Sögur úr sveitinni: Á leið í sveitina

Sex ára strákur kvaddi bljúgur móður sína á Bifreiðastöð Íslands á leið í sveitina í fyrsta skipti.

Fatainnkaupum lauk daginn áður. Ómissandi svartir gúmmískór, gráir ullarleistar, hnausþykk dökkgræn regnkápa með hettu og regnbuxur í stíl, beislitar síðar stingandi ullarnærbuxur og álíka hlýrabolur voru komin ofan í lúna tösku með trélistum og smellum, ljósgrænn Geysispoki úr galloni hélt utan um aðrar nauðsynjar eins og nýju dökkbláu gallabuxurnar með margfalda uppábrotinu, sem voru stífar eins og spelkur og rauðköflótta ameríska verkamannskyrtu, hún var flott í stíl. Verst að bangsinn fékk ekki fararleyfi. Hann hafði látið verulega á sjá í síðustu norðurferð, þegar ég ældi yfir hann eftir sex tíma ferðalag í bíl, þar sem pabbi og bróðir minn reyktu London Docks vindla í ameríska kagganum á holóttum malarveginum alla leiðina norður án þess að skeyta nógu vel um að opna reykgluggana að framan. Pabbi sagði af því tilefni: „Skrýtið með hann Ívar, hann verður alltaf svo bílveikur!“

Ég fer í sveitinaÞarna stóð ég á björtum maídegi á BSÍ, kyssti mömmu bless og steig upp í Norðurleið, sem stefndi á Akureyri. Ég fékk sæti fremst vegna bílveikinnar. Aftast sátu ungmenni og stórreykingafólk, sem hossaðist í reykjarmekki sínum á leiðinni.  Ferðin til Blönduóss tók um sex klukkutíma, en ég spurði bílstjórann næstum því í hvert skipti þegar á leið og stöðvað var við brúsapall: „Erum við núna rétt hjá Blönduósi? “ Loks stóð ég við BP sjoppuna á Blönduósi með töskuna góðu og Geysispokann við hlið mér og beið hljóður eftir því að vera sóttur. En tíminn leið og beið. Rútan og aðrir ferðalangar voru á brott og enginn rykmökkur í nánd. Hálfkjökrandi gekk ég inn og staðarhaldarinn hringdi fyrir mig l-a-a-a-ngt, l-a-a-a-ngt, stutt með símasveifinni á bæinn Tinda, þar sem viðmælandi sagði að náð yrði í mig. Óratími leið en um síðir renndi Austin Gipsy jeppi upp að mér, maðurinn undir stýri sagði fátt og við brunuðum að einhverju plani á Blönduósi. Þar settist annar maður undir stýri, gaf í og snarbremsaði nokkrum sinnum og kveikti á þurrkum og ljósum þarna um miðjan heiðbjartan dag. Síðan teygði hann sig í hægra neðra hornið á framrúðunni og setti límmiða innan á rúðuna: 1964. Bíllinn taldist þá skoðaður af Bifreiðaeftirlitinu og ég fékk far að Tindum í Svínavatnshreppi.

Þá tók við þriggja mánaða sumardvöl mín í sveit, eins og hjá öðrum systkinum mínum, til þess að átta barna foreldrar mínir gætu um frjálst höfuð strokið þar til skólar byrjuðu að hausti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Úff..  sex ára.. ég var send tíu ára í sveit og entist í heila tíu daga!

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 2.9.2007 kl. 23:14

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Skemmtilegt Ívar. Ég hafði aldrei hugsað út í þetta með reykgluggana.  Pabbi átti Chevrolet 54 með svona glugga, framan við framrúðuna. Þetta hefur þá verið reykgluggi!

Gunnar Þórðarson, 4.9.2007 kl. 13:53

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Bryndís, ég var of ungur til þess að vera uppreisnargjarn, en þú 10 ára hefur þá strax verið byrjuð!

Gunnar, reykgluggarnir voru ekkert vitlausir, líka af því að ryk sogaðist ekki inn að framan, bara reykurinn út. 

Ívar Pálsson, 4.9.2007 kl. 15:25

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég fæ verk fyrir hjartað. Sex ára. Aleinn á svo löngu ferðalagi. og svo ekki sóttur í þokkabót fyrr en eftir dúk og disk. Ætlarðu að ganga frá mér Ívar.

Takk fyrir færslu. Hún er yndisleg. Og líka hjartakremjandi.

Jóna Á. Gísladóttir, 4.9.2007 kl. 22:44

5 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Ég sé þig fyrir mér bíðandi eftir að vera sóttur, finn hreinlega lyktina....frábær lýsing.....stílinn minnir mig á spænska bók sem ég á, er sú besta sem ég hef lesið....heitir  ,,Lát hjartað ráða för"...hún er svo mögnuð að maður finnur lyktina í aldingarðinum sem er verið að lýsa.. ekki amaleg samlýking Ívar minn.

Bestu kveðjur frá Sri Lanka

Stína 

 Ps. Kærar kveðjur til Gerðar og unganna.

Gunnar Þórðarson, 8.9.2007 kl. 13:18

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Þakka ykkur kærlega fyrir, Jóna og Stína. Ég reyni þá að læra af þessu að koma tilfinningu til skila, ekki bara að segja frá.

Ívar Pálsson, 8.9.2007 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband