Fulltrúi Sjálfstæðisfólks

XD-samstadaBrotthvarf Eyþórs Arnalds af borgarstjórnarsviðinu kallar á verulega sjálfsskoðun hjá Sjálfstæðisfólki, þar sem Eyþór hefur verið oddviti hins almenna kjósanda, sem stendur t.d. gegn Borgarlínu, upplausn Reykjavíkurflugvallar og hruni skipulagsmála almennt í borginni.

Leiðtogi og uppstilling

Það var trú manna fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar að leiðtogakjör frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins dygði til þess að sameina hópinn í skýrri andstöðu við vinstri meirihlutann, sem valdið hefur óskunda í 15 ár, frá því að Dagur B. Eggertsson tók í raun við valdataumunum í Reykjavíkurborg. En vonirnar urðu að engu, þar sem sú uppstillingarsamsuða sem boðið var upp á að öðru leyti í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins setti næst forystunni fólk sem studdi Borgarlínuna og annað bílahatur vinstri borgarstjórnar- meirihlutans. 

Prófkjör!

Nú sækist það sama fólk eftir forystu í stað Eyþórs. Ef einhver von á að vera til þess að brjóta niðurbrotsstefnu vinstri meirihlutans á bak aftur í kosningunum næsta vor, þá verður að fara fram fullt prófkjör frambjóðenda í Sjálfstæðisflokknum, svo að kjósendur geti gefið hverjum og einum það fylgi sem honum eða henni ber og endurspeglar vonandi þarfir og langanir þorra flokksmanna, ekki fámennrar nefndaklíku flokksins.


mbl.is Eyþór Arnalds gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég held að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi verið orðinn svo "SÝKTUR" af "LAUMUKRÖTUM" sem Hildur Björnsdóttir er í forsvari fyrir að Eyþór Arnalds hafi bara einfaldlega gefist upp  á baráttunni.  Spurningin núna er sú hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætlar líka að gefast upp eða hvort eigi að spyrna eitthvað við???????????????????

Jóhann Elíasson, 21.12.2021 kl. 09:37

2 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Æi Ívar

Er það inngönguskilyrði í flokkinn minn að vera andstæðingur almenningssamgangna? Þá væri best að fara að huga að brottför.

Þeir sjálfstæðismenn sem ég þekki hafa mismunandi skoðanir á borgarlínu. Eyþór studdi, líkt og við flest, að borgarlína yrði að standast sömu arðsemiskröfur og aðrar almenningssamgöngur og ekki ryðja akreinum fyrir bíla úr vegi. Ég gegni trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef ekki kynnst öðru en að í borgarstjórnarflokknum séu allir á svipaðri línu. Sundabraut verður ekki að veruleika nema við tökum við stjórnartaumum. Svo má áfram halda. - En svo er auðvitað hægt að finna mál til að slást innbyrðis eins og nýleg dæmi úr landsmálunum sanna.

Einar Sveinn Hálfdánarson, 21.12.2021 kl. 09:59

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Jóhann, þessi lina andstaða við Samfylkingarstefnuna í skipulagsmálum sem þú nefnir er einmitt dragbíturinn, sem kemur í veg fyrir gott gengi XD í borginni. Það þarf að herða tökin.

Einar Sveinn: Borgarlína og skipulagsklúður verður helsta kosningamál þetta vorið, sama hvað fólki finnst um það að svo sé. Ég var líka frambjóðandi í orði kveðnu síðast og sá það eins og þú, að allir þar voru sannarlega ekki á svipaðri línu. En fólkið sjálft sem Sjálfstæðisheildina myndar hugsar sem betur fer á líkan hátt, flest hvert. Um 86% ferða þeirra um borgina er á bílum. Annað hef ég minnst á hér. 2,5 sinnum fleiri telja að Borgarlína muni ekki draga úr töfum í umferð, en hinir sem telja svo. 7,7 sinnum fleiri eru andvígir lækkun á hámarkshraða en hinir sem vilja lækkun. 4,4 sinnum fleiri telja að bætt stofnbrautakerfi dragi úr umferðartöfum heldur en Borgarlína myndi gera. 31 sinnum fleiri telja að útskot á strætóstöðvar sé betri en hinir sem telja að stöðva eigi umferð.

Ívar Pálsson, 21.12.2021 kl. 10:54

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Afsakaðu, Einar Sveinn, ég mislas  í borgarstjórnarflokknum séu allir á svipaðri línuÞað er ekki raunin, Hildur og Katrín fylgja Borgarlínunni. Flokksmenn standa almennt gegn henni. Skv. MMR telja 81% af því Sjálfstæðisfólki sem afstöðu tóku að umferð á höfuðborgarsvæðinu sé frekar eða mikið vandamál. Einnig eru 72% þessa XD fólks á því að Borgarlína muni ekki draga úr þessum töfum. Það er sama hvar gripið er niður, LANG- flestir Sjálfstæðismenn vilja ekki sjá Borgarlínu, hvað þá ef við tölum um fjárausturinn í hana fyrir fámennið sem fylgir henni. En 92% fólks sem kysi Samfylkinguna skv. MMR telur að Borgarlína muni draga úr töfum á höfuðborgarsvæðinu.

Ívar Pálsson, 21.12.2021 kl. 14:32

5 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Ívar

Eg tel, líkt og Eyþór, að borgarlína kunni að koma til greina í framtíðinni. En til þess að svo megi verða þarf hún að standast skoðun sem fram skal fara í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda. Skv. 7. gr. þeirra laga má ríkið sem hyggst fjármagna framkvæmdina ekki gera það nema; 1. Fullnaðaruppdrættir og tæknileg verklýsing á þeirri framkvæmd sem fyrirhuguð er, skrá um efnisþörf, nákvæm kostnaðaráætlun um verkið, lýsing á ábyrgðarsviði og verkaskiptingu þeirra aðila sem standa að framkvæmd, tímaáætlun um framkvæmd þess og greiðslu- og fjáröflunaráætlun fyrir framkvæmdatímabilið. Ráðherra skal skilgreina kröfur um gerð og framsetningu kostnaðaráætlana og kynna þær fyrir ríki og ríkisaðilum. 2. Rekstraráætlun sem nær til minnst fimm ára eftir að framkvæmd er lokið.

Hafir þú rétt fyrir þér má ríkið ekki fjárfesta í borgarlínu að sinni. Það breytir engu þótt borgin eigi að reka hana og að stofnað hafi verið ohf. um hana. – En skoðanakannanir sem tæki til ákvörðunartöku í skipulagsmálum hugnast mér ekki. Ekki frekar en hverfakosningar um sjálfsagða þjónustu í borginni.

Einar Sveinn Hálfdánarson, 21.12.2021 kl. 17:03

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Einar Sveinn. Meirihluti borgarstjórnar og þeir aðrir sem styðja Borgarlínuna vitna gjarnan í afarsamninginn um samgöngur á Höfuðborgarsvæðinu eða þá um útfærslu tækniatriða. En valtarinn er á fullu og ríkið heldur ekki að sér höndum í þessu, þegar Vinstri græn stjórn er við völd og greiðir stóran hluta reiknings Borgarlínunnar við það að eyðileggja bílasamgöngur í Reykjavík.

Skoðanakannanirnar segja vilja fólksins. Nóg er búið að hunsa þann vilja í skipulagsmálum og búa m.a. til gerfilýðræðið sem þú minntist á, hverfakosningar um ekki neitt. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að hlusta á vilja eigin fólks, í stað þess að fara beint eftir vilja Samfylkingarkjósenda, sem þrá Borgarlínu, 15 mínútna hverfi og bílastæðaleysi sem Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir virðast stefna að.

Ívar Pálsson, 21.12.2021 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband