Helmingur VG-kjósenda étur ESB-hattinn

ESB hatturValkostirnir núna eru hægri miðjustjórn leidd af Sjálfstæðisflokki eða vinstri stjórn leidd af Vinstri grænum. En í þeirri vinstri er kötturinn í sekknum ekki aðeins Steingrímur J. Sigfússon, heldur umsókn um aðild að ESB.

Augljóst er að Samfylkingin krefst þeirrar umsóknar og VG samþykkir með því að koma fyrst með þjóðaratkvæðagreiðslu með leiðandi spurningunni: Vilt þú að viðræður um aðild að ESB hefjist að nýju? Ekki yrði spurt um viljann til þess að ganga í ESB, því að þjóðin vill ekki þangað inn.

Þar með er kjarninn í Vinstri grænum, helmingurinn, búinn að fórna prinsippunum fögru um sjálfstæði. Öll sagan endurtekur sig eins og árin 2009-2013, þegar innanbúðarvígin voru á fullu á bakvið tjöldin. Viðreisn gengur glöð inn í þennan pakka. Forðum þjóðinni frá öllum þessum illindum.


mbl.is Stefnir í spennandi kosningar á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking og VG vilja völlinn burt

IMG_6824Fulltrúar Samfylkingar, VG og Pírata beruðu sig gersamlega í flugmálum á opnum fundi áðan, sérstaklega vegna Reykjavíkurflugvallar. Píratinn lýsti strax yfir að flokkurinn hefði ekki mótað neina stefnu í þessum málum og hún var þar með úr leik.

Engin sátt

Fulltrúi Samfylkingar stóð í hörðum bardaga við fundarmenn, þar sem hún ítrekaði að þau vildu flugvöllinn burt, aðallega til þess að ná í dýrar lóðir. Kaldhæðnin náði hámarki þegar hún sagðist vilja víðtæka sátt, þá var hlegið við. Varla verða þær dýru lóðir seldar ungu fólki, sem kysi Samfylkinguna einmitt til þess að ná í þær.

VG og kolefnislosun

Fulltrúi Vinstri Grænna vildi líka sátt, en völlinn burt! En aðaláhersla hennar var á það að flug veldur kolefnislosun og beri því að endurskoða með sjálfbærni í huga. Skilja mátti að flug eins og það er í dag er ekki hátt skrifað hjá VG. Líkt og Samfylkingarkonan minnast þær á dóm Hæstaréttar um neyðarbrautina og að Reykjavíkurvöllur verði lagður niður þegar annað flugvallarstæði finnst í staðinn. Afgerandi staða fékkst ekki úr Viðreisn um málið, nema þessi sama setning um annan flugvöll fyrst.

Fylgja fluginu

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins (Jón Gunnarsson samgönguráðherra), Miðflokksins og Framsóknarflokksins héldu allir skeleggar ræður um gildi flugsins fyrir Reykjavíkurborg. Því er engum vafa undirorpið að þessir aðilar vilja fluginu vel.

Tapar flugi

Vinstri vængur stjórnmálanna er brotinn í raun þegar kemur að flugi, það kom skýrt fram, þar sem enginn skilningur á mikilvægi þess er þar fyrir hendi. Reykjavíkurflugvöllur er gríðastór vinnustaður þegar allt er tiltekið og fórnin er mikil að láta hann fara annað, líka með tilliti til neyðarþjónustu og ekki síst í almannavörnum, þegar allt annað þrýtur.

En eftir tvo daga getur verið kominn meirihluti á þingi sem er staðráðinn í því að færa flugið út úr Reykjavík. Ekki hjálpa þeim til þess.


mbl.is Fundað með frambjóðendum um flugmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri miðja fjarlæg, en sækir á

Rautt blattNýjustu niðurstöður gefa einhverja von um það að kjósendur til Alþingis afhendi ekki völdin í góðærinu til römmustu sósíalistanna. Stórn Sjálfstæðis- Mið og Framsóknarflokks næði ekki meirihluta svona og kjósendur þeirra þyrftu því að mæta vel eftir viku til þess að ná hægri miðjustjórn.

Viðreisn ekki með

 

Viðreisn er ekki stjórntæk eftir að Benedikt var bolað í burtu, enda var Þorgerður Katrín virk í að fella stjórnina sína með tilsvörum sínum, sem óma skæran vinstri tón í seinni tíð. ESB- þráhyggjunni linnir ekkert á þeim bænum og hlýtur Þorgerður Katrín því að kætast yfir gangi skoðanasystkina sinna í Samfylkingunni. Óráðlegt er með afbrigðum að hafa Viðreisn með í hægri miðstjórn, sem sést líka á aðförum Þorsteins Pálssonar, þegar hann einhenti sér í að slíta sáttanefnd um sjávarútveg.

Afgerandi niðurstaða

Píratar væru sannarlega ekki stjórntækir í hægri miðstjórn, hvað þá í oddaaðstöðu á þingi. Því liggur þetta alveg fyrir: Sjálfstæðis- flokkurinn þarf að fá umboð til stjórnarmyndunar, annars tekur vinstri óreiðustjórn við taumunum með fyrirsjáanlegum afleiðingum.

 


mbl.is Vinstri grænir lækka flugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannsskaðaveður á Írlandi

2017-10-16_Irland-nullskoliStormurinn Ophelia skellur nú á Írland, en hægt er að fylgjast með framgangi hans hér á nullschool.net sem sýnir vind um heim allan. Benda þarf á Írland á heimskortinu og draga það að miðju myndar, en stækka svo t.d. með hjóli músarinnar.

Síðan má smella með bendlinum á einstök gráðuhnit og þá koma upplýsingar um vindhraða á þeim stað. Þannig náði vindhraðinn mest 99 km/klst en var um 120 km/klst. í gær þegar lægðin var sunnar í heitari sjó og hafði ekki náð landi. 

Þegar þessi vindakort eru skoðuð sést gjarnan hvernig landslag hægir á yfirborðsvindi. Mjög áhugavert.

Nullschool.net

 


mbl.is Kona lést í óveðrinu á Írlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleg vinstri slagsíða

Skip vinstri halli strandVinstri hallinn á þjóðinni er orðinn slíkur, að erfitt verður að sigla skipi þess skammlaust, nema fleiri kjósendur hugsi alvarlega sinn gang fyrir þessar kosningar 28. október 2017. Hvert atkvæði greitt vinstri vængnum núna er í raun greitt Vinstri grænum vegna sterkrar stöðu Katrínar Jakobsdóttur í skoðanakönnunum. Þar með yrði stefna þess flokks ríkjandi næstu fjögur ár og það er þegnskylda okkar að kynna sér stefnu þess flokks, nýlegrar sögu hans og aðallega afrek þöglu deildarinnar, Steingríms J. og Svandísar Svavarsdóttur, sem fengju að leika sér ærlega í dótakassanum.

Miðjan í vandræðum

Hægri kratar og miðjan öll á í vandræðum með sig þessa dagana. Gömlu ESB- draumarnir munu ekki rætast og hún fæst ekki opinberlega til þess að styðja Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur samt stýrt málum í rétta átt fyrir þá kjósendur og aðra. Hvort á að sveiflast með tilfinningunum í hverju Lúkasarmáli af öðru sem blásið er upp af fjölmiðlum eða að horfa á staðreyndirnar, hvernig staðan er? 

Skýrir valkostir

Hvort er Sjálfstæðisflokkurinn eða Vinstri græn líklegri til þess að viðhalda jákvæðri stöðu íslenska þjóðfélagsins? Flest vitum við svarið og kjósum XD í leynilegri kosningunni.

PS: Haldið þið að það sé tilviljun að hægri er stjórnborði og að vinstri er bakborði?

 


mbl.is X-S er hástökkvari vikunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta stuðningi við viðskiptabann á Rússa

RusslandTiskaNú er gott tækifæri fyrir utanríkisráðherra og fráfarandi stjórn að hætta stuðningi við viðskiptabann á Rússa, svo að samband og viðskipti við þá komist í eðlilegt horf. Jákvæðir straumar á heimsmeistara- keppninni myndu hjálpa verulega til að snúa þeirri óheillaþróun við sem hófst með viðskiptabanninu, sem kemur okkur verst en ekki ESB sem kom því helst á.

Stjórnvöld geta vel mótmælt aðgerðum Rússa vegna ástandsins í Úkraínu, en ekki stutt við viðskiptabann, sem kallar á bann gagnvart Íslandi. Það er hagur beggja að halda öllu opnu.

Ef vinstri stjórn tekur við eftir 28. október er alveg skýrt að ESB- bannið á Rússa heldur áfram eins lengi og sú stjórn er við lýði.


mbl.is Bjóða upp á stuðningsmannaskírteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósa ólíkindatól til þess að velja ráðherra

PirataRadherraKjósendur sem velja Pírata til þess að stjórna landinu vita ekkert um það hvaða ráðherra ólíkindatólin myndu velja til þess að stjórna fyrir sig. Atkvæðin eru að því leyti greidd út í bláinn, en þó með þeirri vissu að óvissan er algjör.

Evrópusambandið notar þessa sömu aðferð að skipa sjálft þá sem ráða, svo að tengsl kjósenda við umboðsmenn sína verði hverfandi. Enda er árangurinn eftir því.


mbl.is Sækist ekki eftir ráðherrastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunnuglegt innihaldið birtist

InnriGerd-JuanGattiKatrín Jakobsdóttir hjá Vinstri Grænum opinberar smám saman hvernig álögu- og bannstefna þeirra á að virka með auknum sköttum „á þá auðugustu“. Eldra fólk hefur hingað til talist þar vegna eigna, enda vill vinstri vængurinn líka skattleggja þær.

Nú þegar eru efstu 20% að greiða nettó- tekjuskatta fyrir neðri 2/3 hlutann, sem hlýtur að teljast almenningur. Þetta gerir Ísland eitt sósíalískasta ríkið í veröldinni, en það er ekki nóg fyrir VG. Nú skal spýta í lófana og ná í meira! Við vitum flest hvað þetta þýðir, að álögur aukast á flest fólk með góðar tekjur og hvað þá ef þau álpast til þess að vera hjón. Svo hvetur þetta þá al- tekjuhæstu að forðast skattgreiðslur með ráðum og dáð og her af endurskoðendum.

Einföldun og jafnræði í hógværri tekjuskattprósentu skilar ríkinu mestum tekjum, það er sannað. Katrín og VG stefna okkur ekki þangað.


mbl.is Vill hækka skatta á þá auðugustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn -70,5% og BF-62,5%

Kosn2017Okt2BreytFylgi við stjórnmálaflokka flöktir eins og lauf í vindi núna, þar sem fall Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar er skýrast (sjá töflu)og launast þeim nú kinnhesturinn forðum.  Smærri miðflokkarnir æða upp, Flokkur fólksins og Miðflokkur Sigmundar Davíðs (tölur úr síðustu könnun þar). Samfylking og Vinstri Græn rjúka líka upp í moldviðri fjölmiðlanna.

Fróðlegt er hvort tilfinninga- rokið hafi róast við kosningar eftir þrjár vikur og að kosið verði eftir stefnumálum, eða nær tilviljanakennt eins og nú, jafnan eftir síðustu sjónvarpsfréttum. Konur Íslands hafa þó færst úr 40% fylgi við Vinstri græn í 35%, kannski vegna þess að Steingrímur J. og Svandís Svavarsdóttir láta nú á sér kræla og gera þá fólki ljóst að það kysi ekki einungis Katrínu Jakobsdóttur fullkomnu, heldur allan rótgróna rammsósíalista- pakkann. 

Fólk sem er hægra megin við miðju skilar lífsskoðun sinni best í kjörkassanum með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, til þess að líkur á markvissri stjórn verði sem bestar.


mbl.is X-M mælist með meira en X-B
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni seldi seint, ekki snemma

9araAfmaeliHver sá sem veit um eða kynnir sér ástandið á fjármálamörkuðum í september 2008, hlýtur að sjá að áhættusamt var að halda peningum í sjóðunum. Vitneskja um það var almenn og sést t.d. á Moggabloggi mínu allt árið 2008. Bjarni Benediktsson dró fulllengi að selja, en það er ekki vítavert.

Nú er verið að tína þetta til eins og frétt, á 9 ára afmæli Hrunsins. Mikil er örvænting andstæðinganna.


mbl.is Seldi í Sjóði 9 dagana fyrir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir víða í góðan hita

Vonandi fá sem flestir landsmenn að njóta dagsins í dag útivið, því að amk. spáin er glæsileg eins og sést á myndinni sem fylgir hér, Ísland kl. 16:00 í dag. Kannski nást þessar 25°C í Borgarfirðinum á heiðskírum deginum? 2017-07-26_Hitamet spa


mbl.is 27,7 stig – hitamet sumarsins slegið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændur fljúgi flugvélum og skógræktendur í stóriðjuna

WOW A320Það var tímaspurning hvenær Björt umhverfisráðherra myndi missa sig alveg í heimshlýnuninni og færi að leggja álögur á framtakssemi Íslendinga að ófyrirsynju. Ráðuneyti hennar hafði fullyrt réttilega að áliðnaðurinn hér stæði eins framarlega og hægt væri gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Viðmiðunin við árið 1990 þegar ekkert var að gerast hér á landi miðað við núna, 27 árum síðar er út í hött, enda völdu önnur ríki sér seinni viðmiðun. Langstærstu losunaraðilar í heimi sinna ekki þessum reiknikúnstum eða stunda pólitíkina um þetta og gera áfram það sem þeim sýnist. Öll sú olía sem borað er eftir verður brennd, sama hvað menn reikna. Túristarnir fljúga eitthvað og fínt að það er til Íslands.

Ræðst ekki af einkabílum

Núna þegar einkabílar eru 4-5% mannlegar losunar hér á landi, þá er ljóst að engu máli skiptir hvort þessar fáu hræður fari í einum hálftómum strætó eða í sínum nýja sparneytna einkabíl í vinnuna eða í skólann. Sárgrætilegast er þó að horfa upp á uppskafningana sem telja að við Íslendingar getum kælt heiminn með því að hjóla í vinnuna. Þeir geta ekki einu sinni íhugað það að næsta eldgos þurrkar út allan "ábatann" á nokkrum klukkutímum með losun sinni, en gæti staðið vikum saman.

Skattastjórnin?

Hringavitleysan í 101 kastar tólfunum þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins kemst nær því að leggja á skatta vegna loftslagsmálanna og tekur undir þessa ólánsvegferð.

Ég er enn á því að ef einhver sprengir þessa ríkisstjórn, þá er það Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, tímasprengjan á þingi.

 


mbl.is Stóriðja og flugfélög sinni landgræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúið við eftir langa mæðu

Syrland flottafolkLangflestir Íslendingar samþykkja að aðstoða þurfi sýrlenskt flóttafólk í neyð þeirra. Því fór milljarður króna í það árið 2016 en aðeins 24 Sýrlendingar skiluðu sér til Íslands á því ári, skilst mér. Tugmilljónir króna á mann hlýtur að vera met í óskilvirkni aðstoðar, sem þó er þekkt fyrir að vera einmitt lang- óskilvirkasti hluti fjárlaga Íslands í gegn um árin, í harðri samkeppni við fjáraustur til Sameinuðu þjóðanna, í það hripleka kerald.

Mest til spillis

Aðalástæðan fyrir þessari sóun á almannafé er sú að gengið er svo illa frá hnútunum hér að þegnar annarra þjóða ná að nýta sér ástandið (2/3 hluti frá Makedóníu og Albaníu) og leita hælis hér, þó að ljóst sé að tilkall þeirra til þess sé ekki fyrir hendi. Norðmenn stöðva þannig fólk á landamærum sínum, en þar sem landamæri Íslands vegna Schengen eru í raun utan norðurstrandar Afríku og óskýra ESB- stefnan sem fylgt er hleypir öllum inn, þá er síðan reynt að eiga við sjálfskipuðu vandamálin eftirá með óheyrilegum kostnaði.

Beint til aðstoðar

Hver hjálparsamtök á Íslandi þurfa að berjast fyrir hverri krónu sinni til þarfra verka, á meðan mokstur ríkisins í þennan málaflokk hér fer að langmestu leyti til spillis á ofangreindan hátt og skapar óeiningu meðal þjóðarinnar. Taka þarf fyrir þennan framgangsmáta og láta peningana fara beint í flóttamannabúðir eða til sjálfshjálpar fólks á heimasvæði þeirra.

Ég treysti á nýja ríkistjórn að taka á þessum málum af festu.  

 


mbl.is Hundrað hælisleitendur úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spá um heiðskírt í Reykjavík

Áramótin samkvæmt skýjahuluspá Veðurstofunnar virðast ætla að verða þannig að heiðskírt verði í Reykjavík, sjá mynd. Gleðilegt ár!Vedur Gamlars midnaetti 2016 


mbl.is Flugeldasalan meiri en í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúgun Hjálmars og Dags gegn borgurunum þarf að linna

Umferd mbl isSósíalista- tvíeykið sem heldur skipulagi Reykjavíkurborgar í helgreip sinni opinberar ídealisma sinn í staðnaðri jólaumferðinni þar sem andstæðingur þeirra er meginþorri almennra borgara sem kjósa að ferðast um á bílum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur marg- rætt það hvernig samgöngumáta hann vill að við notum en nú bætir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs vel í og lýsir sýn sinni við Morgunblaðið 19/12/2016. 

Umferðarkerfið springur hvort eð er

Hjálmar segir það engu breyta þótt byggð verði mislæg gatnamót því framtíðarspár um umferðarþunga sýni að gatnakerfið muni springa ef umferð vegna einkabílsins eykst á sama hraða og hún hefur gert liðna áratugi. "Ef umferð eykst eins mikið til ársins 2040 og hún gerði árin 1987- 2012 þá verður hér allt stopp" segir Hjálmar. Þá rifjast upp fyrir mér skrif hans á vefnum hjalmar.is um aðalskipulagið árið 2014 þar sem segir m.a.:  "Skipulagið markar tímamót. Með því er horfið frá bílmiðuðu skipulagi borgarinnar, sem hefur ríkt hér í 50 ár, og tekið upp skipulag sem setur manneskjuna í öndvegi." 

Einnig segir hann, ef byggt verður í austurjaðri borgarinnar:

"Þá verða úthverfi að innhverfum og bílaumferðin á stofnbrautum borgarinnar austur og vestur kvölds og morgna margfaldast.Það mun lengja vegina í borginni, kalla á óhemju dýrar framkvæmdir við umferðamannvirki, auka svifryksmengun og vinna gegn almenningssamgöngum, hagkvæmri nýtingu innviða og skynsamlegri landnýtingu. Það er algjörlega glatað."

Þessum bílum verður ekið

Þetta er í höfði Hjálmars, en hver er svo raunveruleikinn? Fólk endurnýjar bíla sína og vill nota þá, hver metmánuðurinn rekur annan í bílasölu og umferð. Ferðamenn (fjölgar um 30% á ári) sem hingað koma vilja gjarnan líka vera á bíl eins og heimamenn, enda er það sjálfsagt hér í rýminu á norðurhjara. Tölurnar sýna skýrt að yfir 80% ferðalaga fólks á Reykjavíkursvæðinu á veturna er á bílum, þrátt fyrir gott framboð strætisvagna.

Áætlun Samfylkingar

Um 12.000 bílar bættust í umferð Reykjavíkur á þessu ári en Hjálmari Sveinssyni finnst ekki vert að framkvæma í takt við þróunina, heldur í samræmi við stefnu hans og Dags sem hefur beðið skipbrot, enda hefur stuðningur við Samfylkinguna í borginni helmingast frá síðustu kosningum. 

Stopp í umferðinni

Á meðan kúgunarfélagarnir eru við stjórn stíflast umferðin meðvitað, enda er það beinlínis í skipulaginu að hægja á henni. Það tókst nokkuð vel því að meðal- ferðatími fólks til vinnu og skóla hefur lengst um 12 mínútur á nokkrum síðustu árum. Þannig fórnum við 24 mínútum á dag vegna stefnu þessa fólks sem er þvert á vilja einstaklingsins til að stýra sínu lífsmynstri sjálfur. 

Kjósið þau burt

Það mun taka fjölmörg ár að vinda ofan af þessum uppsöfnuðu mistökum í borginni, en bráðum kemur tækifærið til þess að hefja það langa leiðréttingarferli og kjósa fólk til valda í Reykjavík sem vinnur fyrir borgarbúa en ekki gegn þeim.

 


mbl.is Vegamálastjóri gagnrýnir borgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi umræða um svifryk heldur áfram

Svifryk 2016 desUm leið og svifryksmengun rýkur upp þá afsakar Reykjavíkurborg sig strax með nagladekkjanotkun íbúanna, þegar óþrif hennar og landburður í austanátt af heiðunum eru sannarlega yfirgnæfandi þættir, en nagladekk komast ekki í hálfkvisti við þá. Þetta er augljóst þegar horft er út til veðurs eða til mælinga á því, borið saman við svifryksmælingar. Eftir öskugosið í Eyjafjallajökli varð þetta mjög skýrt, svo bættist öskugosið 2011 við, en hvorttveggja hleðst ofan á almennan uppblástur á heiðunum. 

Kemur af fjöllum

Svifryk 2016-12-10 vedurSvifryksmengun er að jafnaði ekki mikil í Reykjavík, enda skolast hún út í kant gatnanna í bleytu, samsetningur af salt- uppleystu of-þunnu jurtadrullu- malbiki og aðallega áföllnum jarðvegi sem blæs mest í milljónum tonna af heiðum landsins (sjá línurit til hliðar). Í þurrki segist borgin ekki geta þrifið göturnar, en lætur það vera í rigningunni og leyfir skítnum að hrannast upp. Síðan kemur þurrkur, blæs af austri og strætó keyrir með kantinum og eys ófögnuðinum yfir okkur öll. Tilsvör borgarinnar um þetta athafnaleysi eru gjarnan með ólíkindum, en alltaf skal tönnlast á nagladekkjum, sem náðu 17% sem orsakavaldur þegar reynt var að mæla það. Hvað um hin 83 prósentin? Margir hafa bent á þessa þætti, en þetta heldur ótrautt áfram.

Tökum á vandanum sjálfum

Þungir bílar eins og strætó, rútur og flutningabílar slíta malbiki margfalt á við fólksbíla, af hverju minnist borgin ekki á það? En sama af hvaða orsökum skíturinn er, hann þarf að fjarlægja og borgin stendur sig ekki í því, heldur sparar sér aurinn og sendir okkur mörg á heilsugæslurnar í staðinn.

Nagladekkin hafa bjargað mörgum mannslífum og halda því áfram. 


mbl.is Sextánföld svifryksmengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband