Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Landsvirkjun framar þegnunum

Landsvirkjun agbjarn1

Samfélagsmarkmið Landsvirkjunar minnast ekki á að halda orkunni á Íslandi eða að Íslendingar njóti góðs af. Hún heldur áfram vegvillu sinni með tíma- og kostnaðarsamri rannsókn um að leiða rafmagnið burt frá Íslandi. Í Morgunblaðinu í dag heldur Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar því fram að öryggi okkar aukist með tilkomu sæstrengs, af því að við gætum keypt rafmagn frá Evrópu.

Sæstrengur gegn hagsmunum okkar 

Öðru nær: öryggi rafmagnsins hér minnkar nær örugglega með sæstreng. Dýrasti og lengsti sæstrengur rafmagns í heimi gerir kröfu um örugga orku út, ekki aðeins umframorku okkar.  Hann yrði aldrei settur niður ef hann lægi ónotaður um tíma, enginn fjárfestir fengist til þess. Hörður staðfesti að ekki standi til að ríkið eigi strenginn (og tapi þar með á honum) og því verður ekkert úr þessu nema að við tryggjum orku í hann, sem væri glapræði.

Orkukrísur á okkar kostnað 

Orkukrísur í Bretlandi eða í Evrópu valda óefað pólitískum þrýstingi á einhverjum tíma á það að við seljum þeim orku, sem þegar er búið að semja um til notkunar hérlendis. Þar með erum við þáttakendur í orkukrísum þeirra, í stað þess að njóta öruggu orkunnar í samkeppni við framleiðslu þeirra.

Vatnsorkan er með alöruggastri orku fyrir okkur, á meðan æ stærri hluti orkunets Evrópu treystir á misjafna vinda og kjarnorkuverum er lokað í Þýskalandi.

Leiðnitapið eitt verður líklega á við helming orkunotkunar íslenskra heimila. Við þyrftum að blæða all hressilega til þess að kaupa orku frá Evrópskum aðilum og ættum aldrei að þurfa þess.

Klára dæmið 

Mér er hulið af hverju Landsvirkjun heldur þessari þráhyggju um sæstreng áfram, því að ekki er það í þágu íslenskra neytenda eða iðnaðar. Þessi „hvað er í pakkanum“- stefna með sæstreng er rándýr hugsanavilla sem afvegaleiðir alvöru óskabarnið núorðið, Landsvirkjun. Nú er rétt að ljúka þessari athugun, hún er auðútreiknuð: alger della.


mbl.is Landsvirkjun birtir samfélagsmarkmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnvel BBC minnist á kælingu

Solin kolnar Forbes

Fokið er í flest skjól þegar jafnvel BBC- "Global-Warming" sjónvarpsstöðin birtir efasemdir um heimshitunina. Næst verður það RÚV! Nei förum ekki alveg yfir um! Sólin ræður lífinu á jörðinni og sveiflast til í sólgosum sínum, sem eru nú í lágmarki. Fimbulvetrar og kuldaskeið geta orsakast af því.  Ef allir Íslendingar fara á reiðhjól og leggja bílum sínum þá kólnar líka um 0,000000001°C í viðbót í heiminum og bætir í kuldann. Við gætum jafnvel þurft að vera þá á nagladekkjum, en fáum þá eðlilega ekki frítt í hjólastæðin. 

En ef Maunder-minimum sólgosalágmark er ekki varanlegt og hræðilega heimshitunin verður ofan á, þrátt fyrir kolefnislosunarskatta Íslendinga og gráðubrotið hér að ofan, þá verður skaplegt veðurfar áfram á Íslandi og nálgast kannski það sem var þegar landnámsmenn ákváðu að skella sér hingað í batnandi veðurfari forðum. 

MaunderMinimumSunspots

BBC gat þó ekki skilið umræðuna þannig eftir að Vermitrúarmenn yrðu villuráfandi. Þau gátu þess að kolefnislosun jarðarbúa myndi vega eitthvað á móti allri þessari kælingu.

Allir út í jeppana! 


mbl.is Kaldari veður og sjaldséð norðurljós?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metnaðarfull stefna gegn borgurunum

Reykjavik hverfi Wikipedia

Oft heyrist í fulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins að stefnan í ýmsum málum sé „metnaðarfull“. Nú kemur svo í ljós hvert sá metnaður stefnir; þjónustan er í lágmarki en ídealisminn er á fullu. Fækka bílum og bílastæðum, sleppa því að salta stíga og flestar götur, rukka og skattleggja að óþörfu. Metnaður þessarra kosnu fulltrúa endar því með að snúast gegn þeim meginþorra íbúanna sem vilja flæðandi samgöngur og að óþægindi eða hætta sé lágmörkuð.

Vinir mínir tala núna um að vonandi komi fram úthverfaframboð, sem einbeiti sér að þjónustu við alla Reykvíkinga, ekki bara hálf- skandinavísku kaffihúsafólki í miðbænum. Það yrði áhugavert, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.


mbl.is Reykjavíkurborg fær falleinkunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höldum GMT og sólskininu

Timabelti Evropa

Tímabeltið á Íslandi í núverandi stillingu (hádegi um 13:15) gerir lífið bærilegra fyrir Íslendinga. Frítími og fjölskyldu- tími fólks eftir vinnu er mikilvægari heldur en birtustigið þegar haldið er til vinnu á morgnana. Ef breytingarsinnar verða ofan á í þessu, þá lengist myrkvaði hluti vetrar um klukkutíma fyrir vinnandi fólk, þar sem það fer í vinnuna í myrkri og kemur heim í myrkri. Mun betra er núverandi kerfi sem hefur reynst vel, að njóta lífsins í sólskininu stærri hluta sólarhringsins allt árið um kring.

Skýrsluhöfundar gefa sér það að Íslendingar færu fyrr að sofa ef þeir vissu að birtan kæmi fyrr um morguninn. Öllu líklegra er að þeir fari að sofa sælli (eins og nú, einir hamingjusömustu í heimi) eftir að hafa verið einni stundu meira í birtunni. Vordagarnir eru sælli og haustin fallegri ef eftirmiðdagur og kvöld eru bjartari. Þeir þýskættuðu verksmiðjueigendur sem vilja færa birtuna fyrr inn á daginn geta bara fengið sér ennisljós þegar þeir hlaupa í vinnuna klukkan sex á morgnana.

Höldum klukkunni, flugvellinum, fullveldinu og öllum öðrum góðum kerfum sem virka. Ekki eilíft að rugga bátum sem sigla vel. 


mbl.is Íslendingar rangt stilltir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saltið sparað

Ice skilti

Stefna borgaryfirvalda er augljóslega sú að spara saltið og hlífa þar með ekki borgurunum. Mánaðargamlir klakabunkar liggja jafnan yfir heilu úthverfunum, stígum og gangstéttum, þar sem einungis strætóleiðir eru saltaðar. Brekkan í götunni heima hefur verið með fljúgandi klakahellu vikum saman og ófært er fyrir aldraða á svæðinu.

Umhverfisfanatík og popúlismi má ekki valda því að öryggi borgaranna sé skert. Tækifærin til þess að losna við klakann (sem átti aldrei að ná því að verða til, með almennilegum snjómokstri) eru ekki nýtt með saltburði þegar hitastigið er rétt til þess á köflum. Fyrir vikið lendir fólk í slysum og varanlegum krankleika.

Við þurfum að fá saltið aftur á göturnar og sérstaklega á stígana.


mbl.is Mikil ísing á götum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2014: ár tilflutninga í Evrópu?

Roma EU

Gleðilegt ár öllsömul. Nú opnar ESB faðminn alveg fyrir 27 milljón þegnum Rúmeníu og Búlgaríu, fátækustu ESB- löndunum. Unga fólkið á Spáni og Ítalíu með sitt 55% atvinnuleysi fagnar tæpast þessum auralitlu atvinnuleitendum. Eða Bretar, sem bjuggust við 15.000 slíkum frá Austur- Evrópu fyrir tíu árum, en 1,5 milljón manns mættu til þeirra, um 100- falt fleiri en búist var við. Augljóslega verður tilflutningur af þessari breytingu og þá helst til stöndugri ríkjanna, með sína atvinnu, félagslegu kerfi og heilbrigðisþjónustu. Jafn auðséð er viðspyrna íbúanna, sem hafa þurft að skera niður í ríkisþjónustu til verndar kerfinu.

Viðbúið er að næst muni Samfylkingin berjast fyrir réttindum þessarra ESB- þegna inn til Íslands, enda eiga innflytjendur þar hauk í horni, sem Samfylkingin er. Raunar á það yfirleitt um hvern þann sem girnist aðgang kerfanna, sem byggð hafa verið upp hér. Atvinna, raforka, heilbrigðisþjónusta, félagslegt kerfi og lífeyrissjóðir: aðgangur fyrir aðra utan Íslands fæst helst í gegn um Samfylkinguna. Eða kannski í gegn um um Bjarta framtíð 2014?


mbl.is Takmörkunum aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband