Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Sögur úr sveitinni: Á leið í sveitina

Sex ára strákur kvaddi bljúgur móður sína á Bifreiðastöð Íslands á leið í sveitina í fyrsta skipti.

Fatainnkaupum lauk daginn áður. Ómissandi svartir gúmmískór, gráir ullarleistar, hnausþykk dökkgræn regnkápa með hettu og regnbuxur í stíl, beislitar síðar stingandi ullarnærbuxur og álíka hlýrabolur voru komin ofan í lúna tösku með trélistum og smellum, ljósgrænn Geysispoki úr galloni hélt utan um aðrar nauðsynjar eins og nýju dökkbláu gallabuxurnar með margfalda uppábrotinu, sem voru stífar eins og spelkur og rauðköflótta ameríska verkamannskyrtu, hún var flott í stíl. Verst að bangsinn fékk ekki fararleyfi. Hann hafði látið verulega á sjá í síðustu norðurferð, þegar ég ældi yfir hann eftir sex tíma ferðalag í bíl, þar sem pabbi og bróðir minn reyktu London Docks vindla í ameríska kagganum á holóttum malarveginum alla leiðina norður án þess að skeyta nógu vel um að opna reykgluggana að framan. Pabbi sagði af því tilefni: „Skrýtið með hann Ívar, hann verður alltaf svo bílveikur!“

Ég fer í sveitinaÞarna stóð ég á björtum maídegi á BSÍ, kyssti mömmu bless og steig upp í Norðurleið, sem stefndi á Akureyri. Ég fékk sæti fremst vegna bílveikinnar. Aftast sátu ungmenni og stórreykingafólk, sem hossaðist í reykjarmekki sínum á leiðinni.  Ferðin til Blönduóss tók um sex klukkutíma, en ég spurði bílstjórann næstum því í hvert skipti þegar á leið og stöðvað var við brúsapall: „Erum við núna rétt hjá Blönduósi? “ Loks stóð ég við BP sjoppuna á Blönduósi með töskuna góðu og Geysispokann við hlið mér og beið hljóður eftir því að vera sóttur. En tíminn leið og beið. Rútan og aðrir ferðalangar voru á brott og enginn rykmökkur í nánd. Hálfkjökrandi gekk ég inn og staðarhaldarinn hringdi fyrir mig l-a-a-a-ngt, l-a-a-a-ngt, stutt með símasveifinni á bæinn Tinda, þar sem viðmælandi sagði að náð yrði í mig. Óratími leið en um síðir renndi Austin Gipsy jeppi upp að mér, maðurinn undir stýri sagði fátt og við brunuðum að einhverju plani á Blönduósi. Þar settist annar maður undir stýri, gaf í og snarbremsaði nokkrum sinnum og kveikti á þurrkum og ljósum þarna um miðjan heiðbjartan dag. Síðan teygði hann sig í hægra neðra hornið á framrúðunni og setti límmiða innan á rúðuna: 1964. Bíllinn taldist þá skoðaður af Bifreiðaeftirlitinu og ég fékk far að Tindum í Svínavatnshreppi.

Þá tók við þriggja mánaða sumardvöl mín í sveit, eins og hjá öðrum systkinum mínum, til þess að átta barna foreldrar mínir gætu um frjálst höfuð strokið þar til skólar byrjuðu að hausti.


Sögur úr sveitinni: Skaftafellsboli

Ellefu ára stráki fannst spennandi þegar kýrin var leidd undir nautið. Bolinn sem hafði húkt einn og kyrr í myrkri torfkofans í gamla Selbænum svo mánuðum skipti, var leiddur út í köðlum og beint upp á beljuna. Tækist þetta? Færi skotið út í loftið? Tudda fórst þetta frekar óhönduglega, klöngraðist upp á kusu og reyndi að fjölga nautgripakyninu. Eitt andartak sást bleikur risablýantur skjótast fram og Ragnar bóndi fylgdist vel með. Beljan var brothætt á að líta undir þessu trölli. "Nei, nei, hann klúðrar þessu"! Eitthvað misheppnaðist, tuddi fór á taugum og missti þetta hálfpartinn út í loftið.Selid i Skaftafelli

Nokkru síðar fékk boli annan möguleika á að sanna tilgang sinn. Í þetta sinn var gengið hreinlega til verks og hann gat verið stolt naut. Þá fannst honum biðin langa örugglega hafa verið einhvers virði.

En síðar kom að uppgjörsdögum, því að nú átti að slátra karli. Aflífunin fór fram í gripahúsi torfbæjarins, þar sem strekkt og verkuð selskinn voru á tréhlerum allt í kring. Hver hafði sitt hlutverk. Ragnar bóndi mundaði kindabyssuna, forna skammbyssu sem tók eitt skot í einu og skotpinna sem dreginn var aftur. Aðrir héldu í kaðla sem bundnir voru um gripinn. Ég hélt í einn slíkan sem kræktur var í járnhring í gegn um nef tuddans. Einnig var mér fenginn bali til þess að fanga blóð með. Þarna stóðum við spenntir hjá tuddanum þegar Ragnar bar byssuna að enni hans og skaut. Nautið kiknaði við, en fyrtist síðan verulega við, eins og við það að skynja að endalokin væru í nánd. Aftur var skotið, en ekkert dugði. Bóndi var nú skotlaus og þurfti að ganga til síns bæjar að ná í fleiri skot. Á meðan héldum við í tryllt nautið í tíma sem mér fannst vera heil eilífð. Þriðja skotið felldi bola. Hófst þá Sláturhúsið Hraðar hendur. Höfuðið fauk af með sveðjuhnífi. Þá átti ég að standa mig, en náði vart neinu blóði í balann, því að tuddi barðist um hauslaus í dauðateygjum og blóðbunurnar gengu út í loftið úr aðalæðum þykka svírans. Loks var bola kippt á afturlöppunum upp í rjáfur. Þá náðist í blóð að ráði. Nautið var flegið strax, en mér krossbrá í hver sinn er kippir komu í dýrið, eins og það færi af stað aftur. Hausinn starði tómlega út í loftið. Borgarbarninu reyndist þetta mögnuð stund.

Nautaati var lokið, en dagar nautaáts voru í vændum, t.d. steik, gúllas og enskt buff með spæleggi. Allt var gott í sveitinni.


« Fyrri síða

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband