Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Freistnivandi Framsóknar

Aedislegur

Freistnivandi Framsóknar verður meiri eftir því sem sól hennar rís hærra. Ef hún hækkar frekar gæti Framsókn freistast til þess að taka samtíning framboða með sér í stjórn í stað þeirrar styrku stjórnar sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur væru líklegastir til þess að mynda eftir næstu kosningar.

Hvaða flokkur annars? 

Samfylkingin sannaði vanhæfni sína ærlega og aðalstefnumálið er ekki á dagskrá hjá flestum Íslendingum. Vinstri græn náðu að setja brennimark sitt á Ísland, svo að undan svíður. Fjöldi annarra framboða næði ekki að smala köttum til athafna frekar en Samfylkingin gerði. Þau vonast eftir oddaaðstöðu, hvert fyrir sig. Þannig gætu týpur ráðið á örlagastundu eins og Þráin Bertelsson og Þór Saari gerðu á núliðnu þingi.

Hvert leita hópar? 

Athyglisvert er hvert áhrifamikill hópur leitar, en það er HMHH: Hámenntaðir- Miðaldra- Hátekjukarlar á Höfuðborgarsvæðinu. Þessi hópur er einn sá áhrifamesti, aðhyllist ESB og sérstaklega Evru. Stærstu félögunum eins og SA,SI og Viðskiptaráði er stjórnað af þessum hópi. Síðustu ríkisstjórnir voru þeim að skapi, með Evrópumálin ofar öllu. Þeir fyrtust við staðfestu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins gegn ESB- umsókninni, en sækja hart á fyrir kosningar. Kannski leita þeir að lokum yfir í Framsókn, eða þar til Sigmundur Davíð segist munu slíta ESB-viðræðum strax? En varla gerir hann það, þar sem Framsókn líkar fylgisaukningin. 


mbl.is Framsókn með 28,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kýpur- Evra með gjaldeyrishöftum

EURO Cyprus pulling

Á Bloomberg var bent á að Evra í höftum, eins og núna á Kýpur, er í raun annar gjaldmiðill, fyrst hann er ekki nýtanlegur og skiptanlegur að vild. Hann fær því annað gengi í raun, þar sem eftirspurnin er langt umfram framboðið. Kýpur- Evra er þá orðin staðreynd.

En skuldirnar eru núna greyptar í stein í gjaldeyri, því að þrenningin (AGS/ECB/ESB) náði að þröngva banvænum björgunarpakka upp á Kýpur, áður en landinu bæri gæfa til að koma með neyðarlög að íslenskum hætti, sem var að vísu mjög erfitt þar sem þau höfðu ekki sinn eigin gjaldeyri. Þannig að þó að Kýpur færi út úr Evrunni núna til að bjarga sér, þá eru skuldirnar fastar í rammþýskri Evru.

Miðlarar halda því fram að Evran, sem er á gengi um 1,28 USD/EUR núna sé tvennslags. Annars vegar Norður- Evra með gengi um 1,70 og síðan Suður- Evra með gengi um 0,90 USD/EUR og fallandi. Bilið er alltaf að breikka og er óbrúanlegt.

Sá samruni bankamála Evrulanda sem koma á kerfum þeirra 17 landa til bjargar verður æ fjarlægari sósíalistadraumur eftir því sem nær dregur í þeirri aðgerð. Krafist er sameiginlegrar fjárlagagerðar Evrulandanna að auki, þannig að fyrir liggur að núverandi Evra á sér ekki framtíð í því formi sem hún er. Þörf er algerrar umbyltingar á grunni Evrunnar, en það yrði pólitískt sjálfsmorð ríkisstjórna Evrulanda.


mbl.is Vonast eftir betri efndum á Kýpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að afgera 4 ár

DonW bakpoki

Ný ríkisstjórn þarf drjúgan tíma í að afgera afglöp ídealistanna sl. 4 ár, sérstaklega snilli þessa síðustu daga, þar sem lagahnoði er þröngvað í gegn um Alþingi með hrossaprangi í framlengingu. Ef Samfylking eða Vinstri græn komast aftur í að kjötkötlunum í maí, þá mun sá flokkur (báðir komast ekki að) gera allt til þess að verja þessar lagalufsur sem til urðu á þessum síðustu dögum. Fyrir utan það er aðlögunin að ESB- bákninu gengin fulllangt og tekur enn lengur að vinda ofan af þeirri áþján í ráðuneytunum.

Þannig að áður en gengið er af stað í fjallgönguna miklu til þess að sjá vítt til vegar, þá þarf aðstoð fólksins til þess að tæma grjótið úr bakpokunum, sem hlaðið var í þá sl. fögur ár. Kjósum með þetta í huga eftir mánuð. 


mbl.is Loks hillir undir þinglok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið fái loksins að ráða

Grundfj 012

Gott upphaf kosningabaráttu XD var í fullum sal á Nordica í morgun, hjá Bjarna, Hönnu Birnu og stórum samstæðum hópi Sjálfstæðisfólks. Áherslan er rétt, að setja mál í forgang sem rjúfa kyrrstöðudoða sósíalismans og að eyða óvissunni sem heldur öllu í lás. Gaman að sjá kynnt allt þetta kraftmikla athafnafólk alls staðar að af landinu, tilbúið til athafna um leið og eymdar- stjórnin er farin frá.

Þjóðaratkvæðagreiðslu 

Evrópumálin eru á hreinu: Fólk fái að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort „samið“ verði við ESB um aðild eður ei. Vinstri stjórnin sveik Íslendinga um þennan rétt á meðan allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins kröfðust hans fyrir hönd þjóðarinnar. 

Stjórnarskrárbreytingar: ekki á hlaupum 

Stjórnarskrármálin eru líka á hreinu: Unnið verður í þeim á réttum tíma og á skilvirkan hátt, ekki hlaupandi á göngum Alþingis í uppbótartíma eftir fjögurra ára hringlanda. Meir að segja Forseta Alþingis blöskraði aðfarir stjórnarflokkanna.

Hagur atvinnuvega og heimila 

Hagir atvinnuvega og heimilanna eru þétt samtvinnaðir sem mikilvægasta málið sem brennur á. Skattaánauðin fer líka að verða eins og og hjá Hollande ofursósíalista Frakklands. Nú er þessi samstæði hópur Sjálfstæðisfólks sem kosinn var, kominn af stað. Ég vona að fólk taki þeim vel og ræði um raunhæfar aðgerðir sem skipta máli strax og í náinni framtíð, frekar en að draga fram rispaðar Jóhönnuplötur með uppáhaldslögunum „Hér varð hrun“ eða t.d. „Einkavæðingin 2004“, sem RÚV hefur spilað svo oft að jafnvel stafræna útgáfan verður slitin!

Kjósum að fólkið fái að ráða. Sjálfstæði.

 

 


mbl.is Enginn skattlagt sig úr kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrumið ríkir

AFP Sri Lanka soldier

Hvað hræðast nær allir þingmenn svo mikið, að þeir samþykkja umorðalaust tugmilljarða sóunaraðstoð af íslenskum láns-gjaldeyri til spilltustu kúgunarríkja í heimi? Er sú hræðsla komin á það stig að jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn tekur undir þetta Samfylkingarhjal án mótatkvæða? Vigdís Hauksdóttir þarf að standa ein úti á víðavangi til verndar hrjáðum Íslendingum, þegar þingmenn hoppa nær allir sem einn í lýðskrums- julluna og vilja ekki rugga henni fyrir kosningar. Þetta minnir á Icesave3, þegar krosstrén brugðust líka. 

Fólk forðast umræðuna um þennan fjáraustur til óþurftar, þar sem hver vatnsdropi upp úr brunni endar með að kosta vigt sína í gulli og hver skólaganga á við Harvard-vist. Verst er að kerfi eru fóstruð sem viðhalda þeirri spillingu sem skóp ástandið þar sem peningunum er eytt.

Spyrjið fólk sem hefur unnið í þessu í áratugi. Kynnið ykkur málin, t.d. að 8% upprunalegu fjár- upphæðarinnar hjá SÞ endar hjá þeim börnum sem hjálpa átti. Ríkið sendir Íslendinga til vistar í löndunum með milljóna- skattfrí laun, kokk og hvaðeina. Kerfið er fyrir löngu farið að fóstra sig sjálft, til viðhalds sjálfu sér og þeim úrelta grunni sem það byggði á í ídealísku upphafi sínu.


mbl.is Deildu um afstöðu Vigdísar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Carl Bildt í ESB og flotta sænska krónan

Carl Bildt ESB

Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar hélt ágætan fyrirlestur í Norræna Húsinu í dag um ESB við mikinn fögnuð ESB- sinna, enda bar hann lof í trogum á sambandið. Ég spurði hann um sænsku krónuna (SEK): Fyrst svo vel hefur gengið með SEK í Svíþjóð í þessi 20 ESB- ár Svíþjóðar og fjárfestar flykkjast núna úr Evru yfir í SEK, er það þá ekki hið besta mál að halda því áfram?

Árangur með sænska krónu

Carl Bildt forðaðist spurninguna að mestu (að mínu mati) með því að tala um það hve hvikult fé flestra fjárfesta er. Hann ítrekaði síðan Evru- ást sína. Það er þrátt fyrir velgengni Svíðjóðar með sína krónu og það hve sjálfstæðið er þeim mikilvægt, þegar Evru- löndin 17 hræra sig saman í eina skuldasúpu, en Bildt hafði engar áhyggjur af því. Pólitíkin virkar þannig, sagði hann, að t.d. utanríkisráðherrarnir greiða aldrei atkvæði á fundum sínum, heldur ræða sig að niðurstöðu. Ætli hún sé fyrirframgefin?

EES: engin áhrif á lagasetningu 

Bildt sagði EES-samninginn góðan til síns brúks, að færa Ísland nær ESB í reglum osfrv. (enda stóð hann að gerð samningsins). En stóri munurinn ef til aðildar kemur er sá að Ísland hefur þá áhrif á lagasetninguna sjálfa innan ESB! Trúlegt.

Fleiri aðildarlönd, Tyrkland velkomið 

Sænski utanríkisráðherrann vill fleiri meðlimi í ESB, bara betra! Hann tók sérstaklega fram að Tyrkland ætti að fá aðild, en það hefur beðið á bekknum í áratugi. Þar búa 75,6 milljónir manna og 99,8% þeirra eru múhammeðstrúar. Ef það hefur ekki áhrif á stjórnunarhætti í ESB, af hverju ættu 0,32 milljónir Íslendinga að breyta einhverju þó að þeir séu 236 sinnum fleiri en við?

Engin þörf á Evru 

Ein aðalástæðan fyrir löngun Já- ESB sinna í „öryggið“ í Brussel er Evran sem ekkert fær haggað. En Carl Bildt og Svíþjóð eru sönnun þess að ef ríki lagar til í fjármálunum hjá sér (sem er skilyrði inngöngu), þá þarf ekki að gangast undir afarkosti Sambands Evrulanda með Evruna. Svo færa Bretar sig eflaust yfir til okkar í EES- samning!


mbl.is Norðurslóðamál í deiglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kýpur: Enginn samþykkti ESB- planið

Kypur motmaeli AP

Enginn þingmaður á kýpverska þinginu kaus með skattinum á bankainnistæður sem ESB/AGS höfðu sett sem skilyrði fyrir neyðarláni sínu. Hlustað var á fólkið, sem getur ekki skrifað sjálfviljugt upp á ánauð um alla tíð til þess að ESB „bjargi“ þeim, eða raunar bönkum þeirra frá glötun. Bankakerfi Kýpur er 7-föld þjóðarframleiðsla þeirra, en á Íslandi var það 12- föld þjóðarframleiðslan í október 2008. Þessi ofur- Icesave nauðasamningur Kýpverja hefði riðið þeim að fullu: ósjálfbær með öllu.

Skatturinn rauf traustið 

Ráðist er þarna með skattlagningu að grundvelli bankakerfisins, sjálfum sparnaðinum, sem fólki er tjáð alla daga að sé verndaður. Traustið á kerfið hverfur. Bankar verða ekki opnaðir á Kýpur á morgun, enda yrðu þeir tæmdir. 

Þörf á íslenskri lausn 

Nú þarf Kýpur á neyðarlögum að halda að hætti Íslendinga, en á óhægt um það vegna ESB/AGS/ECB Troikunnar sem heldur fram sínum lausnum, til varnar sínum gjaldmiðli, Evrunni, ekki einni milljón Kýpverja. ESB hefur agnúast út í þessa bankareikninga- eyju upp á síðkastið, sérstaklega þar sem skattaklær ESB ná illa til þeirra, en fé hefur líka flúið Grikkland til Kýpur. 

Rússarnir koma 

Rússar eru líklegir til að beita sér enn meir á Kýpur. Hún stefnir raunar í að verða „Kúba Miðjarðarhafsins“, ef Kýpur gefst upp á ESB (og gagnkvæmt). Þá tryggja áhrifamiklir Rússar sínar eignir þar og ríkið fær flotastöð með lykiláhrif við Miðausturlönd og við Norðurströnd Afríku, en ófriðurinn þróast hratt áfram, sérstaklega í Sýrlandi. ESB og NATO óttast slíka þróun og því er ESB líklegt til þess að ná einhverri miðjumoðslausn í gegn á Kýpur. En bankana þar verður að taka í slitameðferð og passa upp á innistæður, það liggur hreinlega fyrir.

ESB hefur nú sýnt, með Grikkland og Kýpur, að almenningur getur treyst því að það komi til varnar gjaldmiðlinum og bönkunum, ekki fólkinu í nauðum þess. 


Össur, kveiktu á erlendum fréttum!

Ossur med fidluna

Smáríkið Kýpur er þrefalt fjölmennara en Ísland, er í ESB og með Evru og er í rúst. Össur Skarphéðinsson, sem enn er utanríkisráðherra telur ennþá óumflýjanlegt að Ísland gangi í ESB og taki upp Evru!

Kveiktu á erlendum fréttum, Össur, ekki RÚV eða Stöð 2, heldur alvöru fréttum. Nú logar allt stafnanna á milli syðra á meðan þú spilar á fiðlu. Innistæðu- eigendur bíða spenntir eftir að komast í að gera áhlaup á bankana á Kýpur um leið og þeir opna, jafnvel þótt skattur hafi þegar verið lagður á inneignirnar, líka þær smæstu. 

ESB mun ekki koma Kýpur til bjargar. Ríkið vantar 19 milljarða Evra en fær kannski 10 milljarða, ef Kýpur samþykkir ofurskilmála með samdrætti til framtíðar að hætti Icesave.  Vextir á Kýpur rjúka upp en skipta nærri því ekki máli frekar en á Grikklandi þegar álíka kom upp þar.

En ofur- Evran hans Össurar mun að hans viti bjarga öllu hjá okkur: lækka vexti (!) og við færumst í faðm öruggs gjaldmiðils (!). 

Man enginn eftir því að Össur sagðist sjálfur ekki hafa hundsvit á fjármálum? 


mbl.is Óhjákvæmilegt að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóunar- spillingarstyrkir með vöxtum

AfrikuHermadur

„...aðdáunarvert sé að Ísland hafi skuldbundið sig til að auka framlög til þróunarsamvinnu þrátt fyrir erfiðar efnahagslegar aðstæður“!!! Er aðdáunarvert að vinstri stjórnin noti síðasta daginn til þess að skuldbinda ofurskuldsetta þjóð til þess að greiða milljarða króna af gjaldeyri sem tekin var að láni, til notkunar í gegn um risabatterí í spilltustu ríkjum veraldar?  

Undarleg þögn ríkir jafnan um þessi mál, þar sem fjöldi beinagrinda eru í skápnum. Skilvirkni þessa gjafafjár er með afbrigðum léleg, eins og hver maður sér, sem hefur unnið í þessum málum eða bara kynnt sér þau eitthvað. Því dýpra sem kafað er, því meiri ófögnuður kemur upp.


mbl.is Ísland aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launaelítan með ESB- aðild

ESB Capacent jan 2013 skipt

Nokkur kaldhæðni felst í því að Samfylking (almennings!) tali helst fyrir ESB- aðild, þar sem hálauna- elítan er hörðust með aðild, sérstaklega í gegn um samtök eins og SI og Viðskiptaráð. Almennt eru 70% á móti ESB-aðild en 30% með henni, af þeim sem afstöðu tóku.

Tilgangsleysið í því að klára samningana sést t.d. með því að fylgismenn þess eru gallharðir í því að kjósa ESB- aðild, raunar 99% þeirra, skv. Capacent Gallup (sjá mynd). Allt tal þeirra um val og að kíkja í pakkann er blekking, þar sem þessi 30% Íslendinga, sem fylgjandi eru ESB- aðild, vilja nota þessa Krísuvíkurleið til þess að lauma aðild upp á Ísland. Á meðan er ljóst að andstæðingar aðildar vilja slíta ESB- „viðræðum“.

ESB Capacent jan 2013 70 30

Ef Samfylkingu, Bjartri framtíð og öðru ESB- fólki text að halda ESB- aðildarferlinu áfram, þá er alvarlegur lýðræðishalli í gangi. Ef hálauna- elíta á miðjum aldri í Reykjavík er skilin frá, þá er vilji almennings hvellskýr: Við viljum að ESB- aðlögun verði slitið strax!

Hér er skoðanakönnun Samtaka Iðnaðarins.

Smellið þrisvar á mynd til þess að fá fulla upplausn. 


mbl.is ESB eitt brýnasta kosningamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband