Sjálfstæðisflokkurinn: stöðva ESB- „viðræður“

eu_burning.pngLandsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk með þeim jákvæðu fréttum að hartnær allir voru á því að stoppa ESB- „viðræðurnar“  strax. Umræðan var alls ekki lengur um inngöngu í ESB: augljóst fylgi gegn inngöngu í ESB er afgerandi í flokknum. Fyrrum ESB- aðdáendur virðast hafa lesið aðra fjölmiðla líka í viðbót við Fréttablaðið sitt, því að þau sjá hvað er að gerast hjá aðlögunarstjóranum ESB og vilja stöðva „viðræðurnar“ án tafar.

Að gera hlé er að stöðva

Nú opnast skýr leið fyrir meginþorra þjóðarinnar, fólkið sem vill ekki aðild Íslands að ESB og vill að þessar „viðræður“ stöðvist nú þegar, til þess að kjósa flokk sem fylgir sannfæringu þeirra um sjálfstæða þjóð.  Hinir kjósa Samfylkinguna, yfirlýsta ESB- flokkinn, eða Steingrím J., fylgifisk hennar líkt og í borgarmálunum, þar sem Gnarr er drepfyndni fylgifiskurinn. Baldur og Konni blikna í samanburðinum.

Forysta með allt á hreinu

Bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður hafa á þessari helgi margítrekað að þessar viðræður beri að stöðva strax og að ESB- aðild komi ekki til greina eins og orðið er.  Formaðurinn fer heldur ekki í grafgötur með það hver vilji flokksins er eftir þennan landsfund. Hanna Birna stóð sig vel og sýndi hve frambærileg hún er, að ná 45% gegn sitjandi formanni. Hún myndi sóma sér vel í næstu ríkisstjórn, kærði hún sig um það.

 

 

Hitt er svo annað mál að ég vildi ganga lengra vegna ESB (eins og venjulega!): Aðlöguninni að ESB á að slíta til langframa og reyna að afgera það reglugerðaveldi sem eina sanna vinstri stjórn Íslands hefur innleitt á örskömmum tíma til tjónkunar við ESB- báknið.

Ræðan sem aldrei var flutt

Hér er ræða mín sem aldrei var flutt vegna tímaskorts í ræðustóli:

„Ég mæli með tillögu Elliða um að hætta aðlögun að ESB. Það er reginmunur á því hvort hlé sé gert á þessu eða að því verði slitið.

Ég hef stundað útflutning sjávarafurða, aðallega á rækju, síðastliðin 27 ár. Fríverslunarsamningar koma mér verulega við í starfinu. Við Íslendingar höfum ærlega notið þeirrar gæfu að samningamaður Íslands vegna EFTA samningsins árið 1972 laumaði inn 0% tolli á íslenska rækju. Heilu byggðir landsins og raunar þjóðin öll hafa notið þeirrar gjaldeyrissköpunar síða, eftir að sú grein komst verulega á legg hér á landi.

Við samþykkjum hér að sækjast eftir fríverslunarsamningum við nokkur stór ríki, þ.á.m. Kína. Fríverslunarsamningar Íslendinga við Kína gengu mjög vel og voru nær í hendi þegar daðrið við ESB hófst, en þá setti Kína samningsdrögin í neðstu skúffu og læstu henni, þar sem ESB kemur fram sem einn samningsaðili gagnvart Kína og væri þá íslenski samningurinn marklaus, þar sem Ísland er í aðildarferli við ESB. Það sama má segja vegna Indlands og annarra stórra landa.

Ef svokölluðum viðræðum við ESB er slitið, þá er þeim dyrum lokað og því tímabili í lífi okkar lokið. En þá opnast aðrar dyr: fríverslunarsamningar við Kína og önnur lönd koma aftur sterklega til greina. En ef einungis hlé er er gert á viðræðunum, þá er dyrunum bara hallað aftur og ekkert gerist.

Helen Keller orðaði þetta vel:

„Þegar einar dyr lokast opnast aðrar, en við horfum oft svo lengi og með svo mikilli eftirsjá á dyrnar sem lokuðust að við tökum ekki eftir öllum þeim dyrum sem standa opnar.“


mbl.is Harðlínuöfl ofan á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það breyttist ekkert hjá flokknum við þessa tragíkómísku samkomu Ívar, nema það að möguleikar á auknu truasti og jafnvel völdum hurfu eins og dögg fyrir sólu. Öll þjóðin fékk nábít yfir sjónarspilinu. Það að Bjarni sitji áfram er ávísun á aðgerðarleysi, undirferli og auðrónadekur í anda flekkaðrar fortíðar hans og flokksins.

Ég eygði möguleika þarna, en hef afskrifað þetta afl for good. Flokkseigandafélagið hefur grafið sína eigin gröf. Þetta er upphafið að endalokunum. Nú verða hægri menn að taka sig saman og stofna trúverðugra afl til að skáka þessum steingervingi nepotisma og sjálfshygli af sviðinu. 

Jón Steinar Ragnarsson, 20.11.2011 kl. 23:12

2 Smámynd: Benedikta E

Hanna Birna á eftir að segja á spilin sín - hún er ekki með pass spil á hendi hún Hanna Birna.

Benedikta E, 20.11.2011 kl. 23:23

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Jú, Jón Steinar, þetta var allt annað andrúmsloft en áður vegna ESB á þessum landsfundi. Ekki var lengur reynt að halda uppi fölsku myndinni af einhverri breiðfylkingu ESB- sinna í flokknum eins og áður, heldur vildu þeir fáu sem enn vildu klára "samninginn" helst fá að vera áfram í flokknum og að á þá væri hlustað. Það var gert, en þeim var klárlega sagt af fjölda manns að stefna flokksins væri að við héldum okkur utan ESB og að þessa aðlögun beri að stöðva. Lýðræðið sýndi það, í nefndum og sérstaklega í aðalsamkomunni þar sem yfir 1000 manns komu saman.

Ég fæ ekki séð að þörf sé á því að stofna annað afl núna þegar stefnan hefur komist á hreint og leitinni að eilífðar- miðjunni hefur verið hætt. Aftur er horfið til grunngilda, sem er vel.

Hanna Birna kom, sá og næstum því sigraði. Þannig gerist þetta hjá flestum, Davíð líka forðum, eins og hann minntist á í stórgóðri ræðu sinni. Hún hefur einungis vaxið við þetta og á framtíðina fyrir sé, hvort sem er hjá borg eða ríki, ef hugurinn stefnir þangað.

Ívar Pálsson, 21.11.2011 kl. 00:23

4 Smámynd: Rafn Guðmundsson

sæll Ívar

mér fannst svolítð erfitt að skilja þessa grein þína en held að ég geri það núna. þessi hatur þinn á ESB sýnist mér vera vegna þíns útflutningsfyrirtækis. sem er eðlilegt en ég bara spyr: eru engin fyrirtæki í evrulöndum. hvað með aðra kosti og galla.

og svo segir þú

Helen Keller orðaði þetta vel:

„Þegar einar dyr lokast opnast aðrar,

en við horfum oft svo lengi og með svo mikilli eftirsjá á dyrnar sem lokuðust að við tökum ekki eftir öllum þeim dyrum sem standa opnar.“

ég er greinilega að skila hennar orð 'allt' öðruvísi en þú

Rafn Guðmundsson, 21.11.2011 kl. 00:29

5 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ég aðildarsinninn er líka sammála þessu hjá ykkur. þið (Ívar/Jón) og þeir "sem við köllum harðlínumenn" eigið að stofna nýtt afl. það er betra fyrir mig og kannski ykkur

Rafn Guðmundsson, 21.11.2011 kl. 00:39

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Rafn, ég hef aldrei skilið það þegar ESB- aðildarsinnar kalla okkur sem erum það ekki, hatursmenn ESB- landa, sérstaklega Evrulanda. Ég er það alls ekki: nam tungu þeirra, ferðast um þau og elska t.d. París. Ég átti mikil viðskipti við þau fyrir Evru- mistökin þeirra, t.d. í frönskum Frönkum. Það var ekkert erfitt og allir undu við sitt. EES- samningurinn gerði lífið enn auðveldara.

En þegar sósíalistar og búreókratar Evrópu sameinuðust við aðra slíka á Íslandi um það að innlima Ísland í fyrirheitna fallríkið, þá spyrti ég við fótum eins og aðrir. En ég hata ekki ESB. Finnst það bara vera tóm vitleysa og er feginn að það rennur upp fyrir æ fleirum, okkur til hagsbóta.

Ívar Pálsson, 21.11.2011 kl. 01:12

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Ívar minn, á ekkert að fara að kíkja á skíði og í fjöllin hérna megin?  Við bíðum bæði spennt!  

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.11.2011 kl. 04:35

8 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ívar, ég myndi ekki treysta of mikið á þessa andstöðu gegn ESB sem var ákveðin á landsfundinum með Bjarna Ben í forsvari, hann sveik landsfundinn og kjósendur mjög nýlega í Icesave málinu, það segir mér bara eitt að það er auðvelt að kaupa hann til fylgis og því er miklar líkur á að hann hafi ekkert á móti því að svíkja kjósendur og landsfund aftur.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 21.11.2011 kl. 09:29

9 Smámynd: Ívar Pálsson

Sæl Jenný, það væri nú fjör að hitta ykkur Vesturfarana og komast í kanadíska púðrið fræga. En eins og hjá mörgum á hafa vinstri hrunárin skorið niður hjá okkur og þar fóru skíðaferðirnar fyrstar.

Kannski finnast viðskipti til þess að borga svoleiðis. Forðum var ég eilítið ævintýragjarnari og fékk rækju frá 14 bátum landað í Vancouver Island, hún fryst þar, sett í 19 gáma og ekið á lest til Montreal og New York, siglt til Kaupmannahafnar og þaðan til Reykjavíkur, ekið til Hvammstanga og soðin, pilluð og fryst þar, síðan til Birmingham í Bretlandi þar sem henni var dreift til neytenda. En ætli ég myndi nenna þessu núna? Svo finnst eflaust einhver í öðrum stjórnmálaflokki sem finnst kolefnisfótspor þessarar rækju vera komið í númer 46!

Ívar Pálsson, 21.11.2011 kl. 10:12

10 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

  Góður og gott að spaugsemin og húmorinn hafi ekki horfið með ferðasjóðnum þínum.

Minnstu frystu rækjurnar sem ég fæ hér í mitt "signature" rækjusalat er 90-130 í pundi.  Þarf að þrískera þær svo þær standi ekki í fólki.

Nú þegar nýjar siglingaleiðir eru óðum að opnast mætti ímynda sér  að kolefnisbífurnar drægjust saman,, þá þarf að vinna bug á letinni Ívar.  

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.11.2011 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband