Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Blásið í Borgarlínulúðrana

Enn ein staðfestingin á fylgni forystu Sjálfstæðisflokksins við Borgarlínu barst með Morgunblaðinu í morgun, þar sem Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi ítrekar afgerandi stuðning við hana og að þörf sé á fjölbreyttum samgöngukostum, þar sem ungt fólk líti á bifreiðina sem aðeins einn kost af mörgum í samgöngumálum. Þar virðist þó gleymast, að ¾ ferða í Reykjavík eru farnar á bílum, sem stendur ekki til að breytast.

„Einstrengingsleg nálgun“

Augljóst er að konur í yngri kantinum innan flokksins eru búnar að sammælast um það, að leiðin til aukinna áhrifa um málefni Reykjavíkur náist með því að staðfesta áfram skipulagsslysið Borgarlínu og að vinna með Samfylkingunni að uppbyggingu rándýra strætókerfisins, í stað nýrri tæknilausna sem nýta götur og vegi. Hildur segir m.a.: „Við náum takmörkuðum árangri með einstrengingslegri nálgun á menn og málefni…“. „Við þurfum að vera það mikilvæga sameiningarafl sem leiðir saman ólík sjónarmið“. Þessi lina afstaða gagnvart vinstri flokkunum vegna Aðalskipulags Reykjavíkur hefur verið dragbítur á gengi flokksins í fjöldamörg ár og skapað það eymdarástand sem nú ríkir.

Kosin gegn Borgarlínu

Bara straetoFjöldi kjósenda sem kusu flokkinn síðast í borginni, gerði það í þeirri trú að Sjálfstæðisflokkurinn stæði gegn Borgarlínu, afstaða sem oddviti hans ítrekaði á fundum og í fjölmiðlum. Heilu hverfin hefðu tæpast kosið flokkinn ef fylgnin við ofurstrætókerfið hefði legið skýr fyrir. Stuðningur hverfa og alls landsins utan mið- og Vesturbæjar Reykjavíkur við bílinn og uppbyggingu vegakerfis er afgerandi, sem kemur skýrt fram í könnunum.

Kjósið til breytinga

Íbúar Reykjavíkur sem blöskrar hvernig keyra á fjárhag borgarinnar í þrot með óendanlegri sóun í afdankaða hugmyndafræði fortíðarinnar ættu að krefjast þess af fólkinu sem það kýs til almannaþjónustu að það breyti áætlunum um Borgarlínu í ódýrari, nýmóðins kerfi sem taki mið af breyttum tímum og aðstæðum.


mbl.is Hvatar til að draga úr umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðung, ekki valkostur

Trodast i bilinnVeruleg vonbrigði urðu við lestur greinar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, „Fröken Reykjavík“ í Morgunblaðinu í dag, þegar kom að samgöngumálum í borginni. Annað í greininni var úr þeirri ágætu frelsisátt sem vonast var eftir, en forðast var að minnast á Borgarlínu eins og hún væri Valdemort í Harry Potter.

Bjóða beri upp á valfrelsi, óháð því hvort íbúar velji að ferðast með bíl, strætó eða á hjóli. „Það gerist ekki með þvinguðum samgöngumáta, heldur vönduðu skipulagi þar sem ýtt er undir valfrelsi borgarbúa“. Fólk komist á milli staða á þann máta sem hentar þeim best. „Það felur vissulega í sér uppbyggingu á innviðum, svo sem almenningssamgöngum, hjólreiðastígum og vegum. Þá er ekki hægt að undanskilja einn samgöngumáta á kostnað annars.“

Rými er takmörkuð gæði

Þarna liggur hundurinn grafinn. Þorri borgarbúa (75%) kýs að ferðast með bílum, 4% með ofurniðurgreiddum Strætó, en reiðhjóli eftir árstíðum. Metsala er í nýorkubílum, sem eykur hlutfall þeirra. Samt verða þeir ferðalangar þvingaðir í æ þrengri rásir veganna, því að stefnan er að þröngva Strætó upp á fólk með illu, með ofboðslegum kostnaði og umferðarstíflum. Valkostur fjöldans er hunsaður, en hugmyndafræði 4% elítunnar dásömuð.

Ekkert val

Hvernig fær fólk með frelsisást sig til þess að samþykkja þessa afarsamninga Borgarlínunnar? Ekkert gengur upp, kostnaður, reynslan, markmið, hvaðeina. Valkostur nýorkubílanna gleymist algerlega. Vetnisvæðing Íslands verður sannarlega ekki að veruleika á þennan hátt.

Herkostnaðurinn við það að stjórna með sósíalistum er alltof hár, fyrst þetta er niðurstaðan úr „samstarfinu“. Áslaug Arna, komdu okkur út úr Borgarlínufárinu með góðu eða illu. Annars verður Fröken Reykjavík gjaldþrota og fer á sósíalinn.


mbl.is Uppbygging á grænni borg fyrir 300 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bremsulaus Borgarlínustrætó

Old busÞví miður brást Sjálfstæðis- flokkurinn algerlega og stimplaði Borgarlínu fram og til baka, í ríkinu, borginni og nærliggjandi sveitarfélögum, þrátt fyrir fagrar fullyrðingar um annað á liðnum árum. Fyrir vikið er stærsta fyrirstaðan farin og nú fara krónu- milljarðarnir að streyma í átt til fáu prósentanna sem aldrei fyrr, eftir tíu ára æfingatímabil í Strætó- sóuninni.

Ætt áfram

Ekki dugði Hrunið og heimsfaraldur til þess að opna augu fólks fyrir því, að Strætó sé úrelt fyrirbæri, hvað þá að samgöngufé eigi ekki að ausa í nokkrar manneskjur, heldur að dreifast til fjöldans sem skóp það, almennings á fjölskyldubílum. Þetta eru óheyrilegar upphæðir á hvern þann sem álpast upp í tap- kassabílana stóru. Nær væri að afhenda fólki á biðstöðvum ávísanir, sem duga í ferðir með nýorku- leigubílum, samt yrðu tugir milljarða króna eftir til skiptanna og göturnar frjálsar áfram. Þetta er eins og ríki og borg leggðust á eitt, eftir að allir voru komnir með internetið, að borga þeim fúlgur fjár sem vildu hætta því og nota telefax og halda því kerfi við með ærnum tilkostnaði.

Fé til fárra

Ef allt það fé, sem fer í Strætó, framkvæmdir vegna hans og taprekstur þess kerfis næstu 20 ár yrði tekið saman, fengjust milljarðatugir sem fleygt gætu nýjum kerfum í samgöngum langt fram, þótt talið yrði með að allir fjögur- prósent farþegarnir fengju jafnmargar fríar ferðir og þeir hefðu farið með Strætó/Borgarlínu.

Annars er þessi bremsulausi strætó kominn á fullt og ekkert í augsýn sem megnar að stöðva hann.


Aðgerðir strax, neyðin kallar

KoronaveiraÍsland má ekki við því lengur á þessari ögurstundu að vera taglhnýtingur Evrópusambandsins í samningum um bóluefni vegna kófsins. Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra hefur verið leyft að láta okkur dingla í ESB með smánarkvóta bóluefnis seint og illa í mesta klúðri þeirra allra tíma, með þeim afleiðingum að samningar við Pfizer um ókeypis bóluefni fyrir meginþorra okkar á 2-3 vikum renni okkur úr höndum. Hafi einhvern tíma verið ástæða til þess að virkja neyðarrétt í samningum Íslendinga, þá er það núna gagnvart ESB, þegar líf eða heilsa sannarlega hundraða manna eru lögð að veði.

Andstæðir hagsmunir

Hagsmunir ríkja ESB og Íslands fara engan veginn saman í þessum samningum. Stórkostleg neyð sumra þeirra, eins og Portúgal núna, kallar á allt það bóluefni sem fáanlegt er í gegn um ríkjasambandið. Neyðarréttur þeirra væri að benda á smitleysi Íslendinga til þess að fresta enn frekar afhendingum hingað. Alveg öruggt er að við komumst ekki framarlega í þeirri eilífðarröð sem ESB skóp með skipulegu vanhæfi sínu. Sambandið samþykkir ekki bóluefni frá framleiðanda mánuðum saman og segir það ekki almennilega rannsakað fyrir eldra fólk, á meðan ESB heimtar að framleiðandinn standi við afhendingar í samræmi við samninginn sem var gerður í upphafi!

Stígum niður fæti

Sannað þykir að jafnvel dómur Hæstaréttar fær ekki Svandísi Svavarsdóttur til þess að framkvæma rétt sem ráðherra, þegar hún neitaði að staðfesta þær samþykktu virkjanir sem hefðu fært Suðurnesjum orku til athafna forðum. Nú verða samstarfsflokkar VG, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur að sýna þann dug að heimta gerð Kárasamningsins við Pfizer, þótt það þýði að ömurlegu bóluefnasamningarnir við ESB fari upp í loft fyrir vikið. Nýjar og verri útgáfur kórónuveirunnar mega ekki ná fótfestu hér. Ekkert sleifarlag, lífið liggur við.


mbl.is Ekkert hæft í þrálátum orðrómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband