Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Valdníðsla í þéttingu byggðar

Langir skuggarYfirgangur Dags & Co í þéttingu byggðar er með ólíkindum, þar sem íbúar hverfanna ráða engu. Nú er Eikjuvogur rakið dæmi, þar sem vilji íbúanna er hundsaður að vanda og Borgarráð treður stórri byggingu beint sunnan við nágrannann, svo að sólar nýtur lítið mestallt árið og daginn, sem veldur depurð. Að auki er bílastæðavandamáli bætt við.

Réttur til birtu

Það er lágmarkskrafa að skipulagsyfirvöld virði rétt fólks til þess að njóta birtu í húsum sínum, sem byggð voru hér á norðurhjara með ákveðnum forsendum í skipulagi, enda eru skuggar langir. Vinstri meirihlutinn býr viljandi til stórvandræði á þennan hátt og tekur nákvæmlega ekkert tillit til vilja þeirra sem hverfið byggja.

Við búum á 64° norður

Nógu vitlaust er að hanna heilu nýju hverfin eins og þau séu á breiddargráðu Kaupmannahafnar, en að troðast inn í gróin hverfi með þennan yfirgang er ekki í lagi og á ekki að líðast. Borgin skapar sér skaðabótaskyldu með valdbeitingu sinni, sem við sem heild þurfum að eiga við í réttarsölum síðar, algerlega að nauðsynjalausu. Byggingar á auðum lóðum eiga að fylgja nákvæmlega sömu forsendum og aðrar í nágrenninu.

Íbúarnir kusu þennan yfirgang yfir sig, en hafa tækifæri til þess að breyta því í vor.


mbl.is Borgarráð samþykkir umdeildar byggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjóra með breytingar

2blaarOrvarLeiðtogi Sjálfstæðisfólks í borginni þarf að standa fyrir breytingum sem bæta líf borgarbúa. Kjartan og Eyþór stefna á það, án þess að sóa fé í Borgarlínu, leggja niður Reykjavíkurflugvöll, ganga gegn Landsfundar- samþykktum flokksins eða að framfylgja óbreyttu Aðalskipulagi vinstri meirihlutans í Reykjavík. Valið stendur á milli þessara manna, sem gætu leitt Sjálfstæðisfólk til sigurs í vor. 

Val á milli tveggja kosta

Þörf er á verulegri ákveðni til þess að taka á sjálfsköpuðum vandamálum Dags borgarstjóra í borginni og strengjabrúðu hans,  Jóni Gnarr þar á undan. Það gerist ekki með þjónkun við þann vinstri meirihluta sem komið hefur borginni á kaldan klaka svo að um munar. Eyþór eða Kjartan geta og vilja taka á þessu. Hvor þeirra er líkegri ræðst af atkvæði þínu. 

 


mbl.is Kosning hafin í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bæta heiminn en klúðra málunum heima

Vatnsdropi i vatnEndurtekin mengunarmistök borgaryfirvalda halda áfram, sérstaklega klóakið sem flæðir enn í Skerjafjörð. Fólk heldur að því sé lokið, en öðru nær, allt fram streymir endalaust. Við bætast síðan annars konar mistök borgarinnar, nú varðandi fyrirbyggjandi eftirlit með neysluvatni og tilkynningar um frávik.

Markvissar aðgerðir

Þar ætti að bregðast við um leið og eitthvað er að, láta vita um hvaða gerla er að ræða og í hvaða magni. Tilkynningar um þetta koma seint og síðar meir, eru villandi og aðgerðirnar ómarkvissar. Fullvissan um hreint vatn er verulega skert og ímyndin sködduð vegna tómlætis. Enn vitum við ekki um hvaða gerla er að ræða og í hvaða magni í sýnunum. Það skiptir reginmáli varðandi mótaðgerðir, ef einhverra er þörf.

Klóakið flæðir

En klóaksmálið er ekki bara eitthvert slys. Það er uppsafnað ástand, jafnvel árum saman, en nær svo hátindi þegar dæla bilar. Þótt fimm til sex flutningaskip séu ekki látin fljóta í Skerjafjörð í einu í dag eins og þá daga, þá flýtur augsýnilega vel út í fjörðinn nær daglega. Það nær kannski að halda rottufaraldrinum við, hver veit? Allavega líkar 300 mávum það ágætlega.

Borgarstjórinn er bara upptekinn við að kæla loftslag heimsins.

 


mbl.is Engin vísbending um E-coli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra skrefið afturábak

RaudurHnuturFrosti Sigurjónsson bendir réttilega á fáránleika Borgarlínunnar. Ekki sé ég glóru í því að amk. 80% vegfarenda fórni fé og tíma í það að 5% fjöldans nái tvöföldun, sem kosti 100 milljarða króna og tap í viðbót á hverju ári eftir það. Augljós hugsanavilla felst líka í því að nokkrar mínútur líði á milli vagna, þar sem fjöldi notenda þyrfti að vera verulegur svo að sæmileg nýting fengist, en sú eftirsóknar- sprengja er ekkert á leiðinni. 

Allt fyrir hugsjón Dags

Dagur Bergþóruson Eggertsson borgarstjóri ætlar að ná hugsjóna- markmiðum sínum með því að þvinga bíleigendur inn í strætó á leið frá A til B, í stað þess að laga vegi fyrir umhverfismilda bíla, sem fara skjótt á milli staðar A, B, C og að sjálfsögðu D! Þessum svimandi upphæðum Borgarlínunnar yrði betur varið í að bæta flæði og öryggi vegakerfisins, sem gefur þá líka færi á því að stuðla að hagkvæmum ferðum almenningsvagna, ekki í einhverju aflóga dínósórakerfi.

Vonast er til að fólk fari að skera á þessa Borgarlínu, áður en hún breytist í hengingaról.


mbl.is Ekki á leið í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband