Réttur til afsals

red_eu.pngGrein í MBL 2/3/2011: Nær 56% þeirra Íslendinga sem afstöðu tóku í Eurobarometer- könnun ESB telja að ESB- aðild yrði Íslandi ekki til hagsbóta. Könnunin var gerð í nóvember árið 2010. Síðan þá hefur skuldakrísa jaðarlanda Evrópu hlaðið verulega upp á sig, þar sem munurinn á herraþjóðunum og restinni eykst stöðugt. En fjórir milljarðar króna sem byrjað er að sóa í „kynningarherferð“ ESB á Íslandi hljóta að skila sér í aukinni fylgd Íslendinga við fallandi ESB-batteríið í trássi við raunveruleikann.

Þekking tölvuþjóðarinnar

Svo virðist sem ekki sé kveikt á öllum þessum tölvum okkar til þess að skoða viðskipta- eða fréttarásir Evrópu eða Bandaríkjanna, heldur aðallega Facebook-umtal um náungann eða Youtube-kvikmyndaklippur með köttum í kollhnís. Viðskiptarásirnar t.d. Bloomberg og Wall Street Journal hafa sýna glöggt í hvaða klemmu Evrópusambandið er: Helst Þýskalandi er ætlað að draga gríðar-vagn jaðarlandanna með sín ósjálfbæru hagkerfi og yfir 20% atvinnuleysi ungs fólks. Málefni Grikklands, Írlands, Portúgal og jafnvel Spánar er slíkt vandamál að furðu vekur að ESB haldi áfram útvíkkun við þessar aðstæður. Ég segi eins og Jóhanna Sig. (eða Fall), „Ég furða mig á þessu, ég er undrandi!“

Herraþjóðir og restin

Talandi í Icesave-dómsdagsstíl Jóhönnu og Steingríms J. þá eru hin ýmsu lönd Evrópu hvert í sinni stór- krísu sem láta vandræði Íslands til lengdar líta hjákátlega út, þar sem við höfum flest það sem hinar þjóðirnar nefna til úrlausnar vandans, t.d. menntunarstig, orku og nær fullbyggt stoðkerfi. Eitt helsta vandamál okkar núna er landlægur vingulsháttur og minnimáttarkennd ráðamanna sem virðast virkilega halda að Íslendingar séu ófærir um að ráða sínum málum sjálfir og beri því að afsala sjálfstæðum tilveru- og úrlausnarrétti í sínum málum til Belgíu, þar sem sundurlaus ríkjahópur kemur saman í stjórnlausu og sundruðu landi og velur sér ráð hundraða sósíaldemókrata til þess að ráðskast með hag hálfs milljarðs manna.

Þannig fer rétturinn

Kuldahrollur fór um mig eftir stórgóðan fyrirlestur Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors í Háskóla Íslands í hádeginu þann 23. febrúar sl. um forgangsáhrif ESB-réttar og íslenska stjórnarskrá. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að eftir ESB-aðild Íslands hafi Evrópusambandsréttur oftast forgang. Í mínum huga þýðir það að hvar sem eitthvað gæti skipt okkur Íslendinga verulegu máli, eins og í dæmi Stefáns Más um kvótahopp Spánverja, þá vegur ESB-réttur hærra. Við þyrftum þá líklega að aðlagast ESB með því að kalla réttinn okkar „Næst-hæstiréttur Íslands“. Megi það aldrei verða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Þetta þyrftu allir að lesa. Er virkilega búið að svæfa þjóðina. Eina ráðið er það sem vekur forvitni og fjölmiðlar neiðast til að birta. Þess vegna er ekkert áhrifa meira en fjölmenn mótmæli. Mb.kv. 

Helga Kristjánsdóttir, 5.3.2011 kl. 03:53

2 Smámynd: Aðalsteinn Tryggvason

Þakka fyrir góðan pistil og vona að sem flestir lesi þessa góðu upplýsingar.

Aðalsteinn Tryggvason, 5.3.2011 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband