Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Yfirlýsing fyrir sumarfrí pólítíkusanna

Yfirlýsing Seðlabankastjóra Evrópu á þessum degi árs fer að verða árlegur viðburður, en færir engar lausnir og breytir engu um markaðina. Stjórarnir komast í frí, Merkel fer í fjallgöngur og markaðirnir lulla áfram á meðan hækkunin gengur rólega til baka, enda mikið um uppgjör á skortstöðum í þessari skyndihækkun á Evrunni.

En Draghi má ekkert róttækt gera nema fjármálastjórn Evrulanda færist á eina hendi, ægihramminn. Megi það aldrei verða.


mbl.is Evrópa rís eftir ræðu Draghi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldséður fugl hér

Hopur Evruskrofa

Sést hefur til fuglsins Evruskrofu (lat. Johannis Sigurdiensis) á Íslandi. Það þykir nokkuð sérstakt hér á landi, enda heldur Evru-skrofan sig mjög til hlés, nema þegar hún kemur saman í mjög stórum hópum í helstu heimkynnum sínum, þá heyrist gjarnan ærandi hópgarg hennar: „vvvvææææææællllllllll, vvvæææææælllll“. Annars eru hljóðin yfirleitt lágvært gagg, líkt og í hænum.

Þekkja má Evruskrofu á hvítu álútu höfðinu og beittum bognum goggi. Fætur eru rauðir, með löngum beittum klóm. Erfitt er að sjá muninn á karldýri og kvendýri, þar sem kvenfuglinn líkir svo mjög eftir háttum karlfuglsins að nær ómögulegt er að greina þau í sundur. Karfuglar Evruskrofunnar eru fáir og farnast illa vegna sérstæðra lífshátta hennar, að lifa afætulífi, nær alfarið á því sem aðrir færa þeim.

Evruskrofa lifir aðallega á því sem fellur til hjá öðrum hæfari tegundum þegar þær safna birgðum fyrir afkvæmi sín. Stórir hópar þessarra fugla fara um, aðallega í borgum og ræna því sem safnast hefur. Hún laumast líka í hreiður annarra fugla, líkir eftir hljóðum þeirra og háttum og nær þannig að nýta sér það sem borið er í hreiðrið, jafnvel svo að ungar hinna fuglanna ná aldrei að þroskast.

Fuglinn hefur verið tiltölulega sjaldgæfur hér á landi, en lifir helst í þéttbýli í Mið- Evrópu, aðallega í Belgíu. Þó hefur hlýrra loftslag borið þennan flökkufugl hingað til lands, en hann getur ekki bjargað sér hér, lifir ekki af íslenskan vetur og farnast best sem hópvargur í helstu heimkynnum sínum í borgum Evrópu.

Evruskrofa ber með sér bakteríuna Socialis (lat. Politicus Socialis) sem spillir helst hreiðrum annarra fugla og veikir getu þeirra til þess að bjarga sér sjálfir án þess að vera í hópi.

Líta verður á Evruskrofu sem óværu í íslenskri náttúru.


Stefna VG og Steingríms J.

Vinstrigraen afturabak

Allt í einu man Steingrímur J. eftir því hver stefna VG er. Hann er enn allsráðandi- ráðherra af því að hann sveik stefnu Vinstri grænna vegna ESB, AGS, Icesave, einkavæðingar bankanna osfrv. osfrv. Ef formaðurinn tekur enn mark á sínum flokki, þá slítur hann þessari ríkisstjórn nú þegar, enda stendur hún gegn flestu því sem VG stendur fyrir.

Lifum ekki í blekkingu: Vinstri græn munu ekki samþykkja olíuhreinsunarstöð, hvar sem er á Íslandi. Olíuborun úti í hafsauga er kannski samþykkt hjá VG ef ekkert sést til hennar og vondu alþjóðafyrirtækjanna, nema ofurskattarnir sem lagðir verða á starfsemina, raunar svo háir að enginn hefur áhuga á að bora.

En VG getur treyst því að Steingrímur J. fylgir stefnunni út í æsar sem fyrr. Hann lætur sko Samfylkinguna ekki afvegaleiða sig.

 

Úr utanríkisstefnu VG (feitletranir ÍP):

„Við teljum að öll ríki heims eigi að hafa óskoraðan rétt og tækifæri til að nýta auðlindir sínar á skynsamlegan hátt í því augnamiði að byggja upp velferðasamfélög sem standast kröfur um sjálfbæra þróun. Til þess að svo megi verða þarf að leysa hinar fátækari þjóðir af skuldaklafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, og endurskoða starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá grunni. Leikreglum heimsviðskipta þarf að gerbreyta til að tryggja félagslegt jafnrétti og virðingu fyrir öllu umhverfi.

Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópursambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.“


mbl.is Olíuhreinsun yrði þvert á stefnu VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elta evrópska hrunið uppi

EU dream Cartoon movement

Helstu þrenn stefnumál Samfylkingar í utanríkismálum eftir landsfund árið 2009 voru þessi: 1) Aðildarviðræður við ESB, 2) deila fullveldi í stjórnarskrá og 3) stofna málefnanefnd um Evrópumál. Flokkurinn dró síðan VG og aðra með sér í þá utanvegaferð og er enn ákveðinn í þessu, þrátt fyrir augljóst hrun í Evrópu. Þjóðin lætur leiða sig áfram út í fenið og sér ekkert að því að deila fullveldinu í stjórnarskránni með öðrum til þess eins að sjá loksins hvað er í hörmungarpakkanum, eins og það liggi ekki fyrir í fréttum dagsins.

Fórnarkostnaðurinn er hrikalegur, þar sem t.d. orka Utanríkisráðuneytisins ætti að fara í norðurslóðir og samskipti Íslands við aðrar þjóðir vegna þeirra. Ráðuneytin eru undirlögð í að taka upp rómverska lagabálka og láta einfaldar staðbundnar reglur víkja.

Helsti hagnaðurinn af því að ganga í ESB og taka upp glæsta Evru árum síðar átti að vera lægri vextir. Nú er sá falski tími örugglega liðinn. Vextir í Evrulöndum hafa margfaldast og eru nú orðnir ósjálfbærir á Spáni eins og í Grikklandi, Portúgal og víðar.

Nú er lýðnum ljóst að þetta gengur ekki lengur. Látum þá til skarar skríða gegn þessari Evrópu- Hrunstjórn nú þegar með öllum ráðum, í stað þess að fljóta öll að feigðarósi í Arabíska Haustinu.

 

Hér fylgir textinn frá samfylkingin.is

 1. Hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið strax eftir kosningar og bera samninginn undir þjóðaratkvæði.

 2. Setja í stjórnarskrá ákvæði sem heimilar að fullveldi sé deilt með yfirþjóðlegum stofnunum og alþjóðastofnunum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Slík ákvörðun tekur þvíaðeins gildi að sé staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu.

3. Stofna innan flokksins sérstaka málefnanefnd um Evrópumál. Hún á að hafa forystu um starf flokksins á þessum vettvangi, samhæfa starf annarra málefnanefnda í þessum viðamikla málaflokki og laða til samstarfs og ráðgjafar einstaklinga og hagsmunaaðila sem hafa reynslu og sérþekkingu á einstökum þáttum. Nefndin hafi að auki það hlutverk að stuðla að öflugri upplýstri fræðslu og almennri umræðu um Evrópusambandið og stöðu Íslands og annarra ríkja innan þess á næstu vikum og mánuðum.

 


Hrun Evrulanda fellir fiskinn

Cod

Hrun Evrulandanna í Suður- Evrópu hefur afgerandi áhrif á Íslandi, sérstaklega á útflutning sjávarafurða, þar sem þessar þjáðu þjóðir hafa æ minni efni á bestu vörunni, t.d. stórum þorski héðan. Snarminnkuð eftirspurn eftir dýrri vöru í þessum hrjáðu löndum eykur framboðið annað og veldur lækkuðum verðum. Ofan á það bætist stóraukinn þorskkvóti í Barentshafi. Sem betur fer er Íslendingum fært að auka þorskkvóta sinn til þess að koma aðeins á mót við lækkunum á markaði, en framboðsaukning okkar er það lítill hluti heildarinnar að það hefur ekki úrslitaáhrif til frekari lækkunar á heimsmarkaði.

Samkeppni og erfiður lánamarkaður

Við ofangreint ástand á fiskmörkuðum bætist við verðfall á laxi, t.d. vegna mikilla birgða frá Chile. Hillur súpermarkaða fyllast því af tilboðum sem lækka verð á gæðafiski yfirleitt. Lánastarfsemi til fiskframleiðenda og kaupenda hefur einnig tekið stakkaskiptum á heimsvísu. Kaupendur fást ekki greiðslufallstryggðir og framleiðendur fá ekki nema takmörkuð afurðalán. Samkeppnislönd okkar fá gjarnan óbeina ríkisaðstoð við markaðsstarf sitt, sem erfitt er að keppa við.

Ríkið er erfiðasti hlutinn 

En verst er þegar stjórnvöld hér leggja álög á fiskiðnaðinn og gera útgerð og framleiðendum beinlínis ómögulegt að standa sig í samkeppninni. Þau virðast gleyma því að „ávöxtun í fortíð gefur ekki ábendingu um ávöxtun í framtíð“. Lagðar eru álögur á sumpart glæsta fortíð, sem tryggja erfiða framtíð, þegar ljóst er hvernig ástandið er þegar orðið í Evrulöndunum, helstu markaðslöndum okkar, en þau eru jafnframt draumalönd núverandi ríkisstjórnar.

Búast verður við áframhaldandi lækkuðum verðum á fiskmarkaði. Hverjar þær áætlanir stjórnvalda sem miða við annað munu einungis bæta grjóti í bakpokann, þegar okkur er sagt að hlaupa hraðar.


mbl.is Þorskverð gæti lækkað mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vingulsháttur og rangtúlkanir

Makrill FAOÓsköp er beinlaust nefið á ráðherra ef hann fær sig ekki til að leyfa löndun á Íslandi á makríl af Grænlandsmiðum, jafnvel af hálfíslenskum skipum. Hann setur sig í dómarasæti um makrílinn, sem brýtur allar mannanna reglur og færir sig til að vild, milljón tonn sunnan úr höfum Evrópumegin og kannski góður slatti af frændum hans frá Ameríkuhliðinni upp með Grænlandi.

Lögin sem ráðherra reynir að skýla sér á bak við má túlka örþröngt eins og hann gerir, eða víðara sem er sjálfsagt og hentar hagsmunum Íslendinga og Grænlendinga.

Eltingarleikur Steingríms J. við Evrópusambandið tekur á sig ýmsar myndir. Þetta er ein þeirra.


mbl.is Fékk ekki að landa hér makríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af strandi og björgun

StrandSkerjo 098

Skúta strandaði á lúmskum stað í Skerjafirði fyrir framan hjá mér. Kyrrðin var slík að gott kallfæri var þangað yfir, en strax virtist ljóst að enginn væri í hættu. Smáskerjarani nær út úr skerinu fyrir framan varnargarðinn í Skildinganesi, en þau sker koma aðeins í ljós á stórstreymisfjöru. Kjölur skútunnar náði ysta enda skerjanna.

Björgunarbátar náðu að draga skútuna af staðnum og til hafnar á þessum fallega degi.

Smellið þrisvar á myndirnar í albúminu hér til hliðar til þess að sjá þær í fullri upplausn. 


mbl.is Skúta strand við Skerjafjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marðar- Njóli

Öllu er viðsnúið, nú er víst njólinn góður!:

Falleinkunn nú fengu þeir,

fínir garðar fóla.

En meta skal þá öllu meir

flottan Marðar- njóla.


mbl.is Kemur njólanum til varnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framlag til umhverfisvænna mannlífs

Tvaer Sulur

Starfsemi Fjarðaáls og annarra íslenskra álframleiðslufyrirtækja sannar sig enn sem framlag Íslendinga til betri heims. Furðu vekur að fólk sem telur sig umhverfissinnað hér á landi skuli níða skóinn af íslenskum  áliðnaði, á meðan erlendir umhverfissinnar horfa helst til þess að starfsemin erlendis verði eins og á Íslandi einhvern tíma í fjarlægri framtíð.

Álið og útfluttar sjávarafurðir eru hvort um sig 40% útfluttra afurða þjóðarinnar. Þetta eru traustu súlurnar tvær, eins og Öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar í merki Reykjavíkur. Fólk ætti að þakka forfeðrum sínum og samtímamönnum, sem náðu að reisa þessar súlur, í stað þess að höggva stöðugt í þær með meitli eins og Jóhanna og Steingrímur, eða kaffihúsagengi þeirra í Reykjavík 101.


mbl.is Fluttu út fyrir 95 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófsteinninn Makríll

Makrillinn

Nú drögum við skýra línu gagnvart ESB. Makríllinn verður prófsteinn á þetta aðildarþref. Tómas Heiðar, samningamaður Íslands stóð á rétti okkar og var færður úr starfinu fyrir vikið. Össuri og Jóhönnu finnst þetta eflaust vera bara einhverjar tölur á skjá sem megi lækka hjá okkur, en þetta er auðlindin, störfin, rétturinn, lifibrauðið, sanngirnin og allt það sem felst í því að stjórna eigin landi og miðum til farsældar.

Stjórnin hefur ekki umboð þjóðarinnar til þess að semja af sér í þessu grundvallarmáli. Makrílstofninn er að koma sér fyrir hér og við verðum að nýta þann rétt sem því fylgir, ekki að hræðast hafnbannshótanir ESB, sem kann ekkert með auðlindir að fara, eins og þau hafa viðurkennt sjálf. 


mbl.is Strandar á makríldeilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband