Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Umboðslausar flokksforystur

johanna_sigurdardottir_vf_is.pngÍ hvers umboði starfa þingflokksformenn nú? Andstaðan við Icesave lausnir er 60-75% í hverjum flokki nema hjá Samfylkingunni, sem er með þveröfugt hlutfall en um 22% kjörfylgi. Þjóðaratkvæðagreiðsla er framundan. Ef forystumenn flokkanna álpast til þess að veikja stöðu okkar gagnvart mótaðilum í Icesave- deilunni enn einu sinni með miðjumoðslausnum, smánarlækkun ofurvaxtanna eða með því að krukka í skilmálahræin í stað þess að byrja á núlli, þá er þeim ekki viðbjargandi.

Okkur er öllum ógreiði gerður með þessum málaleitunum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, loksins þegar hún virðist ætla að styrkja málefnalega stöðu Íslands. Á hverjum degi eftir höfnun staðfestingar forsetans þá kemur betur í ljós hvernig IMF-ESB maskínan reynir að valta yfir okkur þegar á bjátar, en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gefur jafnan eftir. Látum þetta allt koma fram í dagsljósið og þjóðaratkvæðagreiðsluna verða að veruleika, annað verður aldrei nema til ófagnaðar.


mbl.is Þverpólitísk nefnd um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn maður, eitt atkvæði, loksins!

Pétur H. Blöndal alþingismaður bendir réttilega á að öflug hagsmunasamtök, t.d. Samtök atvinnulífsins geti notað afl sitt til þess að skekkja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave- frumvarp ríkisstjórnarinnar. Framkvæmdastjóri SA hefur nú þegar gengið hart fram í því markmiði að mínu áliti eins og sjá má í tenglunum hér að neðan.

 

Veikara lýðræði með afskiptum samtaka

Lýðræðinu er ekki greiði gerður með þessum framgangi. Forysta SA (amk. Vilhjálmur) hefur haldið ESB- aðildarumsókninni hátt á lofti og sést ekki fyrir í þeim atgangi, sbr. í því að telja Icesave- “lausnina” vera það eina rétta í stöðunni. Raunar virðist það ekki einu sinni vera stefna samtakanna sjálfra (SA), heldur forystunnar, svo að þar er lýðræðið veikt, sem sést á vef SA (feitletrun mín):

 

SA vefur adalfundur

„Á sama tíma og samstaða ríkir um mikilvægi EES-samningsins eru skiptar skoðanir innan atvinnulífsins um kosti og galla mögulegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu. En þótt Evrópumarkaður hafi löngum verið langmikilvægasti útflutningsmarkaður landsins og aðgangur íslenskra fyrirtækja að honum sé greiður, ber jafnframt að tryggja eftir fremsta megni greiðan aðgang íslenskra fyrirtækja að öðrum mörkuðum. “


(Viðhorf SA til ESB)

„SA hafa ekki ályktað um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Í desember 2008 voru kynntar niðurstöður skoðanakönnunar meðal félagsmanna SA um afstöðu þeirra til þess hvort samtökin ættu að beita sér fyrir aðild að ESB og upptöku evru. Könnunin sýndi meirihluta í fimm aðildarsamtökum SA fyrir því að samtökin beittu sér fyrir aðild Íslands að ESB og upptöku evru. En meirihluti í þremur aðildarsamtökum SA var því andvígur. Á grundvelli niðurstaðna könnunarinnar var staðfest að SA myndu ekki beita sér fyrir aðild Íslands að ESB. Samtök atvinnulífsins verða þó áfram virk í Evrópuumræðunni og munu Samtök atvinnulífsins gæta hagsmuna allra aðildarsamtaka á grundvelli þess að skoðanir eru skiptar um hvort sækja

eigi um aðild Íslands að ESB eða ekki.“

 

Einstaklingurinn í fyrirrúmi

Viðtöl við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA fyrr og nú virðast bera með sér að einhugur sé um það innan aðildarsamtaka SA að þau kjósi aðild að ESB og að Icesave- samning ríkisstjórnarinnar beri að staðfesta í þjóðaratkvæðinu. En það er ekki svo og er ég því feginn að lýðræði þjóðaratkvæðagreiðslunnar sé í fyrsta sinn á Íslandi hið langþráða takmark, „Einn maður, eitt atkvæði“ og hvet ég hvern þegn landsins til þess að nýta sér þann dýrmæta rétt til þess að hafna alfarið Icesave- afarsamningunum.

 

Loksins er komið að því að munað getur um hvern kjósanda til beinnar ákvörðunar um framtíð þjóðarinnar. Látum stjórnir þungavigtar- hagsmunasamtaka ekki afvegaleiða okkur í því efni, á hvorn veginn sem er.

 

PS: Vilhjálmur í fréttum:

http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4714/

http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4716/

http://dagskra.ruv.is/ras1/4486849/2010/01/05/5/

http://www.visir.is/article/20100103/FRETTIR01/257458508


mbl.is Hætt við að umræðan skekkist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðslaus ríkisstjórn í Icesave- málinu

Johanna IcesaveRíkisstjórn Jóhönnu Sig. er umboðslaus í Icesave- málinu og er einn helsti andstæðingur þess að íslenska ríkið komist  sæmilega klakklaust frá þessari þraut. Vinstri græn hafa víst aukið við fylgi sitt, en sá flokkur stendur gegn Icesave- uppgjörinu og móður þess, ESB aðildarumsókn Íslands.  Það er flokkur forsætisráðherrans, Samfylkingin með sitt dalandi fylgi, sem er nær eini sanni málsvari Icesave- gjörningsins, því að jafnvel Steingrímur J. verður að hlíta kalli kjósenda sinna. Ríkisstjórnin talar ekki í umboði fólksins þegar hún lofar því út um allar trissur að við munum greiða Icesave- trygginguna. Öðru nær, umheimurinn gerir sér nú æ betur grein fyrir því að lagaleg og siðferðisleg staða Íslands er sterk.

Vakning í umheiminum

Aðdáunarverð andstaða fólksins í landinu við þjóðnýtingu einkaskulda berst nú eins og eldur um sinu um vesturheim.  Umskipti til batnaðar eru að verða í umræðunni, frá vanhugsuðum fullyrðingum um siðferðislega skyldu yfir í spurninguna um sanngirni og réttlæti heillar þjóðar. Breskum almenningi fer smám saman að verða ljóst að ríkisstjórn þeirra átti ekki að þjóðnýta skuldir einkabankanna, greiða innistæðueigendum og ætlast svo til að aðrir geri slíkt hið sama, allt í nafni jöfnuðar og sanngirni, sem er fjarri sannleikanum. Gjaldþrotaskipti eru sanngjarnasti kosturinn, þar sem aðrir ótengdir eru ella dregnir inn í hóp greiðenda skuldanna og heillegir bankar styrkjast frekar.

Stjórnvöld í Evrópu ókyrrast

Stjórnvöld í Bretlandi, Hollandi og raunar öllu ESB verða öllu ákveðnari en áður að kveða þennan almannadraug Íslendinga niður, þar sem áhlaup á bankana þeirra verður æ líklegri og óánægja með skattheimtu og óráðssíu með almannafé snareykst.

Forsetinn sjái um almannatengslin

Samningsstaða Íslands er best ef ríkisstjórnin hefur vit á því núna að halda sér saman og láta Ólaf Ragnar Grímsson, hæstvirtan forseta Íslands, sjá um almannatengslin alfarið fram að þjóðaratkvæði. Aðrir sem halda því fram að við munum greiða einkaskuldirnar, ss. Bjarni Benediktsson, ættu líka að hafa hægt um sig. Icesave2 frá því í haust var ekkert til þess að hrópa húrra fyrir og var blessunarlega hafnað af Bretum og Hollendingum.  Við greiðum einungis það sem við verðum dæmd til þess að greiða, enda eru skuldirnar ærnar fyrir.


mbl.is Sátt ekki í sjónmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkindadagur: Vilhjálmur bregst en forsetinn bjargar öllu!

Bessastadir 1100 05012010 IPForseti Íslands bjargaði andlitinu, embættinu og þjóðinni í gærmorgun. En Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins situr enn við sinn keip og vill Icesave og ESB, sama hvað á gengur!

 

Ögurstund

Komið er að úrslitastundu hjá Sjálfstæðisflokknum.  Ljóst er að um ¾ hlutar kjósenda hans standa gegn Icesave- kvöðum, IMF- aðstoð og ESB- aðild. En fjórðungur Vilhjálms, Þorgerðar Katrínar ofl. gerir hinum þrem fjórða hlutnum ansi erfitt fyrir. Þetta kom raunar strax í ljós á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir ári, þar sem þeim hluta vinnu okkar í Endurreisnarnefndinni  sem mestu máli skipti var stungið undir stól og út var prentað plagg sem við könnuðumst ekkert við og Davíð Oddson nefndi réttilega öllum illum nöfnum.  Útvatnaðar Evrópuklisjur sem gögnuðumst engum nema andstæðingum flokksins í kosningum og til þessa dags.

 

Forsetinn til bjargar

Hver kom þá til bjargar og hífði okkur öll upp úr Samfylkingarsvaðinu víðfeðma?  Ólafur Ragnar Grímsson, hæstvirtur forseti Íslands (alltaf héreftir)! Með aðgerð sinni  þá styrkir hann sjálfstæði þjóðarinnar allrar. En aukabónus er að hann styrkir í raun sannan kjarna Sjálfstæðisflokksins, stærsta stjórnmálaafls á Íslandi, þ.e. þá ¾ hluta sem treysta á mátt okkar og megin, en ekki á náð hvikulla leiðtoga í Brussel, Haag og í London.  En formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, fæst samt ekki til að stíga skrefið til fulls og lýsa yfir óskoruðum rétti Íslendinga til dómstólaleiðarinnar á þessum örlagatíma, þótt hann kveði alltaf örlítið fastar að orði í hverju viðtali. Tönnlast er á orðum Jóhönnu forsætisráðherra í erlendum fjölmiðlum í gær sem oftar að við munum greiða skuldbindingar „okkar“ að fullu eins og „samið“ var um en Bjarni fæst ekki til að andmæla því beint. Staðan versnar því stöðugt.

 

Skýrari afstöður í Sjálfstæðisflokkinn

Ekkert grillad IPÁ meðan framkvæmdastjóri SA, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og (suma daga) jafnvel formaður flokksins eru Samfylkingar- volgir í sinni afstöðu til Icesave- málsins dýpkar stöðugt sú gröf sem grafin er þjóðinni. Nú er lag, Sjálfstæðisfólk! Látið heyrast í ykkur, þögli meirihluti, sem hvorki græðir á daginn né grillar á kvöldin við þessar aðstæður.  Nú er slagurinn tekinn og afstöður skýrast. Þjóðstjórn eða friður verður aðeins möguleg ef staða hvers aðila er á hreinu, annars heldur þetta moð áfram til eilífðarnóns.

Bessastadir 05012010 IP


mbl.is „Gríðarleg óvissa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitt og kalt er ekki volgt

gallupmbl_loftslags.pngGallup sýnir mismunandi áhyggjustig fólks vegna loftslagsbreytinga eins og hér sést til hliðar. T.d. hefur drjúgur meirihluti eldri VG kjósenda af kvenkyni  miklar áhyggjur vegna loftslagsbreytinga á meðan ungir sjálfstæðiskarlar missa ekki svefn yfir þeirri meintu vá. Almennt þá hafa 61% VG kjósenda miklar áhyggjur af þessu, en 27% kjósenda D- listans.  Það eru því 225% fleiri með þessar miklu áhyggjur vegna þessa hjá VG heldur en hjá D-lista. Brennheitt vatn úr öðrum krananum og ískalt úr hinum þýðir ekki að volgt vatn renni á hendurnar. Hægri höndinni er gerólíkt farið þeirri vinstri.

Ofangreint sýnir hve meðaltöl heildarhópa geta verið villandi: „Ríflega 40% með miklar áhyggjur“.  Því fer fjarri, því að 73% kjósenda D- lista, vinsælasta stjórnmálaflokks á Íslandi, hafa ekki teljandi áhyggjur af loftslagsmálum. Endalaus mötun fjölmiðla virðist ekki hafa náð að afvegaleiða þetta fólk að sama skapi og kjósendur ríkisstjórnarflokkanna, sem hafa miklar áhyggjur af batnandi veðurfari norðurhvels jarðar.

Áhyggjur okkar beinast frekar að því hve illa vinstri stjórnin fer með nútíðina, ekki það hvort ísinn á Grænlandsjökli verði minni eða meiri eftir 50-100 ár.

PS: PDF-Tengillmeð Gallup- könnuninni er í frétt MBL.is

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/01/taep_14_prosent_myndu_skila_audu/

 


mbl.is Margir hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband