Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Af hverju þá sem voru kosnir ólöglega?

johanna_sig_forbes_100.pngJóhanni Sig. ein valdamesta kona í heimi (sbr. Forbes) fer ekki hyggilega með vald sitt. Hún hunsar æðsta dómsvald landsins eins og við séum þegar komin inn í ESB. Af hverju á að ráða þá 25 sem voru kosnir ólöglega (vegna hættu á misjafnri útkomu) eða þá sem á eftir komu? Af því að forsætisráðherra líst vel á skoðanir þeirra? Kosningin var ólögleg og þar með röð umsækjendanna allra. Alþingi ætlar þá að setja lög sem hygla einum einstaklingi umfram annan án stoðar í lögum.

Þetta er allt gegnsæið og réttlætið sem við eigum að kyngja frá þessum löglausu stjórnvöldum. Ekki hleypa þessu í gegn!


mbl.is Alþingismenn hafa guggnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er Alþingi að

Hæstiréttur dæmdi kosningu 25 fulltrúa Stjórnlagaþings ólöglega. Þá ræður Alþingi það sama fólk til þess að vera ráðgefandi um stjórnarskrá! Ekki nema von að Ögmundi blöskri. Virðingarleysi ráðamanna fyrir dómsvaldinu er slíkt að þeir eru óhæfir til þess að samþykkja lög sem síðan á að dæma eftir. Nú hafa Jóhanna Sig og Svandís Svavarsdóttir sannað þetta virðingarleysi hvor um sig.

Hve oft á forsætisráðherra landsins að lýsa frati á dómsvaldið áður en hún verður sett af? Er þetta Mubarak/Gaddafi- heilkennið sem er í gangi hér? Þrískipting valdsins er grundvallaratriði sem ekki verður litið hjá, frekar en fullveldinu. Jóhönnu er kannski sama, en ekki okkur þegnunum.


mbl.is Ögmundur ósammála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti þjóðarinnar

Forseti Íslands stóð aftur með þjóðinni. Formaður Sjálfstæðisflokksins hóf strax einkabaráttu sína með Icesave, gegn meirihluta flokksmanna sinna í stærsta stjórmálaflokki landsins. Bjarni Benediktsson nýtir stöðu sína til þess að mæla með samningi sem landsfundur hans stóð ákveðið gegn.  Nú er ekki lengur um að ræða hans ískalda mat, heldur flokksins og þjóðarinnar sem stendur á móti þessu.

Til hvers eru menn kosnir?

Kaus fólk Sjálfstæðisflokkinn til þess að formaður hans berðist fyrir Icesave- gjörningi? Eða kaus það Vinstri græn til þess að Steingrímur J. gerði slíkt hið sama? Ég efast um hvort tveggja.  Bjarni Ben hefur komið sér í þessa vonlausu stöðu, eins og í janúar 2010 í stað þess að fylgja sínu fólki að málum. Hann ætti í mesta lagi að segja núna: „Ég hef sagt mitt um þessa samninga, nú gerir þjóðin það án frekari íhlutunar minnar “.

Líkindamat á upphæðum

Staðreyndir Icesave- málsins urðu nokkuð skýrar í lokin. Þannig varð t.d. nokkuð ljóst að engin skýr lagaleg skylda hvíldi á íslenska ríkinu að greiða þetta. Rökin færðust þá yfir á hræðsluna vegna dómsmála og það verður meginröksemdin. Vonandi fer þá fram alvöru líkindamat á upphæðunum í slíku fram, því að svo virðist sem við yrðum í mesta lagi verða dæmd til þess að greiða nokkurn veginn samningsupphæðina.

Lýðræðið alla leið

Sem Sjálfstæðismaður geri ég þá kröfu til flokks míns að lýðræðið í honum nái fram að ganga. Ef svo undarlega vill til að skoðanir flokksmanna hafa snúist í átt til forystunnar, þá þarf að kanna hug þeirra áður en forystan fer að nota fé og tíma flokksforystunnar til þess að berjast fyrir Icesave- klöfunum, sem eru ekki „bara“ þessir eilífðar 50 milljarðar króna heldur margföld upphæð í venjulegum gegnissveiflum.


mbl.is Forsetinn staðfestir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins er sorfið til stáls

esbstjornur.pngLoks svarf til stáls í þingflokki Sjálfstæðisflokksins varðandi ESB- umsóknina eftir Icesave- klúðrið. Þorgerður Katrín, fyrrverandi varaformaður flokksins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir vörðu ESB- umsókn vinstri stjórnarinnar, en þær eru einmitt í forsvari regnhlífarsamtaka ESB- aðildarsinna sem stofnuð voru þann 16. febrúar síðastliðinn.

Sjálfstæðisfólk berst gegn Lissabon- aðferðinni

Unnur Brá Konráðsdóttir, talsmaður hins almenna Sjálfstæðismanns, talaði fyrir ágætri tillögu sinni um að draga ESB- aðildarumsóknina til baka og naut styrks nokkurra annarra Sjálfstæðisþingmanna til þess.  En Þorgerður Katrín og Ragnheiður, sem löngu er orðið ljóst að eru í kolröngum flokki fyrir skoðanir þeirra, fara líklega brátt að geta beint á réttu staðina hundruðum milljóna króna, ef ekki milljörðum til félaga sem eiga að troða ESB aðild inn í hausinn á fólki með auglýsingum, áróðri og endurtekningu. Gamla Lissabon- aðferðin hlýtur að virka á þetta eins og á stjórnarskrá ESB (Lissabon- sáttmálann) og Icesave, að halda áfram gegn nei-inu endalaust þar til peninga- áróðursmaskínan nær já-i.

Bjarni Ben með kjafti og klóm? icelandeu.png

En aftur að tillögu Unnar Brár: ef Bjarni Benediktsson styður tillöguna heilshugar og berst fyrir henni með kjafti og klóm, þá er enn von með forystu flokksins. En ef hann segist geta tekið þetta til greina, íhugi þetta, situr hjá og vildi sjá einhverja aðra útfærslu eða láta umsóknina renna sitt skeið, þá er engin von.

Sameinuð í samfylkingu ESB?

Til þess að sjálfstætt fólk geti komist úr sporunum, þurfum við öll að fá á hreint hvora lestina hver og einn þingmaður ætlar að taka: ESB- aðild eða ekki. Það eru engir teinar inni á milli. Það er ljóst hvaða klúbbur ESB er, eins og forsetinn nefndi. Brussel er dæmigerð fyrir klúbbinn: stödd í Belgíu sem hefur verið í stjórnarkreppu lengur en allar þjóðir heims nema Írak, vegna þess að Belgía er í raun aðallega tvö lönd. Evrópusambandið hefur að sama skapi skipst í tvenn svæði, norðrið og jaðarlöndin. Efnahagslegur himinn og haf er á milli svæðanna tveggja. Norðrið getur ekki dregið jaðarinn áfram lengur.

Vaxtakostnaður hverrar þjóðar 

Fjölmargir viðskiptajöfrar og sérfræðingar heims sem hafa tjáð sig opinberlega viðurkenna að Evrukerfið og samstýring Evrópska hagkerfa  mun ekki ganga upp í því formi sem það er nú. Þörf yrði á frekari  samstýringu og samhæfingu en það væri frekleg inngrip inn í sjálfstæða efnahagsstjórn hvers ríkis. Því er þetta fast í lás. Einnig er krafist enn frekari fjárútláta til bjargar Grikklandi, Írlandi, Portúgal ofl. ofl. En þau ríki eru komin í ósjálfbæra stöðu, þar sem einu ráðin eru skuldaniðurfellingar banka, ríkin send í „klippingu“ (e. haircut). Vaxtastig þessarra ríkja umfram þýsk skuldabréf er komið út úr korti, skuldatryggingarálag og ávöxtunarkrafa á skuldabréf þeirra yfirleitt, þar sem verðin á sumum bréfunum eru kannski 70-80% af nafnvirði. Þessi ríki eru læst inni í Evrunni sinni og hafa sannarlega ekki lágt vaxtastig, en sífellt er hamrað á því hér og núna jafnvel í auglýsingum að við myndum fá svo lága vexti. Hver Evru- þjóð hefur sinn mjög svo mismunandi vaxtakostnað, allt eftir því í hve djúpt fen hún sökkti sér.

eumeeting.pngÓkeypis hádegismatur er ekki til

Þótt við værum komin í ESB og með Evru, þá værum við ekki komin með lágan vaxtakostnað. Allt fer eftir markaðnum, t.d. mati hvers viðsemjanda eða matsaðila á greiðslugetu  þjóðarinnar. Eða bara framboði og eftirspurn eftir fjármagni. Á meðan við höfum eina vitlausustu vinstri stjórn sögunnar, þar sem t.d. umhverfisráðherrann getur stöðvað stórframkvæmdir í tvö ár án dóms og laga og komist upp með það, þá er ekki von á fjárfestum eða fjármögnunaraðilum sem eru tilbúnir til þess að lána Íslendingum með lágum Evru- vöxtum eins og við værum Svissnesk kantóna. Búast má við einhvers konar ríkis- þjóðnýtingu hvenær sem er, eins og eignarnámi vatnsréttinda nær án bóta. Eða sköttum, biddu fyrir þér! Jóhanna og Steingrímur J. láta Chavez Venesúelaforseta líta út sem mildan markaðssinna með sósíalista- aðgerðum sínum. Hér eru aðgerðirnar gegn fólkinu.

Vinstri græn til bjargar?

Nú þegar Vinstri græn sáu það eins og allir aðrir að vinstri stjórnin aðhyllist ekki þjóðaratkvæðagreiðslur og stefnir ótrauð á ESB- aðild, þá hljóta þau að efast um samstarfið við ESB- Samfylkinguna. Þessa lest þarf að leiða af braut áður en hún verður óstöðvandi. Á meðan stjórnmálaflokkar almennt lepja dauðann úr krákuskel vegna of stífra reglna um fjárstuðning geta ESB- sinnar auglýst ESB- hrunbatteríið sitt eins og enginn verði morgundagurinn.

Hvetjið þingmenn ykkar til þess að styðja tillögu Unnar Brár: aðildarumsóknina að ESB verður að draga til baka strax.


mbl.is Slæmt fyrir Ísland ef evran hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Forseta Íslands

skjaldarmenrki_slands.pngHæstvirtur Forseti, Ólafur Ragnar Grímsson!

Gjáin milli þings og þjóðar varð að Stóragili í dag, 16. febrúar 2011 kl. 15:24 þegar Icesave III- samningurinn varð að lögum á Alþingi. Þetta gerðist þrátt fyrir það að 62% þjóðarinnar vildi þjóðaratkvæði um samninginn og yfir 30.000 manns náðu að beiðast hins sama með undirskriftalista á nokkrum dögum. Einnig fór nær helmingur Alþingismanna fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, nema þingmenn ríkisstjórnarflokkanna.

Icesave- samningarnir eru líklegir til að valda þjóðinni verulegum búsifjum og ánauð um komandi tíð. Auk þess er sjálfstæði þjóðarinnar í hættu með þessari samþykkt . Ef einhver á að kalla slíkt yfir þjóðina er það hún sjálf. Því heitum við á þig, virðulegi Forseti, að neita ofangreindum lögum samþykkis og að beina þeim til þjóðaratkvæðis.


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurleg uppgjöf

Ég engdist undir málflutningi þingmanns flokks míns, Kristjáns Þórs Júlíussonar um Icesave- uppgjöfina beint frá Alþingi áðan. Nú leggja hinir mætustu menn niður vopnin, af því að verið gæti að við yrðum dæmd síðar til þess að greiða það sem þeir samþykkja fyrir okkar hönd (en án okkar samþykkis) að greiða strax.

Ljóst var skv. lögfræðiálitum að ef svo færi að við fengjum á okkur  Icesave- dóm, yrðum við tæpast dæmd til annars en að greiða lámarksupphæðina plús vexti. Við myndum hvort eð er aldrei geta greitt mörg hundruð milljarða króna.

Enn er það svo að Alþingismenn virðast ekki fylgjast með fréttum utan úr heimi. Stjórnmálamenn í Evrópu og Miðausturlöndum hafa hlaðið svo ánauð á þegna sína að í algert óefni er komið. Nú er almenningur að gera sér grein fyrir því að það sem hentar fulltrúum þeirra á þingi, er alls ekki endilega það sem er best fyrir almenning. Þegar völdin færðust frá bönkum og fjármálastofnunum yfir á stjórnmálafólkið, þá endaði það með skuldsetningu almennings, bókstaflega allsstaðar.

Alþingi vætti brók, en veik von er til þess að forsetinn standi sig enn. Þú og þínir geta gert slíkt líkegra með því að bætast á listann kjosum.is

Nú er kviknað á ljósum fólksins! Tölurnar á Kjosum.is rúlla up eins og á bensíndælu fyrir verkfall.


mbl.is Kosið verði um ríkisábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá SUS

Fínt framtak hjá unga fólkinu í Sjálfstæðisflokknum að standa að ítarlegri kynningu og umræðufundi  í Valhöll í gærkveldi. Þessi fundur hefði mátt vera fyrr, því að upplýsingar og umræður sem þarna komu fram hljóta að fá hverja íhugula manneskju til þess að endurskoða Icesave- afstöðu sína, hafi hún verið orðin jákvæð samningi af Icesave- ofþreytu eftir öll þessi ár.

Icesave og sjálfstæðið

Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd stóð sig hetjulega í réttlætingu ákvörðunar sinnar og forystunnar um að samþykkja Icesave III- gjörninginn. En vandamálið er hve ólýðræðislegi málstaðurinn var slæmur. Styrmir Gunnarsson hélt tvær kjarngóðar ræður sem fjölluðu um málið í víðara samhengi, m.a. þá áþján sem gömlu nýlenduveldin valda og það hvernig þeim tókst ætlunarverk sitt, að láta okkur karpa um smáatriði vaxtastigs osfrv. í stað þess að standa gegn grundvallar- kröfugerðinni öll sem eitt. Ég hvet fólk til að lesa skrif hans um málin.

Indefense, Gamma og áhættugreining

Talsmenn Indefense og ráðgjafinn Gísli Hauksson frá Gamma  reifuðu Icesave-málið vel. Áhættuþátturinn er sláandi og deginum ljósara að hann er nær allur á annan veginn, til hækkunar frá þessum 50 milljörðum sem gjarnan er rætt um varðandi Icesave mismuninn sem lendir á okkur þegnunum. Hann er auðveldlega 200-300 milljarðar króna, allt eftir sveiflu þeirra fjölda breyta sem áhrif hafa á heildarupphæðina, ss. gengi punds eða krónu sem nú er í höftum sem verður að halda áfram með eftir samþykki Icesave og vegna þess. Raunar er skuldbindingin öll vel rúmir 800 milljarðar króna, miðað við ákveðið gengi. Sá sem skrifar upp á ábyrgð verður að gera sér grein fyrir því hve há hún gæti orðið. Ríkisstjórnin fór þó aldrei beint í áhættugreiningu á valkostunum sjálfum. Hún er hætt að koma manni á óvart.

Hræðslan við dóm um mismunun

Einn aðalpunktur þeirra Sjálfstæðismanna sem samþykkja vilja Icesave III er mismununin eftir landssvæði sem dæmt yrði að íslenska ríkisstjórnin hefði sýnt með setningu neyðarlaga, þar sem Íslandi er hyglt. En fari svo að dæmt yrði í slíku máli (sem tæki ár og daga á þremur stigum), þá er áhættan helst sú að við yrðum dæmd til að greiða einmitt þá upphæð sem Icesave III vill að við greiðum, auk einhvers vaxtaauka. Fyrst upphæðin skv. samningnum  sveiflast hvort eð er hrikalega eftir t.d. gengi krónu, þá er áhættan af því að hafna samningnum öll á eina hlið: Eina öryggið er öryggi hárra greiðslna.

Sjálfstæðisfólk gegn straumi þjóðar og eigin flokks

Varla verður um það deilt að meirihluti þingflokks Sjálfstæðismanna hljóp á sig með því að samþykkja Icesave III þvert gegn vilja þorra þjóðarinnar, sérstaklega kjósenda sinna. Núna eftir fundinn hljóta Ásbjörn og Pétur Blöndal (sem var á fundinum) að gera þingflokknum grein fyrir því hve sterk andstaða er við Icesave, sérstaklega hjá ungu fólki í grasrót flokksins og þjóðarinnar.

Erfitt að vinda ofan af þessu

Það mun taka mikla baráttu við Hollendinga og Breta að vinda ofan af þessum Icesave- gjörningi um komandi ár. Fylgismenn hans tóku mikla pólitíska áhættu við það að samþykkja Icesave en hafa enn smá- tíma til þess að sjá að sér, eða nokkra klukkutíma. En Bjarna Benediktssyni & co er það mikil alvara að synda gegn straumi fólksins að þeim verður vart hnikað úr þessu. Það var synd, því að þau voru svo efnileg. Unga fólkið kemst þá fyrr að.

 

Skráið ykkur hjá kjosum.is núna til þess að forsetinn komi aftur til bjargar.

 


mbl.is Fundað um Icesave í Valhöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

64% fleiri já heldur en nei

thumbsdown_icesave.pngViðhorfskönnun MMR sem birt er með fréttinni á mbl.is sýnir að 64% fleiri vilja þjóðaratkvæði vegna Icesave en þau sem vilja það ekki. Ólafur Ragnar Grímsson forseti hlýtur að taka þessu sem skýrum skilaboðum þjóðarinnar í vönduðu 12.000 manna úrtaki um það að hafna beri Icesave III- lögunum staðfestingar. Ef hann efast eitthvað, þá eru 12.000 undirskriftir komnar til þess að hvetja hann til höfnunar staðfestingar og þeim fjölgar stöðugt. Bættu þér við á www.kjosum.is

Þingið og sérstaklega stjórnarandstaðan (XD) brást í því að túlka vilja þjóðarinnar. Nú eru góð ráð rándýr. Finnast þingmenn með eðlilega samvisku eða eru allir orðnir eins og Steingrímur J.: að gjalda ósanngirninni atkvæði með hreina samvisku .

Verst er að ekki hefur tekist að sjá hver ætlar að fjármagna (og greiða) vitleysuna  og með hvaða skilyrðum eða samningum. Þær upplýsingar munu líklegast koma of seint, NEMA forsetinn fáist til að bjarga þjóðinni í annað sinn með því að hafna Icesave III.

 


mbl.is Meirihluti vill þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís: kennslubók í atvinnuleysi

houseofeurope.pngSvandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra væri ekki stætt enn sem ráðherra í öðru ríki en okkar, þar sem æðsta stjórn fær að standa eftir 98% þjóðaratkvæðagreiðslur gegn vitleysunni í henni og margfalt atvinnuleysi sem stjórnin skapar með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi.

Allt fyrir hugsjónina

Hvað þarf yfirleitt til þess að ráðherra segi af sér? Verður það bara að tengjast kynlífi eða brennivíni, eða einhverju álíka mikilvægu? Af hverju er ekki nóg að ráðherrann standi ítrekað gegn vilja þegna sinna og valdi tugþúsundum manna búsifjum með aflóga hugsjónum sínum, sem eru í engu samræmi við lög, heldur eru beinlínis í trássi við lög landsins?  Svandís hefur gert yfrið nóg, með öllum sínum bremsum og álögum, til þess að hún ætti að vera sett í nálgunarbann við framkvæmdir og tína frekar fjallagrös. Þá tæki atvinnustig landsins kipp.

Að hætti Mubaraks

Á meðan þetta er skrifað  segir Mubarak tugmilljóna þjóð sinni Egyptum að hann muni sitja sem fastast, sama hvað á gengur. Svandís, Jóhanna og Steingrímur J. hanga líka enn á stöðum  sínum, eftir öll sín risa- axarsköft. Af hverju? Af því að við leyfum þeim það eða styðjum það jafnvel, eins og stuðningsmenn Icesave meðal Sjálfstæðismanna innsigluðu með tandurhreinni samvisku við aðra umræðu á Alþingi á dögunum.

Vík burt!

Ég segi hið sama og Egypska þjóðin: Nú er nóg komið, vík burt! Leyfið lýðræði að komast að með þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave og ESB- aðlögunina, en umfram allt, farið frá strax svo að kosningar geti afhjúpað allt það þingfólk síðustu ára sem flöktir með skoðanir sínar eins og lauf í vindi, allt í nafni samstöðu og málamiðlana en skilar engu nema álögum og atvinnuleysi.


mbl.is Umhverfisráðherra segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave- ESB-aðlögun ekki tengd?

Gefum okkur að Icesave- uppgjör og ESB- aðildarumsókn séu ekki tengd mál, þótt erfitt sé að ímynda sér það. Gefum okkur líka að Sjálfsæðisflokkurinn hafi átt drjúgan þátt í Icesave- samningaferlinu. Samt segi ég við þingmenn flokksins:  ekki staðfesta Icesave.  Smá- klúður í fortíð þarf ekki að vera risaklúður framtíðar, sama þótt verið sé að bjarga andlitum og stolti margra. Um er að ræða fjöregg fjöldans, viðkvæman hagvöxt í náinni framtíð.

Gefum okkur líka að ESB- aðildarumsóknin verði dregin til baka um leið og flokkurinn kæmist til valda. Það líst mér á!  Forystan þarf bara að taka þetta skýrt fram strax og þá rýkur kjósendatalan upp í skoðanakönnunum.

Ef Icesave III fer í þjóðaratkvæði eða fær ekki lokasamþykki, þá erum við í góðum málum. En líkurnar þverra með hverjum deginum.


Næsta síða »

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband