Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Vandamálaframleiðsla á færibandi

Enginn bill

Nýja línan hjá borgaryfirvöldum er: bílinn burt. Í skipulaginu nú eru íbúðabyggingar sem rúma ekki þann bílafjölda sem þeim fylgir. Þar með skapast vandamál á svæðinu, en þar er núverandi borgarmeirihluti sérfræðingarnir, með aðstoð sumra úr minnihlutanum.

Fyrir utan það að íbúarnir hafa ekki nægilega mörg bílastæði, þá verður þjónusta á jarðhæð sem ekki er hægt að heimsækja, auk þess sem bílastæði þau sem voru fyrir á byggingarstaðnum hverfa. Arkitektar fá þá skipun frá borgarskipulagi að bílastæðum skuli fækkað, án hugsunar um það hvert bílarnir eigi að fara. Götur með bílastæðum eru leystar upp í frumeindir sínar eins og Hofsvallagatan með örfáum stæðum úti á miðri götu á meðal blómakassanna á heimskautsbaugnum.

Bílastæðum stúdenta er fækkað um mörg hundruð, en það dugir ekki til þess að hreyfa við þeim í að andmæla þessarri kúgunarstefnu.

Það hljóta að vera takmörk fyrir því hve mikil vandræði við leyfum þessum mistæku pólitíkusum að skapa langt inn í framtíðina. Andmælum þessari árás á samgönguval okkar hvar sem hún finnst, en aðallega í borgarskipulaginu sem núna liggur fyrir til samþykktar.


mbl.is Hundruð íbúða rísa við gamla Slippinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúarnir fengu nóg

Ibuafundur i Vesturbae

Fundurinn í dag um Hofsavallagötu- ævintýrið tók aðeins í hnakkadrambið á þeim sem ráða borginni núorðið og hafa lýst yfir stríði gegn bílandi þegnum sínum. Íbúarnir hafa strax fengið nóg af þessu tugmilljóna króna tilræði gegn öryggi borgaranna og umferðarflæði sem þessi vanhugsaða tilraun er. Framkvæmdin öll er lýsandi dæmi um það hvernig stjórn borgarmála á ekki að fara fram, allt frá svokölluðu samráði (sem ekkert er) til skortsins á skilvirkni, markmiða og sanngjarns tilgangs í aðgerðunum.

Facebook- lýðræði? 

Á Hofsvallagötunni kristallast baráttan á milli ídealistanna sem ráða en voru aldrei í raunverulegu kjöri eða kosningabaráttu (ss. Páll Hjaltason skipulagsstjóri) og íbúanna hins vegar, sem vilja fá frið fyrir þessum tilraunum Besta flokksins, Samfylkingar og Gísla Marteins & Co. Ráðist er á flest það sem virkar vel, án hugsunar um afleiðingarnar. Hofsvallagatan, bílastæði, bílaflæði, flugvöllur osfrv. Til hvers var þetta fólk (ekki) kosið? Er þetta afleiðing Facebook- lýðræðisins, þar sem hvaða Lúkasar- della sem er getur rokið upp, eignast sjálfstætt líf og jafnvel endað með óhæfri borgarstjórn eins og við sitjum uppi með í dag?

Umferðarflæði verður að haldast 

Samgöngustjóri rakti tölurnar, sem tala sínu máli: 10.000 bílar fóru um Hofsvallagötu án vandræða fyrir þessar breytingar. Um 72% fólksins í Vesturbæ sýndist mér ferðast á bílum til athafna sinna, en 5,9% á reiðhjóli, sem er óvenju hátt hlutfall. Þetta voru einmitt hlutföllin á fundinum, eftir klappinu og undirtektunum að dæma. Þessi þvingun snars minnihluta á ferðamáta stærsta hluta íbúanna væri jafnvel í lagi ef framkvæmdirnar væru síðan vitrænar. En af ótal ástæðum eru þær út í hött eins og margoft hefur verið rakið.

Glatað aðalskipulag 

En ofangreindir aðilar ætla ekki að sitja auðum höndum við það að tefja borgarbúa til frambúðar, minnka öryggi, auka stress og ala á andúð manna í milli: nei, þessi skandinavíski umhverfis- fasismi á víst að vera varanlegur um alla borg eftir 16. september 2013, þegar fresturinn til andmæla við glataðar aðalskipulags- tillögurnar rennur út.

Komum í veg fyrir að þessi ólög verði staðfest út um alla borg og frestum öllum meiriháttar aðgerðum til kosninganna næsta vor. Það er eina vonin til þess að eitthvað vit verði í breytingum á skipulagi borgarinnar, ef einhverjar ættu að vera.

 

 

 

 


mbl.is Hitafundur um Hofsvallagötuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styðjum þá sem merkja matvæli vel

Sushi regnbogarulla

Loksins þegar góðar merkingar birtast á matvælum þá hrekkur fólk í kút og heldur t.d. að ákveðið sushi sé slæmt vegna merkinganna. En því er einmitt öfugt farið: þeir aðilar sem merkja innihald matvæla nákvæmlega hjálpa neytandanum við ákvörðun sína, en hinir sem gera það ekki eru yfirleitt að nota álíka efni en nefna þau kannski ekki. Sushi-ið sem vitnað er í í fréttinni er nokkuð gott.

Gæðavara (nema wasabi og soja) 

Sushi-ið sjálft sem um ræðir er líklega gæðavara, en wasabi og soja eru ótrúlega samsettar vörur, með endalausi innihaldi ýmissa efna. Ráðlegt er að takmarka notkun þeirra fyrir þá sem viðkvæmari eru fyrir ákveðnum efnum, eins og t.d. ég fyrir MSG, sem laumast inn víða án þess að vera getið.

Merkja hvert sérstaklega 

Merkingar á sushi- pakkanum sem um ræðir væru betri þannig, að innihald hvers fyrir sig væri rakið, þannig að neytandinn vissi hvað ætti að forðast. Þegar ég sá MSG- merkinguna á þessum pakka, þá velti ég fyrir mér hvaða stykki gæti verið með það.  Gjarnan er það í krabbalíki (Surimi), sem er samsett vara. Ég kaupi svona sushi áfram, en fæ mér ekki auka- wasabi og aðeins smá- sojasósu, ef einhverja. Laxinn er yfirleitt íslensk hágæðavara, en heitsjávarrækja í sushi er ekki merkileg hollustuvara, margfryst og efna- meðhöndluð.

Tökum almennilegum merkingum fagnandi. Upplýstir neytendur eru góðir neytendur. 


mbl.is Varað við litarefnum í mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 km 2013 myndband

Hér er Youtube vídeó sem ég tók áðan af 10km hlaupurum í Reykjavíkur maraþoninu við uþb. 1,5km. Að vísu ekki af fyrstu keppendum, en mjög margir sjást á þessu 10 mínútna myndbandi. Ekki hlaða því upp í gegn um símareikninginn!

http://www.youtube.com/watch?v=PhBApcbTZx8&feature=youtu.be 

En hér er fyrri hlutinn, með hraðari hlaupurum, 36 sekúndur. 

http://www.youtube.com/watch?v=TVnFp08Y5Vc&feature=youtu.be 

Athugið: Hægt er að smella á „Settings“- hringinn á Youtube, smella á bestu 720p upplausn og síðan til hægri í „Full screen“, þá greinast andlitin þokkalega.


mbl.is Kári Steinn og Helen fyrst í mark
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótinn í hendur þeirra sem ekki veiða

Rækja Pandalus Borealis

Núna á elleftu stundu fyrir upphaf næsta veiðiárs í rækjunni kemur ráðherra loksins upp með vísbendingu um fyrirkomulag kvóta í rækjunni, eftir að Steingrímur J. hafði rústað sumrinu með rækjuveiði- lokun sinni frá 1. júlí 2013, en það olli mörgum verulegum búsifjum, algerlega að þarflausu.

Óþurft Steingríms og gamli kvótinn 

Því miður ógilti Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra ekki fyrirskipun Steingríms J. og rústaði þá hálfu sumrinu. Nú bætir hann svo í ófarnaðinn með því að halda við gamla kvótafyrirkomulaginu að 70% leyti, þar sem langstærsti hluti þess kvóta var í höndum þriggja stórra útgerðarfélaga, sem stunda ekki rækjuveiðar og hafa ekkert með þennan kvóta að gera núna. Sum höfðu fengið þennan kvóta í uppbót fyrir langalöngu vegna falls annarra tegunda.  

Miðjumoðslausn í stað uppstokkunar 

Þessi ráðstöfun er miðjumoðslausn, þar sem þeir sem hafa stundað rækjuveiðar sl. 3 ár í frjálsum veiðum og eru náttúrulegustu þegar nýs kvóta, fá einungis 30% kvótans, en það þýðir að hjá flestum þeirra borgar sig ekki að veiða eigin rækjukvóta, því að hann nægir ekki til rekstrarins. Því liggur fyrir að margir þeirra sem lögðu út í rækjuveiðar t.d. í fyrra eða í hitteðfyrra hafa tapað sinni fjárfestingu og þurfa annaðhvort að leggja út í kaup af gömlu kvótaeigendunum eða að játa sig sigraða.

Óarðbært 

Niðurstaða alls ofangreinds er líka sú, að rækjuverksmiðjurnar, sem eru meginstoðir nokkurra byggðarlaga, munu ekki fá nægilegt magn af íslenskri rækju inn til sín, eða amk. verður það enn óarðbærara að vinna rækju nú en áður, sem var þó tæpt fyrir. Samkeppnisaðstaða Kanada og Norðmanna eykst fyrir vikið, en Ísland líður fyrir þessar mistæku aðgerðir stjórnvalda.

Rækjukvóti á ekki við 

Síðan er það annar kapítuli, að kvóti í rækjuveiðum við þessar aðstæður, þegar veiðimagnið er aðeins 10% af því sem það var þegar það var mest, er alger mistök. Hafrannsóknarstofnun viðurkennir að lítið sé vitað um stöðu rækjunnar, enda skorti rannsóknir, en dæmir síðan út frá þeim lágu tölum, sem veldur því að ráðamenn telja sig gera rétt að fylgja þeim. Rækjan er lágt í fæðukeðjunni, ekki er hægt að geyma hana í sjónum í formi kvóta og afrán þorsks ræður mestu um stofnstærð, eins og rannsóknir hafa sýnt.  Veiðum meiri þorsk og höldum rækjunni uppi.

Nýr kafli upplausnar 

Nú hefst því annar kafli í rækju- kvótasögunni, þar sem útgerðaraaðilar verða að giska á útkomuna og hvort þetta fyrirkomulag haldist. Enginn er ánægður í raun, sem er aðall miðjumoðslausna, að reyna að fara milliveg sem er bara eins og á milli skips og bryggju. Annað hvort heldur maður sig í höfn eða siglir, annars fer maður beint í sjóinn.

  

 


mbl.is Fá 30% fyrir frjálsar rækjuveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarrræðislegar ákvarðanir

Hér er tengill á grein mína áðan vegna Hofsvallagötunnar og þess gerfi- lýðræðis sem haft er uppi við svona gerræðislegar ákvarðanir.

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/1309102/ 


mbl.is Næstum hver einasti skrifar undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti í bílastríði við borgarana

Endalaust i hring

Besti flokkurinn og Gísli Marteinn, einn af jörlum hans, hafa blásið til bardaga við þá borgara sem voga sér að eiga og nota einkabílinn sinn áfram. Gerfi- samþykktarfundir eru haldnir til þess að láta eins og samþykki borgaranna liggi fyrir eftir þá fundi. Fundurinn á Hótel Sögu um árið vegna Hofsvallagötu ofl. átti að sýna fram á það að breytinga væri þörf á Hofsvallagötu en afar skiptar skoðanir voru um hjóladellubreytingar Gísla Marteins, enda var ekki hugsað um helstu vegfarendurna, íbúana á einkabílum sínum.

Verkefnið að stífla flæði 

Umferðarfræðingur sýndi t.d. að ákveðinn fjöldi bíla (um 7.000-10.000 á dag?) færi þarna um og yrði þá beint annað eða gerði umferð tregari, með vinnutapi og stressi. En bílfjendurnir voru ekki af reiðhjólabaki dottnir, heldur lýstu almennri samstöðu íbúanna í Vesturbæjarblaðinu og víðar. Síðan bættu þeir um betur og tóku bílastæði burt, á sama hátt og hjá stúdentum og í Borgartúni, hvar sem mikil þörf er á stæðum. Dýra (en góða) búðin sem við eigum að nota, Melabúðin, fær ekki lausnir á bílastæðavanda sínum eða íbúarnir þar í grennd, heldur er alls kyns fánastöngum raðað út á götuna endilanga. Íbúarnir fá þar á sig umferðarteppur, bílastæðaskort og ónæði að þarflausu, sem er eins og Jóhanna Sig. hefði fundið það upp. 

Hjol i Kina

Aðalafsökunin fyrir þessari sólundun á peningum, tíma og orku íbúanna frá Bestu borgaryfirvöldum er að umhverfið verði vistvænna. Endurhugsa þarf (mis)notkun þessa orðs. Væn vist fyrir íbúa staðarins er að geta notið lífsins á þann hátt sem það kýs án þess að valda öðrum ónæði eða miska. Það kýs kannski að skjótast hingað og þangað um borgina að vild og við eigum að gera umferðarflæði þess áreynslu- og hættuminna. Í staðinn er þessum borgaryfirvöldum alveg fyrirmunað að aðstoða borgarana á þennan hátt, heldur beinlínis að þvinga þá til athafna sem teiknaðar eru upp í miðborgum Norður- Evrópu, þar sem ögranirnar eru allt aðrar. Hámark þvingunarstefnunnar birtist síðan í fyrirliggjandi Aðalskipulagi, þar sem bílastæði og bílaumferð eiga sannarlega ekki upp á pallborðið. 

Snaraukin hætta 

Aðförin að Hofsvallagötu minnir á Suðurgötu næst miðbænum, þar sem ökuleiðin inn í bæ var tekin af og settur hjólastígur í staðinn. Einnig var merkt fyrir hjól í malbikið í hina áttina og gangstéttin breikkuð. Þegar ég hef hlaupið þarna síðan á gangstéttinni, þá nota hjólreiðamenn hana, á meðan hjólastígurinn er auður. En umferðin beindist inn í örþrönga Tjarnargötuna, fram hjá leikskólanum og með bílum lagt á báða vegu. Hættan margfaldaðist og ónæðið jókst fyrir alla.

Hlutverk borgarfulltrúa er að vera til þjónustu fyrir íbúana, ekki að þvinga þá til eins eða neins. Þessi síðasta borgarstjórn verður vonandi sú síðasta af þessu tagi, þar sem sósíal- ídealisma er troðið upp á fólk allan daginn og leiðtoginn er trúður.

 

 


mbl.is Boða íbúa á fund vegna Hofsvallagötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mútunum linnir

ESB mutur

Nú þegar undið er ofan af ESB- aðildarferli VG/Samfylkingar er erfitt fyrir styrkþega að fá ekki 3.700 milljónir „að gjöf“ frá ESB. Þjóðin stefndi hraðbyri í betli- múturs- kerfi að Afríkönskum hættti þar sem fundin voru upp alls kyns verkefni sem ESB myndi borga, en það er einmitt batteríið sem aldrei heldur sig innan fjárlaga.

IPA- styrkir fyrir umsóknarlönd að ESB er eins óeðlileg ráðstöfun fjár annarra eins og hugsast getur. Það ferli fóstrar pólitíska spillingu og styrkja- hugsanahátt sem afbakar hagkerfin. Loksins skrúfast fyrir vitleysuna.


mbl.is Semja um IPA í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnur að traustum banka?

Isbanki Kina

Ef kínverskir fjárfestar kaupa hlut Glitnis í Íslandsbanka verður kannski til banki eins og þeir verða bráðum, með alvöru eignastöðu og bakhjarla, ekki bara skuldugustu pappírstígrar sögunnar. Bönkum framtíðarinnar á ekki að leyfast að vera með lægsta hlutfall eiginfjár allra fyrirtækja. Kínverskir fjárfestar eru gjarnan með alvöru fé og framkvæmdavilja. Rammskuldugir skriffinsku- valdasinnar óttast slíkt mest og vilja að pólitíkin sín ráði.

Kínversk- íslenskur banki á Íslandi er jákvætt skref fram á við. ESB og Bandaríkin eiga eftir að horfast í augu við skuldir sínar og peningaprentun. Þörf er á alvöru peningum í djúpum vösum. Kannski koma þeir frá Kína.


mbl.is Kínverjar vilja kaupa Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband