Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Landsvirkjun: Ísland verði hráefnisland

Verkis KarahnjukarLöngu er orðið tímabært að ríkisstjórnin láti Landsvirkjun setja eigendurna, þegnana í forgang í stað þess að hampa raforkusölu til útlanda eða að hækka raforkuverð ótæpilega, sem kemur verst niður á minni framleiðendum og hinum almenna neytanda. Þessi gróðastefna almannaþjónustu- fyrirtækis dregur úr samkeppnisfærni og frumkvæði landans, þar sem tækifærin eru víða hér með aðgang að öflugri og skilvirkri sameiginlegri raforkuframleiðslu í bakgarðinum. 

Ný stjórn breytti engu

Óskiljanlegt er hvers vegna engin breyting varð á þessari stefnu Landsvirkjunar í að gera Ísland að skattpíndu hráefnislandi við það að skipt var um fólk í stjórninni þegar nýja ríkisstjórnin tók við völdum. Hér ættu neytendur og minni framleiðendur að njóta þess að hagkvæmni stærðarinnar í virkjunum og stórframleiðslu hafi fært okkur enn meiri möguleika en áður. Rafbílavæðing yrði líka enn auðveldari.

Óheillaþróun

Engin ástæða er til þess að hækka raforkuverðið, enda stefnir í methraða í því að greiða niður skuldir Landsvirkjunar til skuldleysis innan fárra ára. Mikill arður fyrirtækisins virðist einungis færa því meiri völd til þess að fóstra draumana um hráefnislandið Ísland á kostnað okkar þegnanna. Þessi ríkisstjórn hefur ennþá tvö ár til þess að snúa þessari óheillaþróun við.


mbl.is Orkan hækkaði um 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill sóa 48 mkr. á dag næstu 5 árin!

Botnlaus hitÉg hélt að Elín Hirst væri ósammála utanríkisráðherra af því að hann vildi auka við þróunaraðstoð. Nei, hún vill víst ríflega tvöfalda sóunaraðstoðina! Samfylkingin náði að tvöfalda vitleysuna áður og vildi festa enn meiri aukningu inni. Þá berst þessi liðsauki í það frá Sjálfstæðisflokknum.

Krónur, ekki prósentur

Upphæðirnar í þessa eilífðarhít eru hrikalegar, allt í nafni gæskunnar en mest af þessu mokast í stofnanir annars vegar og spillingu hins vegar. Nú nægja 4500 milljónir á ári víst ekki til þess að friða þennan Fenrisúlf, heldur á að fara upp í 7,5 milljarða króna á ári innan nokkurra ára. En það nægir ekki vinkonu minni Elínu Hirst, sem vill fara með þetta í 17,5 milljarða á ári, eða 48 milljónir á degi hverjum.

Út um jarðir

Þarna hljótum við að vera ósammála. Hver sá sem kynnir sér þyrludreifingu þessarra seðla hlýtur að sjá að skilvirkni aðstoðarinnar er hverfandi. ESB og SÞ keppast við að samþykkja hina og þessa prósentuna af brúttótekjum þjóða til þess að viðhalda sér sjálfum og þeim innri hring stofnana- elítu sem kýs hvert annað í margmilljóna skattfrjáls störf á mánuði með þjón og kokk, í leit að fólki í Afríku sem dettur í lukkupottinn í það skiptið. 

Moka áfram?

Á meðan eigum við víst að taka erlend lán (eða að draga að greiða Hrunlánin upp) og moka í þessa draumahít pólitíkusanna, þar sem auðvelt er að ná til fólks í gegn um barnstrú þeirra og gleyma raunstöðunni á Íslandi, með öllum sínum spítala- harðindum og verkföllum. Þessi þróunaraðstoð er sannarlega barn síns tíma og henni ber að ljúka. 

PS: Úr Samþykkt Sjálfstæðisflokksins 2015: Gera þarf ýtrustu kröfur um skilvirkni, bókhald og eftirlit með öllum þáttum þróunarsamvinnu.


mbl.is Vill hærri framlög til þróunarsamvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valtarinn heldur áfram

Valsmenn grunnur HlidarendiÓheillastefnu Dags & Co er fram haldið. Þorrasel verður flutt. Hofsvallagatan og Grensásvegur fá hundruð milljóna króna áfram til skemmdar á þeim. Valsmenn grafa grunna að húsum við brautarenda flugvallarins. 120 milljóna miðasölusbygging í Fjölskyldugarðinum kemur í stað skúrsins. Bílastæðunum í miðbæ og við Borgartún snarfækkar en þörfin rýkur upp með nýjum hótelum. Meingallað nýtt Aðalskipulag Reykjavíkurborgar og ónothæft Hverfaskipulag krauma undir okkur eins og eldgos sem bíður færis.

Valtari DeviantArtHægt er að halda svona áfram, en ég vil að við notum frekar tímann til þess að njóta þess sem við höfum, áður en borgarstjórinn tekur það í burtu.


mbl.is Ekki hætt við flutning Þorrasels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband