Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

PÍG eru fallin

ESB fæst ekki til þess að viðurkenna hið augljósa, að Portúgal, Írland og Grikkland séu fallin og að ESB- sjóðurinn ráði ekki við það. Nú ber að verja Spán falli. Nánari grein er hér, „Fall Evrópu“:

 http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/1154686/


mbl.is Heildsöluinnlán forgangskröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fall Evrópu

Eurozone mapNú féllu jaðarlönd Evrópu, Grikkland, Portúgal og Írland. Þeim verður ekki bjargað án skuldaafskrifta, sem þýðir það að bankarnir falla í verði, sem þýðir aftur að eignastaða landanna versnar.  En bankar annarra landa falla líka, enda lánuðu þeir til ríkjanna og þegna þeirra. ESB reyndi að halda þessu falli innan ríkjanna þriggja með björgunarsjóði sínum, nú síðast fyrir helgina, en það tókst ekki. Vaxtakostnaður og ávöxtunarkrafa skuldabréfa er komin langt út úr korti, þar sem hverfandi líkur eru á því að þjóðirnar nái að vaxa svo hraustlega að þær nái að greiða vextina til frambúðar, hvað þá höfuðstól skuldanna.

Allt veltur næst á Spáni

Markaðirnir mæna núna á Spán: Tekst þessu skulduga ríki, með allt sitt atvinnuleysi og sprungna fasteignabólu að komast hjá því að fá aðstoð björgunarsjóðs ESB? Ekki bætir úr skák að spænskir bankar féllu við fall Portúgals, enda stórir lánadrottnar þess.  Um þrjátíu spænskir bankar voru lækkaðir í mati. ESB leggur ofuráherslu á það að Spánn þurfi ekki að leita alfarið á náðir sjóðs þess, þar sem kerfið riðar ella til falls. Franskir bankar, sem standa sterkir enn, höfðu lánað mikið til Spánar og lenda í vandræðum ef Spánn sækir mikið í sjóðinn.

Þjóðin gegn bönkum og stjórnmálamönnum þeirra

Hver Evrópuþjóðin af annarri fellir nú ríkisstjórn sína fyrir það að hjálpa bönkum að færa skuldir þeirra yfir á þegna landanna. Þýska ríkisstjórn Angelu Merkel, herraþjóðar Evrópusambandsins, veiktist m.a.s. enn frekar núna, þegar æ fleiri Þjóðverjar neita að fórna ævisparnaði sínum í að bjarga illa stöddum jaðarþjóðum Evrunnar. Þýskir þegnar sjá loksins núna að til stendur að þeir greiði drýgstan hluta fallsins. Þess vegna sigldi sjóðurinn mikli í strand og hefur ekki einu sinni fjármögnun eftir tvö ár, hvað þá ef ofangreind PIG- ríki fá meira til sín og Spánn fær hlutalán frá ESB- sjóðnum.

EurozonemapPinnaRíkisstjórnir falla

Þegnar Írlands og Portúgal risu nú upp og felldu stjórnir sínar, sem samið höfðu við ESB um ógnarlán á háum vöxtum til „bjargar“ þjóðinni. Írar krefjast sanngjarnari lánasamninga með nýrri ríkisstjórn og Portúgal er í lás, stjórnarkreppu og greiðslukreppu. Rimman á milli þjóðarinnar annars vegar og banka og stjórnmálamanna hinsvegar verður æ harðari. Því miður fyrir þessar Evruþjóðir þá var íslenska leiðin ekki farin, að láta skuldareigandi bankana taka langstærsta skellinn, heldur var skuldin færð á ríkin að langmestu leyti. Það reiknisdæmi gengur ekki upp: vaxtakostnaður er langt yfir hagvexti í meðalári þannig að þjóðin gæti aldrei þrælað fyrir vöxtum af lánunum og síst af höfuðstóli.  

Þjóðverjar borgi brúsann?

Þýskaland er stærsti greiðandi í björgunarsjóð ESB vegna bankahrunsins. ESB mistókst um sl. helgi að ná samkomulagi um fjármögnun sjóðsins, sem sér fram á sjóðþurrð eftir tvö ár.  Komið er að þeim punkti í Evrópusósíalnum að hver og einn þegn hvers ríkis fer að spyrja sig: „Hver greiðir þessar skuldir að lokum?“ Þjóðverjar gegna hér lykilhlutverki eins og í hruninu sjálfu. Þeir hafa haldið Evrunni saman, en Merkel veitist erfitt að láta almenning draga Suður- Evrópuvagninn.  Græningjum, sem vex ásmegin í Þýskalandi (vegna andstöðu við kjarnorku) mun örugglega ekki takast að halda Evrunni betur saman þótt þeir vildu.

Öryggið ekki fyrir hendi

Markaðurinn hefur fellt PIG- löndin og síðast fréttist að Írar þurfi að þjóðnýta banka sína og hugsanlega stærsta lífeyrissjóðinn, Irish Life, sem hefur nú fallið um helming í verði. Öryggið sem fólk taldi felast í ríkisábyrgð er ekki fyrir hendi. Ólga hverrar þjóðar eykst eftir því sem fólkið gerir sér betur grein fyrir raunverulega bágri  stöðu þjóðarbúsins.

JabbaLeiaBlekkingar á Íslandi

En hér á Íslandi er aftur allt eins og fyrir hrun að þessu leyti: Fólki er talið trú um að ríkið geti enn ábyrgst hitt og þetta, allar inneignir í bönkum og borgað hundruð milljarða króna í vafasamar erlendar kröfur. Því er sagt að því sé best borgið innan Evrópusambandsins, sem sé svo traust og að við getum jafnvel fengið gjaldmiðil þess, Evruna, sem komi á stöðugleika!

Höfum þetta stutt: Við kaupum enga góðvild með því að borga Icesave og aðildarumsóknin að ESB er út í hött við þessar hrunaðstæður í því ríkjasambandi.


Nei, en ekki „kannski, ætli það ekki?“

Þýskum bönkum, ásamt fleirum, tókst með hjálp ESB og AGS að koma skuld einkageirans á Grikklandi, Írlandi og líklega Portúgal yfir á almenning í þessum löndum með háum vöxtum án teljandi afskrifta. Þeim mistókst þetta á Íslandi þar sem afskrifaðar voru þúsundir milljarða króna í niðurskurði skulda upp á tugi prósenta af heild þeirra. Við eigum því eðlilega enga greiða þar inni, en það er betra heldur en að skulda þeim ógnarupphæðir.  Helstu bankar Evrópu og BNA halda áfram þessari vegferð sinni til þess að múlbinda almenning í hverju ríki með hjálp stjórnmálamanna í stað þess að horfast í augu við gjaldþrot sitt sem átti sér í raun stað fyrir rúmum tveimur árum. Þegnar landanna eru rétt farnir að gera sér almennileg grein fyrir þessu núna, sbr. á Írlandi þar sem ný stjórn reynir að fá askriftir skulda og lækkun vaxta, þar sem enginn tilgangur er í því fyrir fólkið að þræla einungis fyrir vöxtum bankanna og Evrópusambandsins. En þegar múllinn er kominn upp á hausinn eins og á Írlandi, þá er erfitt að taka hann af dýrinu.

VidskiptabladidMMRIcesaveESB

 

Fallnir bankar valda sköttum

Vestrænir bankar eru fjölmargir komnir að fótum fram og vita af næsta „Lehman Brothers- falli“ handan hornsins. Búið er að breyta skuldum þeirra í ríkisskuldir ýmissa ríkja Evrópu, en skuldsetningin ber aldurhnigið miðstéttarvinnuaflið ofurliði, sérstaklega fyrst ríkin hlaða skattbyrði á þegnana í sósíal-demókratískri réttlætingu sinni.

 

Ein röksemd eftir

Nú þegar þessi bardagi almennings við banka og stjórnmálamenn þeirra um alla Evrópu harðnar, þá er enn mikilvægara að standa í lappirnar hér heima á bráðnandi klakanum. Á Íslandi eigum við amk. einn stóran skammt af hrunpakkanum eftir, en það er Icesave. Hann er grein af sama meiði. Bretar og Hollendingar eru ákveðnir í því að koma þessum 1-2 milljónum á mann á Íslendinga, í stað 1-2 Evrum á mann hjá sér. Tilvitanir í siðfræðilega skyldu okkar ber að skoða í ljósi þeirra hlutfalla. Flest rök með Icesave- höftunum hafa verið hrakin, en helst hangir fólk enn á mismunun, þ.e. hvort við greiðum Bretum og Hollendingum þá lágmarkstryggingu sem þeir lögðu fram til reikningseigenda í löndum þeirra. Íslenskir dómstólar myndu líkast til dæma í slíku í íslenskum krónum. Ef dómur gengi gegn íslenska ríkinu (10% líkur?),  þá yrði okkur dæmt að greiða lágmarkstrygginguna í íslenskum krónum með vöxtum frá dómsuppkvaðningu, ekki í gjaldeyri með vöxtum frá því fyrir löngu. Samvæmt slíkum dómi ættum við því varla að greiða þá 26 milljarða króna  sem eru núna gjaldfallnir af vöxtum skv. Icecave III.

VB MMR ESB afstada

 

Andstaða við ESB- aðild

Eitt helsta vandamálið varðandi Icesave er það hve beintengdur stuðningurinn er við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Skoðanakönnun MMR fyrir Viðskiptablaðið nýlega sýnir þessi afgerandi tengsl vel. Enda staðfesti Jóhanna Sig. forsætisráðherra stefnu Samfylkingar og stjórnarinnar, þar sem hún sagði stjórnina stefna ákveðið að aðild að ESB og staðfestingu Icesave.  En fylgi Samfylkingar og stjórnarinnar er lítið, af auðskiljanlegum ástæðum. Fylgi Sjálfstæðisflokksins, stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi er aftur á móti vel stöðugt (um 35-36%). Tæpir tveir andstæðingar eru almennt gegn hverjum einum fylgjanda ESB- aðildar. Flestir andstæðingar ESB- aðildar á Íslandi eru Sjálfstæðismanneskjur.

 

Bjarna(r)- greiðinn mikli

Um 70% Sjálfstæðisfólks stóðu gegn Icesave- samningum í lok síðasta árs, en þá kom Bjarna(r)- greiðinn mikli: Formaður Sjálfstæðisflokksins og hluti þingflokksins lagðist á sveif með ríkisstjórninni og staðfesti Icesave III- gjörðina, þrátt fyrir afgerandi andstöðu flokksmanna og samþykktir sérstaks landsfundar gegn slíku. Þetta setur stöðugan Sjálfstæðismanninn í klemmu: á hann að fylgja sannfæringu sinni gegn ESB- aðild og óþarfa- sjálfskipaðri Icesave- skuldaánauð til velþóknunar ESB/AGS/bankasamsteypum, eða á hann að fylgja ísköldu mati formannsins, sem byggir á skoðun hans á hagsmunum og áhættuþáttum, nær óháð vilja langflestra kjósenda Sjálfstæðisflokksins?

 

Hvað skal gera?

 

 

Svarið hlýtur að vera skýrt: Kjóstu með sannfæringu þinni. Farðu með ríkisfé sem væri það þitt eigið (sem það er). Skrifaðu ekki upp á opna víxla með óvissri upphæð, langt fram í tímann. Varkára leiðin skilar sér best þegar haukar Evrópu sveima um akurinn og íslenska músin leitar skjóls. Berum gæfu til þess að hafna Icesave III eins og öllum slíkum höftum á athafnafrelsi fólks. Eða ætlarðu að fá Svavars- eða Jóns Gnarrs- leið á þessu og kjósa Icesave í burtu með því að greiða það?

 

Auk þess legg ég til að ESB- aðildarumsóknin verði nú þegar dregin til baka.


mbl.is Fulltrúar já og nei kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnám hafta: ekki með staðfestingu Icesave III

Seðlabankastjóri lætur eins og Icesave III-staðfesting muni stuðla að afnámi gjaldeyrishafta. Hvert mannsbarn með vasatölvu sér að því er þveröfugt farið: Icesave læsir höftin inni til framtíðar, því að hvert smá- fall gengisins snarhækkar greiðslurnar til drottnaranna.

Nú rænir ríkið meir að segja gjaldeyri af Íslendingum sem halda til útlanda ef þau hafa meir en 350.000 kr. meðferðis í erlendum gjaldeyri. Þess háttar Sovét- höft halda mun frekar áfram ef þjóðin hópast til þess að gefast upp eins og Jón Gnarr, fá „Svavars- leið“ á þessu og kjósa á sig höftin, hlekkjaðir við vegg vitleysunnar.


mbl.is Áætlun um afnám hafta mun róa markaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttur til afsals

red_eu.pngGrein í MBL 2/3/2011: Nær 56% þeirra Íslendinga sem afstöðu tóku í Eurobarometer- könnun ESB telja að ESB- aðild yrði Íslandi ekki til hagsbóta. Könnunin var gerð í nóvember árið 2010. Síðan þá hefur skuldakrísa jaðarlanda Evrópu hlaðið verulega upp á sig, þar sem munurinn á herraþjóðunum og restinni eykst stöðugt. En fjórir milljarðar króna sem byrjað er að sóa í „kynningarherferð“ ESB á Íslandi hljóta að skila sér í aukinni fylgd Íslendinga við fallandi ESB-batteríið í trássi við raunveruleikann.

Þekking tölvuþjóðarinnar

Svo virðist sem ekki sé kveikt á öllum þessum tölvum okkar til þess að skoða viðskipta- eða fréttarásir Evrópu eða Bandaríkjanna, heldur aðallega Facebook-umtal um náungann eða Youtube-kvikmyndaklippur með köttum í kollhnís. Viðskiptarásirnar t.d. Bloomberg og Wall Street Journal hafa sýna glöggt í hvaða klemmu Evrópusambandið er: Helst Þýskalandi er ætlað að draga gríðar-vagn jaðarlandanna með sín ósjálfbæru hagkerfi og yfir 20% atvinnuleysi ungs fólks. Málefni Grikklands, Írlands, Portúgal og jafnvel Spánar er slíkt vandamál að furðu vekur að ESB haldi áfram útvíkkun við þessar aðstæður. Ég segi eins og Jóhanna Sig. (eða Fall), „Ég furða mig á þessu, ég er undrandi!“

Herraþjóðir og restin

Talandi í Icesave-dómsdagsstíl Jóhönnu og Steingríms J. þá eru hin ýmsu lönd Evrópu hvert í sinni stór- krísu sem láta vandræði Íslands til lengdar líta hjákátlega út, þar sem við höfum flest það sem hinar þjóðirnar nefna til úrlausnar vandans, t.d. menntunarstig, orku og nær fullbyggt stoðkerfi. Eitt helsta vandamál okkar núna er landlægur vingulsháttur og minnimáttarkennd ráðamanna sem virðast virkilega halda að Íslendingar séu ófærir um að ráða sínum málum sjálfir og beri því að afsala sjálfstæðum tilveru- og úrlausnarrétti í sínum málum til Belgíu, þar sem sundurlaus ríkjahópur kemur saman í stjórnlausu og sundruðu landi og velur sér ráð hundraða sósíaldemókrata til þess að ráðskast með hag hálfs milljarðs manna.

Þannig fer rétturinn

Kuldahrollur fór um mig eftir stórgóðan fyrirlestur Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors í Háskóla Íslands í hádeginu þann 23. febrúar sl. um forgangsáhrif ESB-réttar og íslenska stjórnarskrá. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að eftir ESB-aðild Íslands hafi Evrópusambandsréttur oftast forgang. Í mínum huga þýðir það að hvar sem eitthvað gæti skipt okkur Íslendinga verulegu máli, eins og í dæmi Stefáns Más um kvótahopp Spánverja, þá vegur ESB-réttur hærra. Við þyrftum þá líklega að aðlagast ESB með því að kalla réttinn okkar „Næst-hæstiréttur Íslands“. Megi það aldrei verða.


Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband