en ekki lengur ef markaðurinn telur áhættuna of mikla. 700 milljarðar er engin smá- upphæð.

Krónan brestur að lokum

Þrátt fyrir allt ofansagt, þá hefur aðlögunarhæfni og útsjónarsemi íslensks bankafólks tryggt að "útrásin" haldi áfram, krónan er seld framvirkt og vaxtamyllan malar og fyllir stórar hlöður. Langflestir telja að krónan haldi velli, þrátt fyrir hrikalega skuldastöðu íslenska hagkerfisins. En ballið er búið, bráðum verða ljósin kveikt, þannig að best er að koma sér út sem fyrst.

 

Fyrri greinar af líkum meiði:

Stöðugt ástand?  http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/221080/

Vextir lækka ekki  http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/212149/

628 milljarðar. Bilun. http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/175941/

Enn of örlátt, segja Bretar http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/173588/

Augljóst hvert Moodys stefnir http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/165985/

Fall Íslands http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/139240/


mbl.is Kaupþing gefur út skuldabréf í jenum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalkjöts- sushi er best

Japanskir kokkar geta látið túnfisk og dádýr í friði, því að langbesta hráefnið er auðfengið, hvalkjöt af háum bragðgæðum og Omega3 að auki. Það hefur verið vinsælt sem sashimi á veitingastöðum hér í áratugi. Það slær þrífrosnum reyktum túnfiski auðveldlega við, en hvalina má víst ekki veiða af því að þeir eru svo greind spendýr og verða að fá að fjölga sér til þess að éta okkur örugglega út á gaddinn.

Annars fundum við sem stóðum að sushi verksmiðjunni á Ísafirði upp alls kyns sushi fyrir þýska og breska markaði, m.a. reykta ýsu- sushi (reykt á Hnífsdal) sem kom mjög vel út á þýska markaðnum (yfir 2000 súpermarkaðir), einnig hráa ofurferska ýsan, sem kom á óvart vegna sætleika. Það undarlegasta var að majones í rúllunum varð vinsælt!


mbl.is Japanskir kokkar fara á taugum vegna túnfisks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænland er of heitt!

Það er kostulegt að sjá hvert þessi furðulegi málatilbúningur um koltvísýringslosun og hitnandi jörð leiðir fólk, sem annars ætti að teljast bráðgreint. Nú vill Evrópusambandið kæla niður Grænland og færa allt í það horf sem það var. Jafnvel sérvöldu grænu vísindamennirnir í IPCC segja okkur ekki geta byrjað að kæla jörðina fyrr en eftir 100 ár af hörðum aðgerðum. Það dettur nákvæmlega engum í hug að mannskepnan geti breytt veðurfarinu á jörðinni á einhverjum áratugum með reiknikúnstum og hvað þá reiknað út hvernig lífríki eða aðstæður verða eftir þann tíma. Hvílík tíma- og peningasóun. Farið að vinna! (og ég líka!).
mbl.is Barroso hvetur til harðari aðgerða gegn hlýnun andrúmsloftsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valtað yfir Pólland hjá ESB?

Hvers á Pólland að gjalda?  Evrópskir valdamenn hafa keppst við að stjórna og skipta landinu upp í gegn um tíðina, fyrstu skiptingar árið 1772, síðan 1793, 1795, 1815, 1832, loks 1939 og nú eru Evrópusambandsherrarnir að draga úr völdum hinnar pólsku þjóðar.PolandSkiptingar Það er aðallega á beinan hátt í stjórnarsáttmála ESB með samningi í morgun, en líka í síðustu viku með því að lækka umbeðinn koltvísýringslosunarkvóta Póllands um 26,7% og snarminnka þar með tækifærin til vaxtar næstu 5-10 ár.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fékk Jaroslav Kaczynski, forsætisráðherra Póllands, til þess að samþykkja stjórnarsáttmála ESB í morgun með aðstoð Sarkosy hins franska, en Kaczynski hafði áður sagst ætla að verja "kvaðratrótar"-reglu Póllands til dauðans, þar sem atkvæðisréttur í ESB átti að fylgja kvaðratrót mannfjölda ríkjanna.  Síðastliðinn þriðjudag lýsti Kaczynski Þýskaland ábyrgt fyrir minni íbúafjölda Póllands, þar sem Þýskaland hóf Seinni heimsstyrjöldina. En nú þarf Pólland að sætta sig við minni völd og hugsanlega minni vöxt en áður, þar sem ráðandi öfl í Evrópu valta yfir "litla" Pólland, aðeins 38,5 milljónir manna, þótt þetta sé látið líta öðruvísi út í nafni samheldninnar. Hvernig skyldi okkur ganga í ESB?


mbl.is Pólverjar lýsa ánægju með samkomulag um nýjan ESB-sáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

CO2 kvótamarkaður er martröð í mótun

Nú er sönn ásjóna koltvísýringslosunar- áróðursmaskínunnar loks að koma í ljós, þar sem óendanlega ósanngjarn kvótamarkaður hefur myndast um fyrirbærið. Þar með er orðið ljóst hvað sundra mun að lokum samheldni Evrópu, tvístra Sameinuðu þjóðunum eða í minnsta lagi valda verulegri spennu á milli flestra þjóða í náinni framtíð. Skila ber inn næstu fimm ára áætlun þjóða fyrir 30. júní 2007 og er verulega áhugavert hvað íslensk stjórnvöld hafa ákveðið fyrir hvaða fyrirtæki. Vonandi krefjumst við almennilegs heildarkvóta fyrir Ísland, en hættum þessu ella.

AllarRollurSammalaESB takmarkar losunarkvóta þjóða mismikið 

ESB hefur farið yfir 19 af 22 áætlunum þjóða og komið með niðurstöðu í þremur þeirra (grein hér). Tékkland var lækkað um 14,8% frá áætlun sinni, Pólland um 26,7% en Frakkland er á bið. Búið er að lækka 17 ESB þjóðir nú þegar. Hver Íslendingur sem les "Spurningar og svör um verslun  koltvísýringlosunar og útdeilingu árin 2008 til 2012" (hér) hlýtur að sannfærast um það að aðild að ESB er óhugsandi, þar sem kverkatak skrifinnanna á vöxt okkar næstu áratugina myndi miðast við þá takmörkuðu losun sem átti sér stað á Íslandi árið 1990. Ákvarðanir ESB virðast endanlegar, amk. hljóta líkurnar á breyttri niðurstöðu að teljast litlar fyrir okkur.

Nýi kvótinn: væntanlega stærstu viðskipti veraldar 

Á meðan helstu fjármálaráðgjafar heims telja þessi viðskipti fljótlega verða að stærsta viðskiptageira veraldar, þá snarhækkar raforkuverð til neytenda í Evrópusambandslöndum. Síðastliðið ár voru þessi viðskipti upp á aðeins 30 milljarða bandaríkjadollara, en helstu bankar og kauphallir heims hugsa sér gott til glóðarinnar, þar sem augljóst er að þessi kvótaverslun á eftir að blómstra, sbr. Bloomberg vefinn (hér). Bankarnir telja þetta vænlegt til hagnaðar.

GoldBarCO2CO2 kvóti er gulls ígildi 

Kvótinn er þegar orðinn að beinhörðum peningum. Þau sem dældu mest út árið 1990, ss. Bandaríkin, fá því langmestan kvóta. Þetta er meginástæða þess að Bush samþykkti núna á lykilstundu G8 þjóðanna að vera með í næsta samningi. Hagvexti hratt vaxandi þjóða er þá haldið niðri, á meðan Bandaríkin treysta á það að ný tækni finnist á næstu áratugum (fyrir árið 2050) og hafa nóg að kvóta til þess að versla með um heiminn, sem tryggir völd USA, sérstaklega yfir þróunarlöndum.

Óréttlátur kvóti fyrir Íslendinga 

Ef einhverjum fannst eitthvað athugavert við það hvernig kvótakerfið á fiskveiði Íslendinga varð til og þróaðist, kíkið þá á þessa martröð í mótun. Heildarkvóti þjóða miðast við árið 1990, sama hve umhverfisvænar eða skammt á veg komnar í losuninni þjóðirnar voru á þeim tíma. Íslendingum er því refsað fyrir það að nota vatnshitaveitu og vatnsaflsrafmagn að stórum hluta þá þegar. Óvissa Mannfjöldi  GNP  CO2 losunNú eru 99,9% raforkuframleiðslu okkar úr endurnýjanlegum orkugjöfum og heildarorkunotkunin 72% úr slíku, á meðan ESB rembist við 10-20% fyrir árið 2010. Við sem ættum að njóta vistvænnar stöðu okkar með ríflegan kvóta til útleigu verðum hugsanlega í basli með þennan píring sem við fáum, allt eftir því hvaða úthlutunarreglur verða ofan á sbr. úttekt World Bank hugsanlegum á úthlutunarmátum (hér Meginþema þess er að sú mikla óvissa sem er í öllum módelunum og síðan í hugsanlegri útfærslu reglna, sem gera öll svör mjög loðin.

Haftagleði á vafasömum forsendum 

Haftaglatt hugsjónafólk sem markaðssetur sig sem umhverfissinna og hefur tekist vel upp með það, vildi eflaust vel þegar það fór að telja að það gæti breytt loftslagi eða veðurfari jarðar að sínu höfði á einhverjum áratugum með því að takmarka vöxt þjóða heimsins miðað við útblástur þeirra fyrir 17 árum. En naðran sem það ól við brjóst sér stækkar svo ört, að Miðgarðsormi líkist. Hann er svokallað heimsskrímsli, sem lykur um alla jörðina og vekur ótta meðal ábúenda. Fæstir þeirra fylgjast með þeim ógnarhraða sem hugsjónir umbreytast í dollara í kauphöllum heimsins,  eða valda jafnmikilli pólítískri spillingu og vopn og olía gera til samans í veröldinni.

Næsta lota farsans mikla í desember 2007 

Deilur á milli þjóða hefjast fyrir alvöru í desember, þegar útdeiling leyfa til vaxtar (CO2 kvóti) á að hefjast og talað verður í tölum en ekki í fögrum orðum. Da Silva, forseti Brasilíu, minnti á þá staðreynd á G8 fundinum að iðnríkin uxu og losuðu, miða síðan allt við hámark losun sinnar árið 1990 en ætlast svo til þess að ný vaxtarríki, ss. Brasilía, Kína og Indland, takmarki losun sína vegna þess ástands sem núverandi iðnríki eiga að hafa valdið. Höldum okkur sem fjærst þeim samningaborðum og hættum að eyða tíma, peningum og orku í þennan yfirmáta óþarfa. En ef við neyðumst til þess að halda upp á Kyoto kvölina til þess að halda andlitinu, þá eigum við að krefjast dúndurkvóta fyrir alla endurnýjanlegu orkuna okkar núna fyrir júnílok, svo að íslenska þjóðin geti verið kvótakóngur um fyrirsjánlega framtíð og getur notið þess um ómunatíð.

http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=newsarchive&sid=anvmWsZrP.2g

 http://ec.europa.eu/environment/climat/pdf/m06_452_en.pdf 

 http://www.energy-business-review.com/article_news.asp?guid=CF65C154-CEFE-47FD-88B3-AB168F222A18&z=

 http://www.iddri.org/Activites/Ateliers/crassous.pdf


Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband