Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

Nei, ekki sturturnar líka!

Flickr-sturta

Innleiðing ömurlegra ESB-tilskipana er enn á fullu, þrátt fyrir endalok vinstri ESB- ríkisstjórnar Íslands. Ljóslitlar perur, máttlausar ryksugur og hárblásarar voru bara forsmekkurinn. Nú á að ráðast á kjarna tilverunnar, öflugu sturtuna sem er stolt Íslands og heldur okkur heilbrigðum á klakanum, stresslausum og bólgufríum í öxlum og baki. Nei, það má víst ekki, heldur ákvað almættið í Brussel að banna ætti sölu á svona hættulegum rörum sem hleypa nægu hitaveituvatni okkar í gegn um sig.

Höft 

Að stífla, hefta, takmarka og hamla eru lykilorðin. Engu skiptir að almennileg hitaveita og rafmagn eru nánast mannréttindi Íslendingsins og markar sérstöðu okkar. Tilgangurinn með þessum höftum er í anda neyslustýringar sósíal- demókratískar Evrópu sem leitast við að stjórna hverju atriði í lífi einstaklingsins og brenglar þannig markaði og eðlilega viðskiptahætti.

Njótum aðstöðunnar

Rafmagnið sem neytendur nota hér er brotabrot af heildinni og breytir engu, enda framleitt á sjálfbæran hátt. Notkun á heita vatninu sem heild stýrist ekki í gegn um sturtuna. Hvað með allar sundlaugarnar, hitaplönin og 22°C húshitann með ferskt loft frá opnum, stórum gluggum? Eigum við að láta ESB pína okkur í að vera eins og þar, með hausverk í ísköldum súrefnislausum myrkvuðum herbergjum, af því að Rússar eru búnir að skrúfa fyrir gasið og slökkt var á kjarnorkunni?

Frelsi 

Alþingi ræður því hvort hver einstök EES- tilskipun er innleidd eða ekki, enda liggur löggjafarvaldið þar. Þessi ríkisstjórn á líka að hafa burði til þess að neita innleiðingu rammsósalískra tilskipana og leyfa okkur að njóta sturtunnar í taumlausri ánægju yfir því að vera ekki hluti af ofstjórnarvaldi ESB.

Litid Badherbergi ESB
mbl.is Sturtur verða vatnsminni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf annars mikið til?

PirateHood

Er ekki nóg að hryðjuverkasamtök sýni afhöfðanir á netinu til þess að loka megi vefsetrum þeirra? Þingmanni Pírata virðist ekki finnast það og birti því netsvindl- hlekk til þess að við megum kynnast sjónarmiðum afhausaranna betur. Eða eins og hann segir á bloggi sínu:  

„Þetta snýst um rétt þinn, lesandi góður, til að vera upplýstur um hvað það er sem Ríki Islams segir, trúir og vill.“

Einhver ykkar kusu því Píratann til þess að þvinga fram birtingu á málstað afhausaranna svo að t.d. óharðnaðir unglingar megi fá réttlætingu á aðgerðum öfgafyllstu ofbeldismanna síðari tíma.

Ég fylgi baráttu fólks til birtingar upplýsinga á netinu, t.d. frá ríki og borg, svo að leyndarhyggjan fái ekki að blómstra endalaust. En ef ráðandi aðilar þurfa að velta fyrir sér hvort loka eigi íslenskri hryðjuverkasíðu fjöldamorðingja, eða þá t.d. barnaníði, þá þurfa þeir hinir sömu að fara í einhvers konar siðferðismat, sem amk. þarf fyrir setu á Alþingi, löggjafarsamkundunni okkar. 


mbl.is „Hafa eyðilagt mikið fyrir okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturköllun ESB- umsóknar er þverpólitísk

AllirLitirIHusinu

Varla hefði mig grunað áður að ég dimmblár kappinn settist sjálfviljugur með eldrauðum pólitíkusum í stjórn félags, nema þá kannski í andans málum. En afturköllun ESB- umsóknarinnar er slíkt þjóðþrifamál og er í eðli sínu þverpólitískt, að þörf er á virkum krafti fólks allra flokka til þess að koma þessu frá strax. Jafnvel fimmtán prósentin af Samfylkingunni gæti verið sammála okkur með það. 

Ekki ég

Oft er það svo með þörf og sjálfsögð mál, að langflestir eru sammála um hvað gera þurfi, en nenna helst ekki að standa í því sjálfir. Heimssýn er félag þar sem drífandi fólk kemur saman um það að bægja þessum vandræðum frá þjóðinni, helst með upplýstri umræðu og fræðslu. Vonast er eftir þáttöku sem flestra við það að leggja málefninu lið. En best væri ef þingið myndi bara drífa í þessu. Vissulega er mótbyrinn erfiður, þar sem úr fölskum gnægðarhornum ESB flæðir áróðursfé eins og bjór í október. Látum Hannes Hafstein tvítugan fá orðið:

Ég vildi óska’ að það yrði nú regn

eða þá bylur á Kaldadal,

og ærlegur kaldsvali okkur í gegn

ofan úr háreistum fjallasal. 

 

 Við erum sammála: ESB- umsóknina verður að afturkalla strax. 


mbl.is Jón Bjarnason kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EES ekki greypt í stein

Valtarinn

Daglega berast fréttir af því hvernig Íslandi farnast vegna ESB- tilskipana, sem Íslandi beri að taka upp vegna EES- samningsins. Sú leiða hefð komst á hjá Jóhönnu- stjórninni að skrifa undir hverja tilskipun nær óséða og er erfitt að vinda ofan af þeim óskunda. EES- samningurinn skuldbatt ekki Alþingi um alla framtíð til þess að afsala sér löggjafar- réttinum. Túlkun samningsins og útfærsla hér á landi á að miðast við að hámarka hagsmuni Íslendinga, enda væri undarlegt ef við rembdumst við að aðstoða erlend ríki við hagsmunarekstur sinn hér á landi.

ESB vill ráða 

Aðildarríki ESB og stórir hagsmunaaðilar innan þeirra sjá að Ísland verður ekki aðildarríki í bráð, en þá er Plan B að stjórna í gegn um þrönga túlkun EES- samningsins, sem áður var frjálsleg. Ef það dugir ekki til er ESA- dómstólnum beitt, enda deginum ljósara að ESB ræður á þeim bænum. Hann er núna hafinn til skýja sem yfirþjóðlegt vald, en honum var aldrei ætlað annað en að gera út um ágreining í EES- samningnum og niðurstöður jafnvel hundsaðar á báða bóga eftir því hvar hagsmunir hvers aðila lágu hverju sinni.

EES fyrir Ísland

Vinsamlegast bendið íslensku Samfylkingarfólki, sem berst fyrir ESB- tilskipunum, á það að samningafólki okkar ber jafnan að hámarka hag Íslands, annars er það ekki starfi sínu vaxið. Nógu erfitt er að eiga við ESB- valtarann þótt hann fái ekki íslenskt innanbúðarfólk hér líka í lið með sér.


mbl.is Fer líklega fyrir EFTA-dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skerum á hnútinn: seljum RÚV

HeyskapurMenntaHIis

Skuldasöfnun Ríkisútvarpsins keyrir um þverbak þrátt fyrir austur skattgreiðenda til stofnunarinnar, þ.á.m. minn og fjölskyldu minnar með marga tugi þúsunda á ári þangað, einnig vegna fyrirtækis míns. Þessari sjálftöku á hálfum milljarði króna á mánuði verður að linna, sérstaklega núna þegar vaxtagjöldin sliga ofhlaðna stofnunina.

17 milljónir hvern dag 

Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsir uppsöfnuðum vanda RÚV í góðri grein í Morgunblaðinu í dag og krefst aðgerða, enda nýtist þetta fé mun betur í annað eða hjá skattgreiðendum sjálfum. Sjálfum finnst mér réttast að hætta strax austrinum í gjaldþrota ríkisbatteríið strax og selja það í heild sinni. Við söluna mætti skoða hvort framlag okkar færi beint til einkahlutafjár, þar sem t.d. þriðjungi eignar væri haldið eftir við söluna til þeirra þarfa.

RakadStrandirIs

Þinn tími er liðinn, RÚV 

Hvernig sem fer verður að hætta að mata þessa kvörn sem RÚV er. Þetta kerfi er barn síns afdalatíma, þegar orfið, ljárinn, hrífan og Ríkisútvarpið var það helsta sem þörf var á. Núna er þetta bákn lýsandi fyrir útþenslu sósíalismans, sem engu eirir þegar kemur að upptöku ríkisins á aflafé þegnanna. Að auki hamrar báknið á fjöldanum kvölds, morgna og um miðjan dag með sína sósíal- demókratísku afbökun á raunveruleikanum sem kallast Fréttir RÚV, allt í nafni þjóðarinnar. Við skulum bara rétt vona að þjóðin sé ekki eins og RÚV, því að þá er okkur ekki viðbjargandi sem heild.

Drífið nú í þessu, Sigmundur Davíð og Bjarni og seljið Ríkisútvarpið! 

 


mbl.is Lánagreiðslur RÚV 593 millj. á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SO2 til Reykjavíkur

SO2 Rvk 2014-10-06

Loks kom að því að vindurinn leiddi brennisteins- tvíildið (SO2) frá Holuhrauns- gosinu til Reykjavíkur eins og sést á spá Veðurstofunnar um það efni. En þó er þetta brotabrot af því sem fólk á austur- og norðausturlandi hefur þurft að þola. Þetta er útþynnt í rokinu og tímabundið, amk. ennþá. Hér hlaupa heilu hóparnir framhjá án vandræða.

En lítil umræða hefur átt sér stað um það hve lengi þetta hangir í veðurkerfunum, hvort það sé líkt og með Eyjafjallajökul, sem þeytti ófögnuðinum upp í heiðhvolf og slikjan hékk síðan yfir heillengi, jafnvel árum saman. Kannski rignir þessu meira niður, en Bárðarbunga með öskugoss- sprengju myndi senda SO2 og ösku upp og út um allt.

Við fylgjumst bara með á þessum tenglum hvort hægt sé að hreyfa sig utandyra af viti.

 

Loftgaedi is 2014-10-06

 

 

 


mbl.is Mengunar gæti orðið vart á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frosin tilboð

WOWair-party

WOW- flugfélagið auglýsti 2015 sæti á 2015 kr. hvert á hádegi í gær. Vinafólk mitt vildi þá stökkva á Salzburg, en tilboðin virtust frosin á dýrari staðina, því að einungis London komst í gegn þegar reynt var. Tilboðið reyndist því alger tímasóun fyrir okkur, þar sem tölvur WOW voru frosnar gagnvart Salzburg í þær 35 mínútur sem tók að selja sætin, þrátt fyrir ljósleiðaratengingu okkar og ítrekaðar tilraunir.

Fróðlegt væri að heyra frá neytendum hvort þeir hafi komist í gegn og keypt miða á dýrari staðina. Eða að heyra frá WOW hvort langflestir miðanna hafi selst á ódýrustu staðina. Svona tilboð í frosnar tölvur sem virðist stýrt á einn veg er ekki í lagi.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband