Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Áhættan jókst fjórfalt

Skuldatryggingarálag (CDS) Kaupþings banka á markaði hækkaði um 30% við fréttirnar um kaup þeirra á NIBC Holding NV bankanum. Markaðurinn telur því hættuna á greiðslufalli Kaupþings hafa aukist sem því nemur, en hafa ber í huga að verðlagning áhættu á markaði hefur líka hækkað verulega. Kaupþing hefur því farið úr um 27bp í lok maí sl. í 108bp núna, 400% hækkun álagsins á þremur mánuðum. Bankinn sem keyptur er, NIBC, hafði farið flatt á falli bandaríska húsnæðislánamarkaðarins, en þeir þættir voru undanskildir við söluna. NIBC merki

Markaðurinn ræður, ekki matsfyrirtækin

Bankar sem eru mjög skuldugir fá á sig hátt álag í þessum flöktandi markaði, þar sem verðmæti ýmissa skuldabréfaafleiða er dregið í efa. Mat Moody's og S&P hefur æ minna að segja, t.d. vegna þess að bréf sem fengu AAA flokkun (sama og bréf bandaríska ríkisins) eru nú seld á 70% virði á markaði. Það er nú allt öryggið! Hver nýr dagur á markaði undanfarið sýnir betur hvernig raunveruleg áhætta var falin á bak við flókna bréfabunka og mat fyrirtækja, sem eiga tilveru sína undir starfseminni og stimpla allt fram og til baka. Nú þurfa bankar að sanna fyrir fjárfestum að athafnir þeirra séu tryggar. Samkvæmt ofangreindu er það ærið verkefni fyrir Kaupþing.


mbl.is Kaupþing kaupir hollenskan banka á tæpa 270 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um 10% gengisfall veldur verðbólgu

Umrót markaðanna felldi íslensku krónuna um tæp 10% sl. 16 daga. Þetta gengisfall er ekki komið út í verðlagið. Allt tal um það sem var, eins og 12 mán. verðbólga er eins og að aka horfandi stöðugt í bakspegilinn. Ræðum almennt um það sem framundan er.

Heimurinn snýst 

Seðlabankar dældu andvirði tæpra 9.000 milljarða króna inn í hagkerfin síðustu tvo daga til varnar lausafjárstöðu illra staddra banka. Sú aðgerð er verulega umdeild, bæði vegna þess hve fljótt er komið til bjargar, einmitt þegar eðlileg grisjun er að hefjast, en helst vegna þess hvort seðlabankarnir ættu að dæla svona inn yfirleitt, nema þá sem loka- lánsaðili (e."lender of last resort") til þeirra sem höfðu jafnan haldið áhættu sinni í lágmarki. Ef einhverjir eiga að þjást, hví ekki þeir sem tóku fólskulega áhættu? Af hverju á almenningur að koma þeim til bjargar vegna villu þeirra sem sölumenn verðlítilla bréfa, einmitt þegar ógnar-hagnaðurinn snarminnkar? Skilaboðin til markaðarins verða annars þessi: "það borgar sig að taka villta áhættu og æða áfram til andskotans, því að ríkið reddar þessu strax".

Krónan er áhættusöm 

Réttast er að láta þeim svíða sem undir míga. Vandamálin eru líklega mun dýpri fen en t.d. íslenskt bankakerfi fæst enn til þess að viðurkenna. Vandræðin í Bandaríkjunum eru mest hjá vogunarsjóðunum, en hér og í restinni af  Evrópu eru þau hjá bönkunum, sem hafa hampað þessum bréfabréfum í bókum sínum eins og um alvöru eign sé að ræða. Um leið og Moody's endurskoðar mat sitt hraðfalla bréfin, mun meira en þessi tæpu 10% sem krónan féll um. En vegna krónunnar, þá hlýtur einhver hluti af þeim 800 milljörðum sem eru líkast til útistandandi í vaxtamunarviðskiptum núna að verða snúið við í þessu ástandi. Áhættusömustu fjárfestingarnar eru á hraðri útleið, en þar geta talist vaxtamunaviðskipti með lítinn gjaldmiðil á háum vöxtum í jaðrinum. Glitnir segir í fréttum í dag:  "... því lengur sem órói á alþjóðamörkuðum varir, þeim mun lengur mun það að líkindum taka fyrir fjárfesta að ná aftur fyrri kjarki til áhættusamra viðskipta á borð við stöðutöku í krónunni. (JBB)".

Semjum í Evrum

Hvað með Ísland? Krónan féll um rúm 10% (eins og þörf var á) og fer sú hækkun gjaldeyris að öllum líkindum beint út í verðlagið í haust. Vaxtakostnaður banka hækkar. Líkur á aukinni verðbólgu eru verulegar. Kjarasamningar stéttarfélaga um 100.000 Íslendinga renna út um áramótin. Húsnæðisbólan hlýtur að springa fljótlega, m.a. af því að of hátt hlutfall margra eigna var lánað til of langs tíma, sem verður of erfitt ef t.d. afborgunin tvöfaldast. Min ráð eru enn: semjið í Evrum (eða tengt gengi Evru) við vinnuveitendur, herðið sultarólina, borgið skuldir, kaupið síðan gjaldeyri ef hægt er, en sættið ykkur við það að partíið er búið.


mbl.is Útlit fyrir að enn dragi úr verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

6% fall krónu er góð byrjun

Fall hlutabréfa og krónu er í samræmi við það sem búist var við (t.d. sbr. fyrri greinar mínar). Ekki er að búast við öðru en að þetta haldi áfram, þar sem leiðréttingar upp á mörg hundruð milljarða er þörf. Aukinn lánakostnaður og varfærni lánsfjármarkaðar á heimsvísu veldur því að nær sjálfvirk endurnýjun krónubréfa er líkast til útilokuð. Allir endursemja núna með gerólíkum og harðari skilmálum en áður, þegar peningar voru á útsölu, veðþörf var í sögulegu lágmarki og skuldatryggingar fengust fyrir slikk. Að auki hafa íslensku bankarnir verið framarlega í skuldsettum yfirtökum fyrir skjólstæðinga sína, en slík viðskipti verða ekki svipur hjá sjón næstu mánuði.

Innistæða fyrir 800 milljörðum?

Fyrirsögn bloggsins stingur kannski í augun, en fyrri styrking krónu var banastunga fyrir margan útflutninginn og átti ekki rétt á sér, enda fölsuð með 800 milljarða gúmmítékka á móti sér. Gömlu jálkarnir í Sviss hafa rétt fyrir sér: það verður að vera raunverulegt andvirði á bak við allar lántökurnar. Nú er innri endurskoðun hagkerfisins hafin, sem mun sýna að innihaldslýsingin á  umbúðunum var röng.  Einhverjir íslensku bankanna munu tæpast standast skoðun í kjölfarið.

Vaxtahækkun banka. En Seðlabankans?

Margítrekuð keðjuáhrif áhættuflótta fjárfesta eru hratt gengisssig, uppgreiðsla krónubréfa og vaxtamunarsamninga, ásamt auknum lánakostnaði banka og verðbólgu. Slíkt ætti að leiða til stýrivaxtahækkunar Seðlabanka, en nú er það ekki hægt, þar sem það hefur enga virkni, eða jafnvel gagnstæða virkni. Ef Davíð lækkar stýrivexti, sem hann á að gera, þá hraðast hrunadansinn, en illu er best aflokið. En munum það, að þótt þetta leiði til upptöku Evru, þá þurfum við ekki að fara inn í ESB batteríið.

Fyrri blogg fylgja hér. Langlokan "Fall Íslands" lýsir bakgrunni ástandsins (en þar fríaði ég að vísu Seðlabankann ábyrgð, sem var rangt).

Áhættuflótti heimsmarkaðar hefst fyrir alvöru

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/271726/

Bankadómínókubbar

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/266832/

Allir bankar ánægðir

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/255606/

Nóg komið af jenum?

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/249630/

Stöðugt ástand? 

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/221080/

Vextir lækka ekki

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/212149/

628 milljarðar. Bilun.

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/175941/

Enn of örlátt, segja Bretar

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/173588/

Augljóst hvert Moodys stefnir

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/165985/

Fall Íslands

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/139240/

Nýlegir tenglar um heimsmarkaðinn:

Treasuries Post Best Returns Since 2002 as Investors Shun Risk

http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=20601087&sid=ajUW65UGB1PQ&refer=home

Treasuries Rise on Flight From Risk Before Fed Meeting on Rates

http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=20601087&sid=axJc0CxhxciI&refer=home

U.S. Stocks Tumble a Third Week on Lending Crisis; Bear Falls

http://bloomberg.com/apps/news?pid=20601087&sid=asTKv.qncrXc&refer=home

U.S. Stocks Drop on Credit Woes; Bear Stearns Leads Banks Lower

http://bloomberg.com/apps/news?pid=20601010&sid=a7edDJlKEn8k&refer=news

Bear, Lehman, Merrill Trade as Junk, Derivatives Show (Update1)

http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=newsarchive&sid=aKsqEJVi3TZc

U.S. Housing Is Among `Biggest Bubbles,' Rogers Says (Update3)

http://bloomberg.com/apps/news?pid=20601109&sid=a2Rnaf9tZJbA&refer=home


mbl.is Allir markaðir lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband