Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Lögregla gegn umhverfissinnum

Sjávarútvegssýningin í Brussel var haldin í Brusselsl. viku. Verðhækkanir matvæla í heiminum voru mikið í deiglunni. Andstæðingar túnfiskveiða reyndu að trufla mótshaldið, en belgíska lögreglan tók ákveðið, hljótt og fagmannlega á málunum með mikinn mannskap, sem safnaðist saman fyrir utan, gekk ákveðið inn, setti upp girðingar, tók á fólkinu af rólegri festu, klippti á keðjur þeirra með björgunarklippum og batt hendur þess með plastböndum. Hinir óboðnu voru síðan leiddir út í rútu og lögregluliðið fylgdi burt. Mest kom mér á óvart hve hljóðlega allt fór fram. Ég tók nokkrar myndir á illa stillta vasamyndavél, en það er samt gaman að skoða þetta albúm hér til hliðar.

Þetta var líklega um tuttugasta og fimmta matvælasýningin mín. Alltaf tekst nú að útbúa eitthvað sérstakt. Girnileg er t.d. matvara í saltlegi í miklu úrvali frá Renna á Ítalíu.


Hraðbraut til heljar

Verðbólgan á Íslandi var um 100% hér þegar ég var úti í námi forðum. Í hagfræðinni kom það samnemendum mínum á óvart þegar ég sagði þeim frá Íslandi að fólk vildi þá kaupa fljótt fleiri vörur. Nemendurnir bjuggust við því að flestir héldu að sér höndum, en Íslendingar bjuggust stöðugt við hækkunum og vissu að næsta sending til landsins myndi kosta meira og dreif því jafnan í því að kaupa hlutinn. Vörurnar voru jafnvel boðnar með vaxtalausum lánum.

Líf eins og í þá gömlu „góðu“ daga

Dollarinn tvöfaldaðist í krónum þegar ég var þarna, þ.e. krónurnar sem ég  hafði safnað fyrir skólanum helminguðust, nema þegar ég keypti dollarana strax. Þau sem ösnuðust til þess að geyma peninga inni á bundnum krónureikningum urðu næst-verst úti, en verst þau sem skulduðu mikið í húsnæði. Þau enduðu mörg með því að missa eignirnar sínar síðar, eftir 2-3 ár af ofurgreiðslum.

Þetta þýðir víst ekkert

Áminningar mínar og annarra til Davíðs allt árið í fyrra um að hækka ekki stýrivexti frekar (sbr. greinarnar hér til hliðar), voru eins og miga í mel, þær breyttu engu. Nú heldur hann áfram, kominn í 15,5% stýrivexti og spilar á lýru, þegar Ísland brennur og Halldór Blöndal kveður undir spilinu. Úrelt hagfræði ríður húsum, hagsmunir bankanna ráða miklu, en hræðslan við að taka á vandamálinu er allsráðandi. Stjórnin eys olíu á eldinn með því að gefa í skyn að bönkum verði bjargað. Þar er Davíð þó með allt á hreinu, bankarnir geta bjargað sér sjálfir, enda keyptu þeir ekki ríkisábyrgð forðum.


mbl.is Vextir fara í 15,75%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gore er ræðusnillingur

Ég er þakklátur Glitni fyrir tækifærið að fá að sjá þennan einstaka ræðusnilling og hópstjórnanda, Al Gore. Hann heldur athygli manns vel, er klár og fyndinn, en er fyrst og fremst með stjörnu- sölumannshæfileika sem hann nýtir til fulls í þessari herferð sinni til myndunar kolefnis- losunarkvóta í heiminum.

Það er erfitt að hrífast ekki með straumnum sem hann vill að flæði um alla jörð, þar sem krafa um höft er vafin í silkiumbúðir hins mjúkmælta. Þetta er einskonar skírlífisbelti með smargöðum. Það lítur út eins og skartgripur, en kemur samt í veg fyrir getnað.

Skynsamt fólk gæti tekið upp á því að aðhyllast heimshlýnunarkenninguna í kjölfarið. Það gæti jafnvel haft rétt fyrir sér, þótt ólíklegt sé. En þær aðgerðir til breytinga veðurfars á jörðinni sem Al Gore og Co. vilja að við samþykkjum (og gera hann enn ríkari), aðallega með kolefnilosunarkvóta,  ætti ekki að taka einu sinni til umhugsunar, því að þær minnka hagvöxt og valda hungri og styrjöldum. Förum bara vel með það sem við höfum.


mbl.is Þróun sem hægt er að stöðva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veitum framúrskarandi forystu

Nóbels- og Óskarðsverðlaunahafinn Al Gore sagði áðam að Ísland veiti „framúrskarandi forystu“ varðandi endurnýjanlega orku í heiminum. Einnig að ríki okkar geri heilmikið  í umhverfismálum. Núna á eftir fer ég því og hlusta á fyrirlestur hans (takk Glitnir), þar sem ég vona að það fólk sem trúir Kvótasalanum mikla í einu og öllu, hlusti þá á hann þegar hann bendir á að Ísland sé leiðandi í umhverfismálum, með vatns- og gufuvirkjanir, álver og flest það sem bætir hag okkar svo vel.

En varla fer hann að halda því fram að við getum eða viljum kæla heiminn fyrir Afríku?

 

Síðasta Gorhugsun var: 

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/496556/

 

 


mbl.is Margir sporna gegn breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gorhugsun um Hinn máttuga mann

Samkvæmt Al Gore ættu aðgerðir Íslendinga í loftslagsmálum að breyta einhverju. En hverju, í hvaða átt? Hefur einhver trú á tölvulíkani með spá um um hitastig 15-20 ár fram í tímann fyrir einstök lönd? En fyrir næsta vetur á Íslandi? Skoðum vef IPCC, Nóbelsverðlaunahafanna með Gore og sjáum hvernig Ísland kemur út (hér). Prófið 15-20 ára spá fyrir Ísland undir ýmsum spámynstrum. Oft er lítil breyting og stundum er jafnvel kólnun hafsins. En smábletturinn í kring um Ísland sveiflast eins og jó-jó.Gore Iceland Kite

Langtímaspár um íslenskt veðurfar?

Aðalatriði fyrir Ísland er Golfstraumurinn og loftstraumar sem honum fylgja: það breytist stöðugt. En eitt er alveg öruggt: enginn getur sagt fyrir um það hvernig Golfstraumurinn verður eftir 15-20 ár, hvað þá lengur. Fyrst ómögulegt er að segja til um aðal- örlagavald íslensks veðurfars fram í tímann, hví ætti að vera hægt að segja til um öráhrif aðgerða íslenskra manneskja á heimsveðrið langt fram í tímann og áhrif þeirra aðgerða á Golfstrauminn? Það gefur auga leið að aðgerðir eða aðgerðaleysi okkar umhverfisvænna Íslendinga til loftslagsbreytinga hafa engin áhrif á Íslandi, en ef svo ólíklega vildi til, þá getur enginn sagt til um hver þau áhrif yrðu.

Hvað vill Gore? En Íslendingar?

Manni verður því spurn: hvað myndum við Íslendingar vilja í loftslagi eftir 20-50 ár, ef við gætum haft áhrif á það að hætti Gores? Kólnun, hitnun eða kyrrstöðu? Það er að vísu viðurkennt að þó að slökkt yrði á öllum skipum, bílum og verskmiðjum Íslands strax, þá breytist loftslagið í heiminum ekkert í hundrað ár. En segjum samt að við gætum breytt einhverju, hvaða loftslag vildum við fyrir börnin og barnabörnin okkar? Ef svarið er „eins og í dag“ eða hitnun, þá ættum við að hafna Gorkvótanum og halda áfram óhindruð íslensku leiðina.

Ef við kjósum kólnun veðurfars og trúum virkilega eftir 20 ár að við höfum valdið kólnuninni og að hún hafi verið til heilla fyrir þjóðina, þá skulum við taka upp ósanngjarna Gorkvótann og hefta hagvöxt og framleiðslugetu þjóðarinnar svo hressilega að börnin okkar þora ekki að eignast nema eitt barn hvert. Þau hafa þá ekki efni á fleirum.

 

 

Nokkrar tengdar greinar fylgja hér (ef það skyldi nákvæmlega ekkert vera í sjónvarpinu núna!):

CO2 kvótamarkaður er martröð í mótun

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/243329/

CO2 kvótinn er verri en hinn kvótinn

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/297692/

Stærstu kvótaþegar jarðar

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/321293/

Skömmtunarárin og haftapólitíkin endurvakin

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/324229/#comment662537

Sannfærð(ur)? Taktu prófið

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/329753/

100 til 150 ár, segir SÞ- nefndin

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/337314/

Þórunn mun klúðra samningsstöðu Íslands

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/341570/

Hungraður heimur, „óvart“

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/410591/

ESB viðurkennir mistök í umhverfisstefnu

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/414291/


Milljarðatuga munur

Réttar aðgerðir Seðlabanka hefðu getað sparað okkur amk. 50 milljarða í dag. Á opnum kynningarfundi Seðlabankans í maí 2007 komu fram upplýsingar sem ég bloggaði um þann 25. maí 2007, „Stöðugt ástand?“. Þar kemur m.a. fram:

Annað sem veldur áhyggjum er að á Íslandi, sem er með  eina hæstu hreinu skuldastöðu ríkja heims (Líbanon hærra?), þá er gjaldeyrisforðinn, sem var 34% eigna landsins árið 1995, einungis um 4% eignanna í dag. Ólíklegt er að þessi forði nægi til þess að verja krónuna af nokkru viti, enda eru upphæðirnar á móti í hundruðum milljarða króna. “


Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra tilkynnti nýlega um hugsanlega lántöku ríkisins til kaupa á gjaldeyrisvarasjóði sem mun reynast okkur rándýrt, enda allt komið í buxurnar. Tómlæti Seðlabankans í maí 2007, vitandi vits um skuggalega lága stöðu gjaleyrisforðans eins og kom fram á fundinum forðum, veldur okkur ótrúlegu tjóni í dag. Gengislækkunin (hækkun gjaldeyrisins) var um 33%, sem þýðir að t.d. 200 milljarða viðbótarsjóður, sem þörf væri á, hefði kostað um 50 milljörðum minna og hefði haft meiri fælingarmátt á spekúlanta en sú nánasarupphæð sem til var í gjaldeyrissjóði í gengislækkununum. Inngrip Seðlabanka eru að vísu sjaldnast áhrifarík til lengdar og gjarnan örfljót sóun á sameiginlegum eignum okkar flestra, en digur sjóður virkar eins og kjarnorkuvopn; það þarf ekki að nota þau til þess að þau virki.

Varnaðarorð mín og fjölda annarra voru látin sem vindur um eyrun þjóta. Það er tóm þvæla að segja að enginn hafi séð þetta fyrir.


mbl.is Krónan styrktist um 2,52%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband