Gott hjá SUS

Fínt framtak hjá unga fólkinu í Sjálfstæðisflokknum að standa að ítarlegri kynningu og umræðufundi  í Valhöll í gærkveldi. Þessi fundur hefði mátt vera fyrr, því að upplýsingar og umræður sem þarna komu fram hljóta að fá hverja íhugula manneskju til þess að endurskoða Icesave- afstöðu sína, hafi hún verið orðin jákvæð samningi af Icesave- ofþreytu eftir öll þessi ár.

Icesave og sjálfstæðið

Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd stóð sig hetjulega í réttlætingu ákvörðunar sinnar og forystunnar um að samþykkja Icesave III- gjörninginn. En vandamálið er hve ólýðræðislegi málstaðurinn var slæmur. Styrmir Gunnarsson hélt tvær kjarngóðar ræður sem fjölluðu um málið í víðara samhengi, m.a. þá áþján sem gömlu nýlenduveldin valda og það hvernig þeim tókst ætlunarverk sitt, að láta okkur karpa um smáatriði vaxtastigs osfrv. í stað þess að standa gegn grundvallar- kröfugerðinni öll sem eitt. Ég hvet fólk til að lesa skrif hans um málin.

Indefense, Gamma og áhættugreining

Talsmenn Indefense og ráðgjafinn Gísli Hauksson frá Gamma  reifuðu Icesave-málið vel. Áhættuþátturinn er sláandi og deginum ljósara að hann er nær allur á annan veginn, til hækkunar frá þessum 50 milljörðum sem gjarnan er rætt um varðandi Icesave mismuninn sem lendir á okkur þegnunum. Hann er auðveldlega 200-300 milljarðar króna, allt eftir sveiflu þeirra fjölda breyta sem áhrif hafa á heildarupphæðina, ss. gengi punds eða krónu sem nú er í höftum sem verður að halda áfram með eftir samþykki Icesave og vegna þess. Raunar er skuldbindingin öll vel rúmir 800 milljarðar króna, miðað við ákveðið gengi. Sá sem skrifar upp á ábyrgð verður að gera sér grein fyrir því hve há hún gæti orðið. Ríkisstjórnin fór þó aldrei beint í áhættugreiningu á valkostunum sjálfum. Hún er hætt að koma manni á óvart.

Hræðslan við dóm um mismunun

Einn aðalpunktur þeirra Sjálfstæðismanna sem samþykkja vilja Icesave III er mismununin eftir landssvæði sem dæmt yrði að íslenska ríkisstjórnin hefði sýnt með setningu neyðarlaga, þar sem Íslandi er hyglt. En fari svo að dæmt yrði í slíku máli (sem tæki ár og daga á þremur stigum), þá er áhættan helst sú að við yrðum dæmd til að greiða einmitt þá upphæð sem Icesave III vill að við greiðum, auk einhvers vaxtaauka. Fyrst upphæðin skv. samningnum  sveiflast hvort eð er hrikalega eftir t.d. gengi krónu, þá er áhættan af því að hafna samningnum öll á eina hlið: Eina öryggið er öryggi hárra greiðslna.

Sjálfstæðisfólk gegn straumi þjóðar og eigin flokks

Varla verður um það deilt að meirihluti þingflokks Sjálfstæðismanna hljóp á sig með því að samþykkja Icesave III þvert gegn vilja þorra þjóðarinnar, sérstaklega kjósenda sinna. Núna eftir fundinn hljóta Ásbjörn og Pétur Blöndal (sem var á fundinum) að gera þingflokknum grein fyrir því hve sterk andstaða er við Icesave, sérstaklega hjá ungu fólki í grasrót flokksins og þjóðarinnar.

Erfitt að vinda ofan af þessu

Það mun taka mikla baráttu við Hollendinga og Breta að vinda ofan af þessum Icesave- gjörningi um komandi ár. Fylgismenn hans tóku mikla pólitíska áhættu við það að samþykkja Icesave en hafa enn smá- tíma til þess að sjá að sér, eða nokkra klukkutíma. En Bjarna Benediktssyni & co er það mikil alvara að synda gegn straumi fólksins að þeim verður vart hnikað úr þessu. Það var synd, því að þau voru svo efnileg. Unga fólkið kemst þá fyrr að.

 

Skráið ykkur hjá kjosum.is núna til þess að forsetinn komi aftur til bjargar.

 


mbl.is Fundað um Icesave í Valhöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Sæll Ívar - Takk fyrir frábæra samantekt frá fundinum - sem var gagnlegur þegar á heildina er litið.

Með bjartsýnis kveðju.

Benedikta E, 15.2.2011 kl. 12:39

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ívar og takk fyrir góðan og upplýsandi pistil. 

Það er þetta með áhættuna af dóm vegna mismunar.  Sérfræðingahópurinn sem Alþingi bað um að meta lagastöðu Íslands, var einróma að það væri mjög ólíklegt.  Vona að þú takir það ekki illa upp þó ég birti aðeins bút af rökstuðningi þeirra.

"Telja verður að erfitt getur verið að ná fram dómi um ábyrgð íslenska ríkisins á innistæðum umfram þá fjárhæð (20.000 evrur) gagnvart erlendum innstæðum , á grundvelli almenna ákvæðisins í 4. gr. EES samningsins sem bannar mismun.".

Þegar vísað er í að hluti sérfræðinganefndarinnar telur litlar líkur á að dómsmál vinnist, þá er átt við þessa lágmarkstryggingu.  Um það er ekki deilt að til eru peningar fyrir henni, og samkvæmt gjaldþrotalögum þá fá menn ekki vexti á kröfur sínar.

Hver er því áhættan????

Hún er vissulega til staðar, en það þarf að kynna hana á réttum forsendum.  Ef dómur fellur vegna meintrar mismunar neyðarlaganna, þá er sá dómur afdrifaríkasti dómur mannkynssögunnar.  Þá eru neyðaraðgerðir annarra Evrópuríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins ógildar, því allar miða þær við að bregðast við ástandi heima fyrir, ekki erlendis.  Það er ekki hægt að gera neitt sem felur ekki í sér meinta mismunun, enda eru til fjölmörg dómafordæmi (sögðu Stefán og Lárus ) Evrópudómsins að mikilvægi mála leyfi mismunun, enda er ESB ríkjabandalaga, ekki sambandsríki.

Þeir sem eru annarrar skoðunar en lögvitringarnir verða að færa lagarök fyrir máli sínu, ekki "ég held".  Það gildir aðeins ef þeir ætla að nota sina eigin peninga til að borga skuldir Björgólfa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.2.2011 kl. 14:32

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk Benedikta. Góður fundur.

Takk Ómar. Ef einhver er hræddur um að verða dæmdur til þess að greiða eitthvað, þá á hann ekki að losa hræðsluna með því að greiða án dóms!

Ívar Pálsson, 15.2.2011 kl. 14:53

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir góðan og upplýsandi fund.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.2.2011 kl. 15:07

5 Smámynd: Davíð Oddsson

Góður pistill að vanda hjá þér Ívar.

Nú er ég ekki lögfröður maður en mér hefur alltaf fundist, þrátt fyrir það - eða kannski þess vegna, þessi rök um að íslenska ríkið verði dæmt til að bæta Bretum og Hollendingum innistæður upp í topp, á þeim forsendum að það ákvað að tryggja íslenskar innistæður þannig, hljóma hálf undarlega í mínum eyrum.

Margnefnd jafnræðisregla getur varla átt við um þetta atriði, þar sem það var ekki íslenska ríkið sem var í viðskiptum við þessa innlánsaðila, heldur Landsbankinn. Jafnræðisreglan hlýtur að eiga við um þá sem selja þjónustuna, þ.e. að þeir mismuni ekki sínum viðskiptavinum.

Íslenska ríkinu hlýtur alltaf að vera stætt á því að gera það fyrir sína þegna, sem því sýnist best hverju sinni, án þess að skapa sér bótaskyldu gagnvart öðrum þjóðum. Íslenska ríkinu ber skylda til að gera það sem það telur koma sér best fyrir íslenska þjóð og íslenskt hagkerfi.

Reyndar má deila um hvort menn hafi færst of mikið í fang að óþörfu, með því að tryggja öll íslensk innlán upp í topp, í stað þess að setja eitthvert þak á það - en það er allt önnur umræða.

Davíð Oddsson, 15.2.2011 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband