Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Mynd: Kona í Víetnam með strák

Þessi mæðgin eru sætust af öllum. Vinalegi sonurinn sem veifar til okkar fékk að sitja fyrir framan á vélhjólinu, sem er aðalfarartækið í Hanoi. Glæsilega sperrta mamman virðist á leið til vinnu þennan morgun, snyrtilega klædd.

Kona i Hanoi med barn


Mynd: Kona með ungbarn í Kaíró

Það er gaman að renna yfir þessar yfir 15.000 myndir sem ég hef tekið. Nú var ég að taka myndir af slides myndum. Þessi ekki skýr, enda tekin hratt í gegn um rúðu en segir margt. Hálf- vonlaust var fyrir mig að komast gangandi yfir götuna, en unga konan sveif yfir með ungabarnið, þar sem löng bremsuför eftir trukka sýna aðstæður. Ýta þarf þrisvar á myndina.

Kona i Kairo med barn

 

 


Mynd: Sólarlag á Hawaii til samanburðar

Áðan tók ég og sýndi mynd úr Skerjafirði. En hér er ein sem ég tók af sólarlaginu úr hótelíbúð á jólum á Hawaii, þar sem sólin hrapar hratt í sjóinn.

Solarlag Hawaii


Mynd: Sólstafir að hausti

Ég tók þessa mynd áðan, sem sýnir haustið koma með norðanvindinum yfir Skerjafjörð.  Ýtið þrisvar á myndina  til þess að fá fulla stærð.Solstafir ad hausti

Meira af Matadorpeningum!

Seðlabankar heimsins keppast við að bæta nógu mörgum núllum fyrir aftan tölurnar á tölvum sínum til þess að verðbréfafyrirtæki heims geti haldið áfram að selja lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum loforð sem byggjast á engu, nema voninni um að tiltrú almennings á þessi ávísanakerfi haldi áfram örlítið lengur. Loksins þegar skynsemin grípur meirihluta fjárfesta og þeir yfirgefa áhættusöm keðjubréf í áttina til traustari eigna, þá ausa seðlabankarnir karamellum yfir allan markaðinn.

Flest fólk í viðskiptum hér á landi eru það tengt innbyrðis, með sameiginlega hagsmuni, að svona aðgerðir, hversu rangar sem þær geta verið, eru varðar út yfir gröf og dauða.


mbl.is Seðlabanki Evrópu setur 269 milljarða evra inn á lánamarkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullfiskur í hákarlalauginni

Framboðið Íslands til setu í Öryggisráði SÞ í tvö ár kostar amk. hálfa milljón fyrir hvern dag sem Ísland ætti sæti í ráðinu. Við öfluðum okkur ekki vina með setu í ráðinu, heldur þvert á móti yrðum dregin í dilka eftir því sem hentaði stórþjóðunum fimm með neitunarvaldið. Málefni ráðsins eru um 70% vegna Afríku, þar sem spilltir einvaldar, olíu- og ættbálkastríð tróna hæst, en Mið- Austurlönd taka nærri því allan hinn hluta tímans. Þegar listi þeirra mála sem ráðið tekur fyrir er skoðaður, þá er þar fátt sem er í nokkru samhengi við áherslur utanríkisráðherra í þessu máli. Mannúð og mannréttindi eru ekki á lista stærstu vopnaframleiðanda heims, enda er talað þar í ráðinu fyrir daufum eyrum. Ingibjörg Sólrún yrði eins og gullfiskur í þeirri hákarlalaug.

NordurIshaf GoogleEarthÁ Norðurpólinn, ekki í hitabeltið 

Í stað þess að eyða enn meiri tíma, orku og peningum okkar í eilífðarátök Afríku, þá ætti utanríkisráðherra að einbeita sér að stóra máli Íslands núna, hafréttarmálum, á áhrifasvæði þess, Norður -Íshafinu. Fylgjum frændum okkar Norðmönnum í þeim málum, styðjum viðleitni þeirra og fáum hlut af  stóru kökunni þar. „Hæg eru heimatökin fyrir Haarde", eins og sagt verður eflaust síðar. Tímasóun Ingibjargar Sólrúnar í hitabeltisriflildi er veruleg. Utanríkisráðherra fær þar útrás fyrir samræðuþörf sína, á meðan hún ætti að vera að funda með fámálum norðanbúum um tækifærin sem leynast í hraðri bráðnun Norðurpólsins.


mbl.is Ólafur Ragnar talar fyrir framboði Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir úr fjallaferðum

Áhugafólki um íslenska jökla og fjöll þykir kannski Hvannadalshnukurgaman að skoða tengil um fjallaferðir okkar, t.d. á Hvannadalshnúk, Drangajökul, Eiríksjökul, Eyjafjallajökul eða Baulu. Fastur tengill er alltaf hér niðri til vinstri, Fjallaferðir ÍP. Athugið að neðst á hverri síðu er síðunúmerið, 1,2,3 sem opnar næstu síðu af myndum. Myndirnar eru yfirleitt í gönguröð.

Félagi minn, Stefán Bjarnason, er núna með góða bloggsíðu um slíkt, sem vex með degi hverjum. Hér er tengill beint inn á albúmin hans. Annar góður, Gunnar Þórðarson að vestan, segir frá þannig ferðum á bloggsíðu sinni, en er núna flatlendingur á Sri Lanka. Hér er albúmið hans.

Það er frábært á fjöllum!


Dulúð á Reykjanesi

Keilir flýtur um í þokunni núna áðan. Smellið tvisvar á myndina til þess að ná fullri stærð.

Keilir á Reykjanesi í þokunni


Sögur úr sveitinni: Kötturinn og nautið

Tveir kettir voru á Tindum. Annar var rólegur og gælinn en hinn, þessi bröndótti, var að mínu skapi. Hann fældist mannfólkið og var mér þannig uppspretta fjölda ævintýra Bröndóttur köttur (Jón Baldur Hlíðberg) þegar  ég reyndi að ná honum, þó með þeim afleiðingum að hendurnar mínar voru útklóraðar. Ég varð að finna góða leið til þess að ná honum. Loksins datt ég niður á lausnina. Bréfsnifsi var bundið í endann á löngu bandi sem ég hafði merkt með hnútum á eins faðms bili til þess að sjá lengdina, þegar ég dró það hægt fyrir hornið á bóndabænum. Þessa freistni stóðst kötturinn ekki. Kattareðlið dró hann að „músinni" og mér. Þegar lítið eitt var eftir af bandinu og hann kom fyrir hornið, klófesti ég tígurinn Brand, svo að bættist í klórmynstrið mitt. Þá var ég með hann tilbúinn í gamanið, sem framundan var.

Mikill músagangur var í hlöðunni. Ragnar prakkari, jafnaldri minn, fangaði tólf þeirra og tókst að smeygja þeim lifandi innan í Esso olíubrúsa úr málmi, með loftgötum. Ég fór með Brand hinn fælna út á tún og Ragnar hélt músabrúsanum skammt frá. Mús (Jón Baldur Hlíðberg, Ísl. Spendýr)Kötturinn fann lyktina, heyrði eflaust einhver hljóð og æstist upp. Við veltum því fyrir okkur hvort einhver músanna myndi lifa það af að verða sleppt út á túnið hjá kettinum, en við þurftum ekki að íhuga það lengi. „Sleppum músunum!" kallaði ég til Ragnars.  Þær fyrstu kíktu út, en síðan ruku allar af stað, hver í sína áttina. Ég lét Brand lausan og sá var snar í snúningum! Hann vissi að tækifærið var einstakt og dvaldi ekki yfir hverri mús, heldur rauk á eina, svo þá næstu, þar til engin hreyfing sást, allt á augabragði. Þetta var hámark spennunnar fyrir okkur pjakkana, sem dáðust að herkænsku þess bröndótta á hástundu þessa kattalífs hans.

Næsta spennuatvik okkar átti sér stað vegna stríðni Ragnars við nautið mikla. Í hvert sinn er hann hafði mokað flórinn undan kúnum og síðan nautinu á morgnana, þá söng hann hástöfum  „Ó, Sóle Míó" skrækum rómi yfir bola, sem fann söngnum allt til foráttu og rykkti í keðjurnar til þess að reyna að losa sig. Þar kom að því að bolinn yrði leiddur út á tún á aflokað svæði nálægt bænum með gaddavírsgirðingu í kring, nema læk á eina hlið. Skömmu síðar stóðum við Ragnar hjá gaddavírnum og hann manaði mig til þess að fara innfyrir og stríða flykkinu. Ég þorði því ekki, svo að Ragnar smeygði sér varlega í gegn og gekk í átt til tudda, sem lét sér fátt um finnast, upptekinn við ferska töðuna. Þá leit Ragnar yfir til mín og söng „Ó, Sóle míóóóó" af hjartans lyst. Hann náði ekki að sjá skjót viðbrögð tudda, sem virtist tengja allt í einu, setti undir sig hausinn stóra og þeysti af stað í áttina til stráksa. „Ragnar, forðaðu þér!", æpti ég. Ragnar hljóp eins og fætur toguðu að læknum til þess að forða sér með dýrið á hælunum. Hann tók undir sig stökk og sveif yfir lækinn, en brjálaður tuddinn snarstöðvaði á brúninni og fnæsti óðum.

Ragnar sýndi nautinu ávallt tilhlýðilega virðingu eftir þessa raun.

 


Viljum við jöfnuð í raun?

Ef allir heimsbúar væru jafnir og lifðu nákvæmlega á algengasta íslenskan hátt, þá entust gæði jarðar í nokkra daga og heimurinn fylltist af rusli og mengun. Ef við viljum færa okkur niður á það neyslu- og hegðunarplan sem jörðin þyldi örugglega með slíkum "íslenskum" jöfnuði, þá væri það óásættanlegir lifnaðarhættir fyrir lang- langflesta Íslendinga. Því er ljóst að við veljum okkur stað nálægt efsta hluta neyslupýramídans, en gerum ráð fyrir að pýramídinn haldi sér, því ef hann væri flatur og allir hegðuðu sér eins, þá værum við öll búin að vera.

Við viljum ekki jöfnuð, heldur ímyndina um jöfnuð. Henni er viðhaldið til þess að halda fólki þar sem það er.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband