Ömurleg uppgjöf

Ég engdist undir málflutningi þingmanns flokks míns, Kristjáns Þórs Júlíussonar um Icesave- uppgjöfina beint frá Alþingi áðan. Nú leggja hinir mætustu menn niður vopnin, af því að verið gæti að við yrðum dæmd síðar til þess að greiða það sem þeir samþykkja fyrir okkar hönd (en án okkar samþykkis) að greiða strax.

Ljóst var skv. lögfræðiálitum að ef svo færi að við fengjum á okkur  Icesave- dóm, yrðum við tæpast dæmd til annars en að greiða lámarksupphæðina plús vexti. Við myndum hvort eð er aldrei geta greitt mörg hundruð milljarða króna.

Enn er það svo að Alþingismenn virðast ekki fylgjast með fréttum utan úr heimi. Stjórnmálamenn í Evrópu og Miðausturlöndum hafa hlaðið svo ánauð á þegna sína að í algert óefni er komið. Nú er almenningur að gera sér grein fyrir því að það sem hentar fulltrúum þeirra á þingi, er alls ekki endilega það sem er best fyrir almenning. Þegar völdin færðust frá bönkum og fjármálastofnunum yfir á stjórnmálafólkið, þá endaði það með skuldsetningu almennings, bókstaflega allsstaðar.

Alþingi vætti brók, en veik von er til þess að forsetinn standi sig enn. Þú og þínir geta gert slíkt líkegra með því að bætast á listann kjosum.is

Nú er kviknað á ljósum fólksins! Tölurnar á Kjosum.is rúlla up eins og á bensíndælu fyrir verkfall.


mbl.is Kosið verði um ríkisábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá SUS

Fínt framtak hjá unga fólkinu í Sjálfstæðisflokknum að standa að ítarlegri kynningu og umræðufundi  í Valhöll í gærkveldi. Þessi fundur hefði mátt vera fyrr, því að upplýsingar og umræður sem þarna komu fram hljóta að fá hverja íhugula manneskju til þess að endurskoða Icesave- afstöðu sína, hafi hún verið orðin jákvæð samningi af Icesave- ofþreytu eftir öll þessi ár.

Icesave og sjálfstæðið

Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd stóð sig hetjulega í réttlætingu ákvörðunar sinnar og forystunnar um að samþykkja Icesave III- gjörninginn. En vandamálið er hve ólýðræðislegi málstaðurinn var slæmur. Styrmir Gunnarsson hélt tvær kjarngóðar ræður sem fjölluðu um málið í víðara samhengi, m.a. þá áþján sem gömlu nýlenduveldin valda og það hvernig þeim tókst ætlunarverk sitt, að láta okkur karpa um smáatriði vaxtastigs osfrv. í stað þess að standa gegn grundvallar- kröfugerðinni öll sem eitt. Ég hvet fólk til að lesa skrif hans um málin.

Indefense, Gamma og áhættugreining

Talsmenn Indefense og ráðgjafinn Gísli Hauksson frá Gamma  reifuðu Icesave-málið vel. Áhættuþátturinn er sláandi og deginum ljósara að hann er nær allur á annan veginn, til hækkunar frá þessum 50 milljörðum sem gjarnan er rætt um varðandi Icesave mismuninn sem lendir á okkur þegnunum. Hann er auðveldlega 200-300 milljarðar króna, allt eftir sveiflu þeirra fjölda breyta sem áhrif hafa á heildarupphæðina, ss. gengi punds eða krónu sem nú er í höftum sem verður að halda áfram með eftir samþykki Icesave og vegna þess. Raunar er skuldbindingin öll vel rúmir 800 milljarðar króna, miðað við ákveðið gengi. Sá sem skrifar upp á ábyrgð verður að gera sér grein fyrir því hve há hún gæti orðið. Ríkisstjórnin fór þó aldrei beint í áhættugreiningu á valkostunum sjálfum. Hún er hætt að koma manni á óvart.

Hræðslan við dóm um mismunun

Einn aðalpunktur þeirra Sjálfstæðismanna sem samþykkja vilja Icesave III er mismununin eftir landssvæði sem dæmt yrði að íslenska ríkisstjórnin hefði sýnt með setningu neyðarlaga, þar sem Íslandi er hyglt. En fari svo að dæmt yrði í slíku máli (sem tæki ár og daga á þremur stigum), þá er áhættan helst sú að við yrðum dæmd til að greiða einmitt þá upphæð sem Icesave III vill að við greiðum, auk einhvers vaxtaauka. Fyrst upphæðin skv. samningnum  sveiflast hvort eð er hrikalega eftir t.d. gengi krónu, þá er áhættan af því að hafna samningnum öll á eina hlið: Eina öryggið er öryggi hárra greiðslna.

Sjálfstæðisfólk gegn straumi þjóðar og eigin flokks

Varla verður um það deilt að meirihluti þingflokks Sjálfstæðismanna hljóp á sig með því að samþykkja Icesave III þvert gegn vilja þorra þjóðarinnar, sérstaklega kjósenda sinna. Núna eftir fundinn hljóta Ásbjörn og Pétur Blöndal (sem var á fundinum) að gera þingflokknum grein fyrir því hve sterk andstaða er við Icesave, sérstaklega hjá ungu fólki í grasrót flokksins og þjóðarinnar.

Erfitt að vinda ofan af þessu

Það mun taka mikla baráttu við Hollendinga og Breta að vinda ofan af þessum Icesave- gjörningi um komandi ár. Fylgismenn hans tóku mikla pólitíska áhættu við það að samþykkja Icesave en hafa enn smá- tíma til þess að sjá að sér, eða nokkra klukkutíma. En Bjarna Benediktssyni & co er það mikil alvara að synda gegn straumi fólksins að þeim verður vart hnikað úr þessu. Það var synd, því að þau voru svo efnileg. Unga fólkið kemst þá fyrr að.

 

Skráið ykkur hjá kjosum.is núna til þess að forsetinn komi aftur til bjargar.

 


mbl.is Fundað um Icesave í Valhöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. febrúar 2011

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband