Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Besti flokkur máva, njóla og fífla

flautad_a_rottur.pngHirðuleysi borgaryfirvalda sýnir sig enn, núna í mávunum. Ég horfi á mávagengi vaða uppi óaáreitt, t.d. ofsækja endur með unga sína hér í fjöru Skerjafjarðar, þar sem tvö pör með 8 unga alls voru fljótt komin niður í tvo unga, en önnur andapör ungalaus.

Mávaplágunni er ekki haldið niðri frekar en fíflum eða njólum, en borgarstarfsmenn eða verktakar sáust hvergi þegar sú plága óx úr sér fyrr í sumar. Nú eru ýmsir ofnæmisvakar í hámarki, vegna þess að borgin lét hjá líða að halda sér í lagi.

Hvað er næst? Þarf rottuplágu til þess að hreyfa við fólki? Ætlar Gnarr þá að spila á flautu til þess að (G)narra  þær út úr Reykjavík, út á Seltjarnarnes?


mbl.is Mávur réðist á kanínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katla: Upplýsingastreymi ábótavant?

katla2011skjalftavefsja0718kl0818a.pngJarðskjálftahrinan í Kötlu sl. nótt sýndi okkur hve öryggið er lítið í því upplýsingastreymi sem á að eiga sér stað vegna jarðhræringa í Kötlu. (Sjá aths. neðst: Vefurinn á Vedur.is slökkti á öllu streymi um jarðhræringar um leið og skjálftahrinan á milli kl. 02:00 og 03:00 átti sér stað í nótt). Upplýstir vegfarendur sem vilja ekki taka áhættuna á því að lenda í margföldu vatnsmagni Amazon- fljóts á Mýrdalssandi eða í fjallgöngu á Fimmvörðuháls fá hvergi upplýsingar um skjálftana, því að eina veitan er Veðurstofan, sem slekkur bara á þeim hluta vefsins sem sýnir jarðhræringar.

Vefurinn virðist bregðast vegna álags um leið og jarðskjálftahrina hefst. Ég fann enga aðra leið er til þess að nálgast skjálftaupplýsingarnar. Miðla ætti tækniupplýsingunum sjálfkrafa til annarra aðila líka til þess að kerfið bregðist ekki.

Líkur eru á því að næst þegar Katla gýs, þá verði engar upplýsingar að fá sem varað gætu við hættunni á komandi gosi í tæka tíð til þess að geta forðað sér af nánasta áhrifasvæði gossins, eða hreinlega ekki farið þangað. Atburðirnir sl. nótt staðfestu þá skoðun. 

katla20110718listi.png

 


mbl.is Skjálftahrina í Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórar tölur, alveg billjón

Milljarður er þúsund sinnum meira en milljón. Flestir skilja stærðina milljón: nokkurra ára smábíll í krónum, laun í 1-4 mánuði eða hve oft maður segir krökkunum að hirða fötin af gólfinu. En milljarður er þúsund sinnum meira: þúsund smábílar, laun í 83 til 333 ár osfrv. Þess vegna kúpla langflestir heilanum úr sambandi þegar stórar tölur birtast, jafnvel í viðskiptafréttum fjölmiðla. Allt í einu er hægt að byggja lestarkerfi í Skandinavíu fyrir andvirði íbúðar Jóns Ásgeirs á Manhattan, eða andvirði tapsins á Fréttablaðinu. Lestarkerfið sem Kínverjar vilja byggja upp (Osló-  Gautaborg-  Kaupmannahöfn) myndi kosta 1580 milljarða (eða 1,58 milljón milljónir). Smá munur þar.

Eins er með ríkisfjármál eftir hrunið. Þýskir bankar lentu t.d. í yfir 3000 milljarða tapi á Íslandi, sem færðist ekki á fólkið (eins og hins vegar var gert í Grikklandi eða á Írlandi). Þetta eru laun allra vinnufærra Íslendinga í uþb. 50 ár. Það munar því um það fyrir ríkið, fyrir hönd þegnanna að standa á sínum rétti gagnvart kröfuhöfum, ekki gefa eftir.

Auk þess legg ég til að viðskiptaumræða í upphæðum verði að Amerískum hætti: Milljón, billjón, trilljón osfrv. Latína, 1-2-3, upp þúsundfalt í hvert sinn. Það er lógískara en ruglingur Evróskra vísindamanna sem kalla amerísku trilljónina billjón. Auk þess er talað um billjón (milljarð) á langflestum fjölmiðlum um heiminn. Bandaríkin skulda 14,3 trilljónir dollara. Ekki 14,3 billjónir.

Kínverjar hafa núna 3,2 trilljónir dollara tiltækar í lausafé til fjárfestinga. Ekki bara billjónir. Jóhanna Sig hefur kannski haldið það þegar hún neitaði að hitta Kínverjana í gær.


mbl.is Kínverjar vilja byggja lestarkerfi í Skandinavíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágir vextir í Evrulöndum: hugarburður

Jóhanna, taktu eftir þessum fréttum:  Grikkland 30%, Írland 20%. Það eru vextir 2ja ára skuldabréfa þessarra Evrulanda núna. Lágir vextir í Evrulöndum er þvílík mýta að engu tali tekur. Ítalía fer hækkandi, en þar munar um hvert prósent: Ítalska ríkið er skuldugra en Grikkland, Írland og Portúgal samanlagt. 

Hvert skuldabréf hjá hverri  þjóð hefur sitt skuldatryggingaálag og ávöxtunarkröfu. Markaðurinn ákvarðar raunvexti á hverjum stað, t.d. miðað við aðgerðir stjórnvalda. En það er þar sem markaðirnir eru „hreinir“. Nú er talað um „skítuga“ markaði eins og í ESB þar sem búast má við feikna- inngripum pólítíkusa hvenær sem er. Platpeningum er safnað í fjallháa bjargráðasjóði til bjargar jaðrinum, með þeim skilyrðum að þau lönd svelti skattpínd til eilífðarnóns. En fyrir vikið hækka vextir skuldabréfanna,  sem tryggir að þjóðirnar eigi ekki fyrir afborgun skuldanna.

Skortur á sameiginlegri yfirstjórn fjármála Evruríkjanna er vandamálið sem plagar Evruna og er í raun óyfirstíganlegt. Engar líkur eru á því að einstök ríki afsali yfirstjórn  ríkisfjármála til ESB, enda er yfirstjórn alls sem máli skiptir þá komin til Brussel, sem er borg í ríki án stjórnar, Belgíu.

Vandamál jaðarríkja Evrópu hafa færst inn að kjarnanum og nú skerpast línurnar: Frakkland átti að heita innsti kjarni Evrulanda með Þýskalandi, en nú breikkar bilið á milli þeirra tveggja, þar sem Frakkland fylgir Suður- Evrópu í skuldafargani. Eftir stendur Þýskaland með meirihluta þjóðar sinnar á því að Þýska markið verði tekið upp að nýju, í stað þess að moka í bjargarsjóði hrundra ríkja (eins og þýskur almenningur sér þetta). Það vill gleymast að uppruni skuldavandræðanna er einmitt hjá þýskum bönkum, en þeim tókst ætlunarverk sitt, að færa ábyrgðina á skuldunum yfir á einstakar þjóðir með hjálp IMF og ESB.


mbl.is Ítalir láta reyna á skuldabréfasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB: „75% af fiskistofnum okkar eru ofveiddir“

esb_veidilond.jpgNú birti ESB nýja fiskveiðistefnu en staðfestir að sú gamla brást. Sameiginleg fiskveiðistefna ESB hefur verið í gildi í 28 ár, en Maria Damanaki, sem fer með  sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn ESB kveður stefnuna hafa brugðist.  Hún segir:

„Um ofveiði er að ræða: 75% fiskistofnanna eru ofveiddir og samanburður við aðrar þjóðir í þessum málum kætir okkur ekki. Við verðum að breyta okkar háttum. Ég tala hreint út- við höfum ekki efni á að halda lengur áfram eins og ekkert hafi í skorist, vegna þess að fiskistofnarnir hafa virkilega hrapað.“

 

Samkvæmt ESB- framkvæmdastjórninni, þá eru fiskistofnar Miðjarðarhafsins ofveiddir um 82%, en 62% í Atlantshafi.

Tillaga Damanaki er að veiðiflotum verði tryggður framseljanlegur kvóti í amk. 15 ár og brottkast verði bannað.

 

Trúir einhver Íslendingur því að ESB geti núna haldið aftur af stærstu ofveiðiþjóðum sínum (eins og Spáni, sem er í römmum efnahagsörðugleikum), frekar en sl. 28 ár? Í ESB myndi kvóti Íslendinga líklega skiptast á 29 þjóðir, en fiskistofn þeirra sjálfra er hruninn skv. framkvæmdastjórninni sjálfri!

 

En við fengjum þó alltaf möguleika á því að greiða í björgunarsjóð Evruríkja, til bjargar Grikklandi, Portúgal og Írlandi, sem þáðu „björgun“  en eru öll komin í ruslflokk.

 

Sá eða sú sem leggur enn til að Ísland gangi í ESB núna, fylgist ekki með erlendum fréttum, að hætti forsætisráðherranns ykkar.


Sissú

sissu_2010_sigthrudur_palsdottir.jpgSigþrúður Pálsdóttir (Sissú) systir mín og aldavinur lést nýlega af krabbameini. Útförin hennar verður frá Hallgrímskirkju fimmtudaginn 7. júlí kl. 15:00. Hér birti ég í myndaalbúmi nokkrar myndir úr lífi hennar, en fjölga þeim von bráðar.

Hér er gömul videókveðja frá Sissú á Skagaströnd.

Hér er tengill á www.sissu.com (ath.Flash Player gengur ekki í Apple- vörur). Stillið síðan á fullan skjá neðst til hægri í reitnum.

Hér er tengill á UMMIS kynningu á Sissú.

Hér er tilkynning:

Ástkær móðir mín, amma okkar, systir og mágkona

Sigþrúður Pálsdóttir – Sissú myndlistarmaður,
sem lést fimmtudaginn 30. júní, verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju fimmtudaginn 7. júlí kl. 15:00. Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir, en þeim sem vildu minnast hennar er bent á reikn. 137-26-2254 kt. 221154-4449.

Sunna Guðrún Eaton, Frosti Eaton, Freyja Eaton, Freyr Eaton og Max Rúnarsson.

Hlöðver (Jack) Hills

Cindy Hills

Stefán Pálsson

Guðrún Jónsdóttir

Sesselja Pálsdóttir

 

Páll Arnór Pálsson

Ragnheiður Valdimarsdóttir

Signý Pálsdóttir

Árni Möller

Þórunn Pálsdóttir

Þorsteinn Pétursson

Anna Heiða Pálsdóttir

Hilmar Ævar Hilmarsson

Ívar Pálsson

Gerður Thoroddsen


Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband